28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

1. mál, fjárlög 1923

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg þakka háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) hin hlýju ummæli hans í garð meðráðherra minna. Hann taldi þá bæði sparnaðar- og atorkumenn, og þar sem annar þeirra er atvinnumálaráðherra en hinn fjármálaráðherra, þá er sannarlega góðs að vænta, sjerstaklega er ummæli þessi koma frá andstæðingunum, og má jeg því skoða þetta sem vottorð um, að valið hafi tekist vel. Ummælin um mig hafa aftur á móti lítið að segja, þegar athugað er, hvaðan þau eru runnin. Þessi háttv. þm. (S. St.) sagði í gær eftir mína hógværu ræðu, að nú mundi koma gusa. Hún kom áðan, en það er ekki í fyrsta skifti, sem jeg hefi fengið slíka gusu, og jeg held að jeg kynni hálfilla við mig, ef jeg fengi þær ekki öðru hvoru.

En nú kem jeg með mjög eftirtektarverða sparnaðartill., og hún er sú, að þessi ræða háttv. þm. verði prentuð í stóru upplagi og henni útbýtt meðal þm. hvenær sem sparnaðarnefnd kemur með nýjar till. Það er ógrynni fjár, sem farið hefir í þessar sparnaðarræður háttv. þm. (S. St.) og allar þær ræður, sem út af þeim hafa spunnist.

Háttv. þm. segir mig hafa barist á móti öllum sparnaðartill., en það, sem hneykslunum veldur, er afstaða mín gagnvart háskólanum.

Jeg hefi verið á móti því að skera hann í fæðingunni niður við trogið, og getur nokkur undrast á þó að kenslumálaráðherra taki það sárt. Jeg er líka þarna í samræmi við háskólaráðið og vonir þjóðarinnar. Annars á jeg erfitt með að skilja hvernig háttv. þm. (S. St.) fær komið ósparnaðar stimplinum á mig eða borið mjer á brýn, að jeg hafi rofið þau loforð. sem jeg gaf í stefnuskrárræðu minni. Jeg hefi ekki komið með eina einustu till., sem farið hefir í þá átt að auka við útgjöldin í fjárlagafrv. fráfarinnar stjórnar, sem háttv. þm. (S. St.) tilbað. Er þetta því aðeins tilraun til að koma með ósæmilegar getsakir, sem naumast eru svaraverðar.

Annað atriðið, sem jeg hefi átt að sýna ósparnað í, er það, að jeg hefi snúist gegn þeim mönnum, sem draga vilja úr alþýðumentun þessa lands, en það má hver sem vill bera brigsl á mig fyrir þann ósparnað. Jeg kikna ekki undir þeim. Því betur sem alþýðan er mentuð, því betur skilur hún það sanna og rjetta í hverju máli og lætur ekki ósönnuð gífuryrði glamraranna blekkja sig.

Þá sagði sami háttv. þm., að það hefði verið besta samvinna millum sparnaðarnefndar og fjvn., en hafi jeg tekið rjett eftir atkvgr. í gær, þá sá jeg ekki betur en að fjvn. greiddi atkv. móti öllum tillögum sparnaðarnefndar nema einni, enda var óhugsandi, að fjvn. gæti fylgt henni að málum.

Háttv. þm. (S. St.) sagði, að jeg hefði sagt, að jeg fylgdi sparnaðarstefnu fyrverandi stjórnar. Það hefi jeg aldrei talað, hamingjunni sje lof. En hitt hefi jeg sagt, að þar sem jeg hefi ekki komið fram með neina hækkun á fjárlögunum, þá sje ekki hægt að kalla mig ósparsaman fyrir það sama sem hún er kölluð sparsöm fyrir. Og eitt verð jeg að taka fram að það er langt síðan jeg tók að veita því eftirtekt, að hættulegt geti orðið að afgreiða fjárlögin með tekjuhalla ár eftir ár. Og það er langt síðan jeg fór að berjast fyrir því, að svo yrði ekki, enda fjekk jeg sem fjármálaráðherra óvinsældir hjer í þinginu hjá ýmsum fyrir það, hve hart jeg barðist gegn fjárlagahallanum. Og jeg hefi jafnan kostað kapps um að mynda mjer sem best heildaryfirlit yfir allan fjárhag ríkisins, enda innleiddi jeg fyrstur þá sjálfsögðu fjármálareglu hjer í þinginu, því það er langt síðan mjer varð það ljóst, að yfirvofandi fjárhagsvoða verður ekki afstýrt með því að einblína sífelt á þessar smáupphæðir, sem eilíflega er hægt um að deila, heldur er það hitt, sem á ríður að hafa gott yfirlit yfir allan fjárhag landsins og vita, hvernig stóru upphæðunum á að verða varið og hvað landið þoli mikinn halla. Annars verð jeg að játa það, að mjer finst framkvæmdir háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) í þessari svo nefndu sparnaðarnefnd fremur stílaðar upp á það að sýnast heldur en hitt, því flest orð hans og till. bera vitni um óvandvirkni og athugaleysi. Hann sagði áðan, þessi háttv. þm., að jeg hafi lýst yfir því, að mjer virtist fjárhagur landsins glæsilegur. Þetta eru hrein og bein ósannindi. Og jeg skal bæta því við, að jeg álít, að þeir menn geri sjer glæsilegar vonir, sem hafa sagt hjer, að gengismunurinn muni vera horfinn um áramótin, þó þetta auðvitað sje ekki útilokað.

Hv. þm. (S. St.) sagði, að það skyldi gleðja sig, er stjórnin kæmi með sitt nýja sparnaðarkerfi. En jeg efast um, þótt stjórninni tækist þetta, að það myndu koma nokkrir sólskinsblettir fram í andliti hans — ef það væri þessi stjórn. Hinu gæti jeg betur trúað, að það brygði þar fyrir einhverri sólskinsglætu, ef stjórninni tækist þetta ekki. Því allan þann tíma, sem við höfum setið saman á þingi, hefi jeg ennþá ekki orðið var við, að háttv. þm. (S. St.) hafi getað litið með sanngirnisaugum á nokkuð það, sem jeg hefi lagt til. En hann má nú mín vegna halda áfram með þessar gusur sínar. Mjer gerir það ekkert til. En til lítils sparnaðar hygg jeg að þær hafi enn orðið fyrir landið þessar sparnaðargusur þessa háttv. þm.