28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í B-deild Alþingistíðinda. (173)

1. mál, fjárlög 1923

Björn Hallsson:

Við þingmenn N.-M. eigum 28. brtt. á þskj. 153. Jeg vil nú leyfa mjer að fara um hana nokkrum orðum, en jeg get verið stuttorður, því háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) hefir talað ítarlega um brtt. 29 á sama þskj., en hún fer mjög í sömu átt. Þessar 2 brtt. eiga það sameiginlegt, að þær vilja báðar fá lán til klæðaverksmiðju á Austurlandi, en ber aðeins á milli um það, hvort rjett muni vera að ákveða þessari verksmiðju stað hjer á Alþingi. Jeg og háttv. samþingismaður minn (Þorst.J.) viljum ekki staðbinda þessa verksmiðju hjer, heldur viljum við fá rannsókn af hendi verkfræðings og hlíta hans áliti um það, hvar best muni að hafa hana þar austurfrá.

Bæði á Reyðarfirði og Seyðisfirði hafa verið stofnuð fjelög í þessu skyni; hafa þau oftsinnis óskað eftir rannsókn ámálinu. Um þingtímann í fyrra sendu Seyðfirðingar mjer skeyti, og Seyðfirðingar hafa sent stjórnarráðinu annað sama efnis, og óskuðu eftir þessari rannsókn. Hið sama gerði og fundur, sem haldinn var uppi á Hjeraði, og að lokum skrifaði jeg stjórninni í þinglokin í fyrra, en stjórnin hefir ekkert gert. Það er því fullkomlega rangt að halda því fram, að við þm. N.-M. viljum spilla málinu, þótt við viljum, að málið sje rannsakað nokkuð, áður en ákveðinn er staður fyrir þessa verksmiðju. Seyðfirðingar vildu fá þessa rannsókn í fyrra sumar, en fyrst það fórst fyrir, þá nú í sumar, samkvæmt þingsál. síðasta þings.

Staðhættirnir hafa nokkuð verið rannsakaðir á Reyðarfirði, og það er líklega rjett, að þeir munu vera góðir, en þeir munu vera engu síður góðir á Seyðisfirði. Virðist því fullkomlega rjett á litið, að verkfræðingur rannsaki, hvor staðurinn er álitlegri, að öllu athuguðu, og vilja Seyðfirðingar hlíta úrskurði hans.

Mjer virðist það fullkomlega óþingleg aðdróttun, sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) beindi til okkar þingmanna N.-M., að við vildum spilla máli okkar eigin landsfjórðungs. Jeg get bent háttv. deild á, að jeg sæki allar nauðsynjavörur til Reyðarfjarðar, og á því þangað oft erindi; það mundi því haganlegra fyrir mig persónulega, að verksmiðjan kæmi á Reyðarfirði, en það, sem fyrir okkur vakir, er ekki það, að fá hana á Seyðisfirði, því okkur er sama hvar á Austurlandi hún verður, heldur hitt, að tryggja með rannsókn, að hún verði þar sett, sem staðhættir eru bestir. Við viljum enga hreppapólitík styðja í þessu máli, eins og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.).

Mjer virtist undarlegt að háttv. 1. þm. S.-M. var kaldari til okkar þm. N.-M. en til þess háttv. þm., sem setur fleyg í málið, sem líklegt er, að kljúfi það; jeg á hjer við hv. 1. þm. Árn. (E. E.), því jeg tel það fleyg í málinu, ef á að styrkja 2 verksmiðjur í einu, því að mínum dómi er það ekki hægt, nema þá svo lítið, að engu muni. Hinsvegar er það sannfæring mín að ef reisa á slíka verksmiðju bráðlega, eigi það að vera á Austurlandi, og á það eftir allri sanngirni að ganga fyrir Suðurlandi. Til þess að rökstyðja mál mitt, vil jeg benda á, að hjer sunnanlands er Álafossverksmiðjan, og því miklu hægara fyrir Sunnlendinga að sækja þangað heldur en fyrir Austfirðinga til Álafoss eða Gefjunar á Akureyri. Auk þessa tel jeg 1. þm. Árn. (E. E.) valda því, að lánið, sem farið er fram á, er svo lágt, sem raun ber vitni; virðist mjer því þessi háttv. þm. verða frekar til að fella þetta mál, eða spilla því að minsta kosti. en nokkur annar.

Þá beiddist hv. l. þm. S.-M. (Sv.Ó.) þess, að við tækjum þessa brtt. aftur. Jeg sje enga ástæðu til þess, því okkar till. getur síst spilt málinu; en þó skal jeg játa, að einn hlutur gæti valdið því, að jeg tæki hana aftur, og hann er sá, að jeg gæti með því komið fleyg 1. þm. Árn. (E. E.) út úr spilinu, því bæði þykir mjer hann eiga það skilið, og svo mundi það verða til þess, að lánið til verksmiðju á Austurlandi yrði hækkað.

Loks tel jeg þetta óeðlilegt kapphlaup á milli þessara fjórðunga, þegar þess er gætt, að enginn undirbúningur er enn í þessu máli á Suðurlandi, hvað hlutasöfnun snertir, og þeirra beiðni verður til þess að lækka lánið til Austurlands.

Þá sagði háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.), að við hefðum leitað uppi brtt. þessa á skrifstofu Alþingis og ritað hana af. Þetta skal jeg játa og skammast mín ekki fyrir, því jeg tel skrifstofuna ekki launkofa, sem lokaður sje fyrir þingmönnum, heldur þeim heimilt að lesa þar tillögur og önnur skjöl. Jeg þóttist þess fullviss, að þessi brtt. hans mundi koma, en vissi annars, að nú voru síðustu forvöð að gera brtt. fyrir þessa umr. og við höfðum engan tíma til umhugsunar. Þess vegna varð till okkar, því ver, ekki róttækari en hún er.

Það er rjett hjá hv. l. þm. S.-M., að meira hefir verið unnið að þessu máli á Reyðarfirði en á Seyðisfirði, enda hafa þeir lagt meira kapp á að staðbinda verksmiðjuna hjá sjer; hafa þeir hafið hlutasöfnun í því skyni. Á Seyðisfirði vildu menn ekki byrja verulega á því fyr en málið væri rannsakað til hlítar; þó mun þegar hafa verið safnað nokkru, er þetta fjelag var stofnað um sýslufund í fyrra. Með frekari framkvæmdir hafa því Seyðfirðingar beðið eftir rannsókn. Jeg vil nú á engan hátt reyna að gera upp á milli þessara staða, því jeg legg aðaláhersluna á það, að þessi verksmiðja komi sem fyrst einhversstaðar eystra. En jeg get ekki fallist á það, að við þingmenn N.-M. spillum þessu máli, heldur þætti mjer hitt líklegra, að það spilti málinu heima í hjeraði, ef það væri staðbundið hjer á Alþingi.

Jeg skal ekki rýra það, að aðstaða Reyðarfjarðar er góð og að honum liggja þjettbýlar sveitir, en það sama er að segja um sveitirnar kringum Seyðisfjörð; nægir þar að benda á Vopnafjörð, sem er fólksflesti hreppur sýslunnar, og Borgarfjörð að norðan, en að sunnan Norðfjörð og Mjóafjörð, þar sem háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á heima. Þannig má lengi telja báðum stöðunum margt til gildis, og er því verkfræðingur sá, sem á að skera úr sem óhlutdrægur dómari. Jeg lengi svo ekki umræður með því að tala um aðrar breytingartillögur. Atkvgr. nægir. Vænti þess aðeins, að háttv. þingdeild samþykki till. okkar þingmanna Norðmýlinga.