28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, fjárlög 1923

Sigurður Stefánsson:

Það er nú líklega gagnslítið fyrir sparnaðarnefnd að tala frekar fyrir brtt. sínum, því atkvgr. hefir sýnt, að þær hafa lítinn byr í háttv. deild, og er líklega rjettast að taka þær aftur og spara með því tíma og þingfje. Býst jeg við, að hugir manna sjeu hinir sömu til þeirra brtt., sem eftir eru, og að þeim sje þegar fyrirfram dauðinn vís. En þeir um það háttv. þingdm. og ekki ætla jeg mjer þá dul, að orð mín breyti atkv. nokkurs manns, en hitt finst mjer ekki óviðeigandi að rekja í fáeinum dráttum sögu sparnaðarnefndar og víkja að því, hvers vegna hún var skipuð. Sagan hefst á öndverðu þingi og eru heimildirnar að finna á þskj. 21. Það er þál.till og hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skipa 5 manna nefnd til að rannsaka fjárhagsástæður ríkisins og gera tillögur um sparnað á ríkisfje, svo sem með niðurlagningu miður nauðsynlegra embætta, sameiningu þeirra opinberu starfa, sem samrímanlegir eru“ o. s. frv.

Og í ástæðum fyrir þál.till. segir:

„Það er alkunna, að mjög mikil fjárkreppa er hjer á landi nú, bæði hjá einstaklingum og einnig hjá ríkissjóði“. Þetta segja flm., og eina ráðið til þess að bæta úr þessu og komast úr fjárkreppunni verður aðeins „með ýtrasta sparnaði á öllum sviðum“. eða eins og þeir orða það sjálfir: „Úr þessari kreppu verður eigi frá voru sjónarmiði bætt, nema með hinum ýtrasta sparnaði á öllum sviðum“.

Þegar athugað er nú, að flm. þessarar þál.till. eru allir úr flokki núverandi stjórnar eða stuðningsmenn hennar, þó að hún væri ekki sest að völdum þá, hefði maður vænst, að till. sparnaðarnefndar fengju betri byr en raun hefir á orðið. Og ekki síður fyrir það, að einmitt núverandi stjórn hóf svo göngu sína, að hún virtist ætla að heimta „ýtrasta sparnað á öllum sviðum“, þó að bæði mjer og öðrum verði að efast um, að þar hafi hugur fylgt máli.

En nú er öllum ljóst, að till. sparnaðarnefndar hafa mætt mikilli mótspyrnu og henni mestri úr hörðustu átt. Jeg segi úr hörðstu átt, því engir hafa harðara snúist í móti till. sparnaðarnefndar nje þyngra lagst á móti okkur en stjórnin og fylgifiskar hennar. Nefni jeg þar fyrst hæstv. forsrh. (S. E.) og háttv. þm. Dala. (B. J.). Jeg minnist ekki að annarsstaðar frá hafi komið harðari mótmæli, og öllum okkar till. hafa þeir í móti mælt. Þetta verður því merkilegra, þegar litið er á, hvernig nefndin hefir orðið til.

Jeg held að ekki verði þó annað sagt en að nefndin hafi unnið í fullu samræmi við þál.till. og í anda stjórnarinnar eftir prógramræðu hennar að dæma.

Nefndinni hefir ekki verið markaður bás á neinu vissu sviði eða öðru en því, sem till. nefnir, og þar er fyrirskipað að viðhafa „ýtrasta sparnað á öllum sviðum“. Þeirri meginreglu hefir hún fylgt og farið eftir því erindisbrjefi, er henni var gefið, þegar þingd. samþykti till. um að gæta hins mesta sparnaðar.

Þannig var það að minsta kosti á öndverðu þingi, að allir þóttust finna þörf hins ýtrasta sparnaðar. En þetta hefir breyst og einkum hjá núverandi hæstv. stjórn. Virðist nú sem hæstv. forsrh. (S. E.), að minsta kosti, hafi snúið sparnaðarhugtakinu við og vilji nú í staðinn fyrir „ýtrasta sparnað á öllum sviðum“ viðhafa sem allra minstan sparnað. Og eftir höfðinu dansa limirnir.

Jeg skal ekkert um það segja hvers vegna þessi hugarbreyting er á orðin, en hún er auðsæ hverjum sem vill líta á það með sanngirni, og á því hefir sparnaðarnefndin mátt kenna. Nú er hún skömmuð fyrir alt, sem hún gerir, og gefið ýmislegt það að sök sem hún á engan þátt í.

Það var sagt í gær, að sparnaðarnefnd vildi vera yfirfjárveitinganefnd þingsins. En það eru staðlausu stafir, eins og svo marg annað fleipur, sem dunið hefir á nefndinni. Það hefir verið fullkomin samvinna á milli nefndanna og hún í öllum aðalatriðum í besta lagi.

Það var tekið fram í gær af stjórninni eða hæstv. forsrh. (S. E.), því að hann hefir helst orðið fyrir svörum af stjórnarinnar hálfu — hinir ráðherrarnir hafa minna talað og mælt af fullu viti og sanngirni, það sem þeir hafa sagt, en hjá hæstv. forsrh. (S. E.) hefir það orðið eins og við var að búast — já, það var tekið fram af hæstv. forsrh. (S. E.), að prógram stjórnarinnar væri í fullu samræmi við sparnað þann, sem fráfarin stjórn hefði viðhaft, er hún samdri fjárlagafrv., og að þessi stjórn vildi því taka hina fyrri til fyrirmyndar. (Forsrh.: Þetta eru hreinustu ósannindi). Það dugir ekki fyrir hæstv. forsrh. (S. E.) að mótmæla þessu, því jeg skrifaði orðin niður jafnóðum og hann talaði. (Forsrh.: Þm. hefir þá algerlega misskilið mig). Ó nei, jeg misskildi ekkert, og nú verður mjer að spyrja: Hvers vegna reri hann að því öllum árum að koma þeirri stjórn frá völdum, er viðhafði svo mikla sparnaðarviðleitni í fjármálum landsins, að hann tók hana sjer til fyrirmyndar og ætlaði að feta í fótspor hennar? Var svo nauðsynlegt að koma stjórninni frá, úr því taka átti upp sömu stefnu og hún hafði haldið fram á sparnaðarbrautinni? Jeg beini þessu til hæstv. forsrh. (S. E.), því á honum hefir mest borið í öllu þessu sparnaðarhjali stjórnarinnar.

Sparnaðarnefndin hefir tekið sjer það nærri, að till. hennar hafa verið feldar. Enda er það áreiðanlegt, að hún hefði ekki komið með þær, eða ekki svona margar, hefði hún vitað fyrir, að stjórnin og fylgifiskar hennar myndu jafneindregið leggja á móti þeim því að það er henni kunnugt að öll þessi mótspyrna og alt þetta þrátt um till. nefndarinnar hafa bæði lengt þingtímann og eytt miklu fje.

Að vísu skal jeg geta þess, að háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hefir verið sjálfum sjer samkvæmur og fylgt stefnu þeirri, er hann og meðflm. hans að till. á þskj. 21 hjeldu fram. Sama verður ekki sagt um háttv. þm. A.-Sk. (Þorl.J.): hann hefir oftast greitt atkv. á móti till. nefndarinnar.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) var að ýmsu leyti sanngjarn í garð nefndarinnar. Þó verð jeg að mótmæla þeim misskilningi hans, að nefndin hafi í till. sínum átt að búa í garðinn fyrir næsta þing. Nefndin skildi hlutverk sitt svo, að hún ætti þegar að láta til sín taka á þessu þingi, þó að hinsvegar hafi hún orðið að benda á ýmsar breytingar, sem ekki koma þegar til framkvæmda, og aðrar, sem vel gætu beðið. En nefndin hefir reynt að starfa í samræmi við erindisbrjef sitt og koma með þær till., sem miðuðu í þá átt að minka tekjuhalla ríkissjóðs.

Og hvað sem annars verður sagt um till. nefndarinnar, þá verður aldrei sannað, að ein einasta þeirra skaði landið.

Jeg ætla ekki að fara að eltast við allar ákúrurnar, sem nefndin hefir fengið, nje svara hnútum þeim, er að henni hefir verið kastað, því um það alt saman má segja, að sumt var af litlu viti og sumt af engu viti mælt, eins og það, sem háttv. frsm. (B. J.) hafði fram að færa. Jeg get ekki tekið skammir og skæting, háð og hlátur sem fullgild rök á móti sparnaðartill. nefndarinnar. Það þarf annað til að sannfæra mig, jafnvel þó að það komi frá stjórninni. Jeg vil þó undantaka hæstv. atvrh. (Kl.J.): Hann talaði af gætni og stillingu og skynsamlegu viti, eins og honum er lagið.

Jeg skil ekki, að þeir menn, sem hafa viljað leggja niður alla vegagerð í landinu, eins og t. d. háttv. frsm. (B. J.), „falli í stafi“. eins og annar fjármálaspekingur deildarinnar orðaði það hjer um daginn, þó að þeir sjái þessar gætnu og rjettlátu sparnaðartill. nefndarinnar.

Jeg álít ekki þýða, að jeg fari út í hverja einstaka till. sparnaðarnefndar. Það eru alt fremur smáar upphæðir, en spari maður ekki smátt, þá á maður fátt.

Jeg vil þó benda á einn lið, sem líklega verður háttv. frsm. hneykslunarhella og stjórnarliðinu. Þessi liður er fjárveitingin til Páls Þorkelssonar til að vinna að málsháttasafni sínu. Mjer er ekki kunnugt, hvað maður þessi hefir unnið að þessu starfi efra hvort hann hefir unnið nokkuð, en nú nýlega hefir hinn frægi vísindamaður Finnur Jónsson gefið út málsháttasafn, og hygg jeg, að hann hafi ekki mikið eftir skilið og tvö málsháttasöfn voru til áður. Hygg jeg því að þessi akur sje fullplægður, enda er fengin full trygging þess, úr því að Finnur Jónsson hefir lagt þar hönd á plóginn.

Þessi maður hefir aftur á móti ekkert sýnt og brestur flest skilyrði til þess að leysa þetta verk af hendi.

Það var rjett hjá hæstv. atvrh. (Kl.J.), að mjer er sárt um margt, sem heyrir undir XIV. lið brtt., en mjer er enn sárara um það að skila fjárlögunum með stórum tekjuhalla ár eftir ár. Er hjer aðeins um frestun að ræða, en alls ekki tilgangurinn, að styrkurinn falli niður fyrir fult og alt. En það þarf sannarlega brjóstheilindi til hjá háttv. frsm. (B. J.), sem leggur til að vegir allir sjeu lagðir niður, að snúast eins og mannýgt naut í flagi við rauðri dulu gegn þessum brtt. Sama er að segja um XXII. lið brtt. Jeg viðurkenni, að þessi styrkur getur oft komið að gagni, en sumir verja honum einungis til að fara lystitúra.

Hæstv. forsrh. (S.E.) sagði, að jeg hefði talað um sparnaðinn með heilagri alvöru, og þetta hneykslaði hann. Jeg skammast mín nú ekkert fyrir það, þótt jeg tali ekki brosandi um fjárhaginn.

Þá talaði hann um sólskinsbrosið, sem hefði komið á andlit mitt, er hæstv. atvrh. nefndi Hesteyrarsímann. Jeg skal viðurkenna, að orð hæstv. ráðherra fremur glöddu mig en hrygðu, en þar fyrir átti jeg engan þátt í, að till. þessi kom fram og bjóst ekki við henni. En það sýnist mjer undarlegt, ef hæstv. forsrh. ætlast til þess, að jeg hefði ráðist á kollega hans og húðskammað hann fyrir hana.

Annars held jeg, að þeir fái tæplega brugðið mjer um hreppapólitík, og geti þessir herrar ekki bent á eina einustu till. frá mjer, sem fer í þá átt, þá eru þessi orð þeirra ómerk ummæli athugunarlausra manna. Enda hefi jeg lýst því yfir hjer í heyranda hljóði, að síðustu orð kjósenda minna til mín voru þau, að jeg skyldi stuðla að því eftir mætti að fjárlögin yrðu tekjuhallalaus. Jeg fer því einungis eftir sannfæringu minni og umboði kjósenda.

En við því get jeg ekki gert, þó að till. mínar falli í grýttan jarðveg. En jeg hefi ekki breytt skoðunum mínum, þó að herrarnir á þeim hærri stöðum hafi gert það.

Jeg veit, að till. sparnaðarnefndar lúta að því að draga úr styrknum til vísinda og lista, en þörfin er bráð að spara eitthvað, til þess að eiga krónunni fleira til þess að efla framleiðsluna og ræktun landsins. Jeg hefi líka orð háttv. frsm. (B. J.) fyrir því, að þjóðin sje vel mentuð, en sá góði maður verður að játa, að landið er ekki í eins góðri rækt og hugtún þjóðarinnar.

Liggur því mest á því að snúa sjer af alefli að ræktun landsins, enda þótt það kunni að hafa í för með sjer óþægindi fyrir einstaka menn.

Það er auðvitað að skoðað frá pólitísku sjónarmiði ættum við síst að vera að leggja okkur í líma að fá tekjuhallalaus fjárlög. Þegar stjórnin vill hið gagnstæða. En jeg er nú svo gerður, að jeg get ekki horft upp á þennan fjárhag okkar og vil leggja alla mína krafta fram til þess að bæta hann. Vil jeg því fylgja sparnaði á öllum sviðum og frá hverjum sem hann kemur, og það skal jeg segja hæstv. forsrh. (S. E.), að brosið á andliti mínu verður enn meira heldur en það var vegna Hesteyrarsímans, þegar hann kemur með hinar velhugsuðu sparnaðartill. sínar á næsta þingi.

Háttv. frsm. (B. J.) nefndi sparnaðarnefnd Búkollu, og er þetta hið mesta virðingarnafn. Því Búkolla þessi var hinn mesti dánumannsgripur, og hefði þessi kostagripur setið í þingsæti Dalamanna, þá hefði það verið betur skipað en það nú er. (B. J.: Það hefir nú flogið undir hana í dag). Nei, en það hefir flogið undir Dalamannabeljuna. Það eru ekki þarfir menn, sem líta alt í fullveldishillingum, en láta sig engu skifta fjárhag fullvalda ríkisins. Jeg gef ekki túskilding fyrir fullveldið, ef þjóðin er eins lítill kostagripur og þessi Dalamannabelja hefir jafnan verið, svo fóðurfrek sem hún líka hefir verið.