21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 65 í D-deild Alþingistíðinda. (1752)

61. mál, breyting á hæstaréttarlögum

Forsætisráðherra (S. E.):

Það er aðalatriðið í þessu máli, hvort sú trygging fyrir sem rjettustum úrslitum, sem gerð er krafa til hjá þessum dómstól, verði ekki minni við fækkun dómendanna, eins og gert er ráð fyrir í till. Sjerstaklega kemur þetta enn alvarlegar til íhugunar, meðan dómstigin eru aðeins tvö og málin því eðlilega ver undir búin áður en þau koma fyrir hæstarjett. Og eins og jeg hefi áður tekið fram, teldi jeg þetta þó miklu aðgengilegri leið heldur en þá, sem kom fram í frv. því, er felt var í hv. Nd., þar sem gert var ráð fyrir, að hið þýðingarmikla dómarastarf hæstarjettar yrði gert að aukastarfi, en aðalstarf dómendanna yrði kensla við háskólann. Til athugunar má því taka þetta atriði.

Þá er hitt atriðið, hvort málaflutningurinn skuli vera munnlegur eða skriflegur. Þar er jeg hræddur um, að hv. flm. (S. St.) hafi verið fullfljótur að mynda sjer skoðun. Jeg gæti ímyndað mjer, ef leitað væri álits þeirra lærðu um þetta atriði, að þá yrðu þeir ekki færri, sem teldu meiri tryggingu í munnlega málaflutningnum heldur en þeim skriflega. Í munnlega málaflutningnum fer alt svo að segja fram fyrir opnum dyrum, en hið sama verður ekki sagt um skriflega málaflutninginn. En í þessu liggur hin aukna trygging. Hv. þm. (S. St.) vjek að því, að ef málaflutningurinn væri munnlegur, þá gæti ýmislegt farið fram hjá dómaranum. Þetta getur auðvitað hugsast, en varla mun þó neitt, sem máli skiftir, fara fram hjá æfðum dómara, og svo er á hitt að líta, að ef málaflutningsmennirnir eru góðir, þá verður málið enn þá meira lifandi í höndum þeirra heldur en það nokkurn tíma getur orðið við skriflegan málaflutning. Auðvitað þarf að semja útdrátt úr málsskjölunum, en hins vegar losna þeir við að skrifa vörn og sókn í málum, og ætti það að vera ljettir.

Þá fer till. fram á það, að stjórnin skipi ekki dómaraembætti, þá er það losnar, en það verð jeg að álíta viðsjárvert. Með því hefir umboðsvaldið alt of mikið vald yfir dómstólunum og skerðir með því það sjálfstæði þeirra, sem viðurkent er að nauðsynlegt sje.

Jeg get því ekki lofað því, en hitt er annað mál, að það mundi ef til vill verða dregið um skemri tíma að skipa þessi embætti, ef stjórnin væri ákveðin í því að leggja til, að dómurunum yrði fækkað.

Jeg get ekki sjeð, að samræmi sje á milli till. og niðurlagsorða greinargerðarinnar. Það er aðeins mælst til þess, að stjórnin rannsaki málið, og það hefir hún nú lofað að gera, en till. má skilja svo, þótt það væntanlega hafi ekki verið tilætlun nefndarinnar, að þingið vilji fyrirfram binda stjórnina við ákveðna tillögu um fyrirkomulag hæstarjettar. Jeg vil því spyrja hv. frsm. (S. St.), hvort hann sjái sjer ekki fært að taka till. aftur, eftir að hafa heyrt þessi svör stjórnarinnar?