21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í D-deild Alþingistíðinda. (1754)

61. mál, breyting á hæstaréttarlögum

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg álít, að það sje engin nauðsyn á þessari till., svo framarlega sem nefndin ætlar sjer ekki að binda stjórnina með henni. Stjórnin er margbúin að lýsa yfir, að hún meðal annars ætli að rannsaka þetta atriði. Jeg álít, að þar sem um svo tekniskt mál er að ræða sem hjer er, sje naumast ástæða til að vænta þess, að hv. þm. sjeu tilbúnir að greiða um það atkv. En svona mál er sjálfsagt að fela stjórninni, sem vitanlega mun leita sjer allrar þeirrar bestu aðstoðar, sem hjer er völ á. Hvað sjerstaklega viðvíkur málafærslunni, vísa jeg til þess, sem jeg hefi áður sagt, að meiri trygging muni talin í munnlegu málafærslunni en þeirri skriflegu. Yfir höfuð er alt þetta mál þannig vaxið, að rannsókn er nauðsynleg, og má þá að sjálfsögðu einnig taka til yfirvegunar málaflutningsatriðið.