03.04.1922
Neðri deild: 39. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í D-deild Alþingistíðinda. (1742)

73. mál, lánveitingar úr Ræktunarsjóði

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Mjer finst öðruvísi við bregða nú en um daginn, þegar verið var að samþykkja lánveitingar úr viðlagasjóði, og þó veit jeg ekki betur en sá sjóður eigi líka að leggja fram eina miljón til bankans. Og ekki tel jeg rjett að gera of mikið úr því, sem hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) var að tala um sölu íslenskra verðbrjefa erlendis. Jeg veit til þess, að í einum banka erlendis liggja 63000 kr. í veðdeildarbrjefum, og hefir ekki fengist hærra boð í þau en 72 íslenskar krónur í hvert 100. Og frá mínu sjónarmiði er nú dálítið varasamt fyrir oss að reyna að selja mikið af brjefum út, meðan gengið er eins lágt og nú er.

Það munu líka helst vera skuldabrjef bæjarfjelaga, sem nú eru seljanleg erlendis, og þá af því, að vextir eru þar talsvert háir, 6 og 6½%, og jafnvel hærri.