18.04.1922
Neðri deild: 49. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (1766)

86. mál, vöndun umbúða undir útflutningsvöru

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það, sem hv. þm. Mýra. (P. Þ.) bar fram, á alls ekki við um till. okkar. Hann vildi halda því fram, að þetta væri gert í þágu einhvers tunnusmiðs hjer í Reykjavík, en það er alls ekki. Jeg er þeirrar skoðunar, að ef tunnur, gerðar hjer á landi, reynast dýrari en erlendis frá, eða verri, þá eigi ekki að kaupa þær.

Hv. þm. (P. Þ.) gaf það í skyn, að tunnur frá einhverjum sjerstökum beyki hjer í bænum hefðu reynst illa. Jeg þykist vita, við hvað hv. þm. á með þessu skrafi, og skal skýra hv. þm. frá, að alt er það á misskilningi bygt, sem þm. Mýra. (P. Þ.) segir í þessu tilfelli. Tunnurnar voru upphaflega ætlaðar undir lýsi og af beykinum seldar sem lýsistunnur, en eins og menn vita, eru þær tunnur ekki brendar innan, eins og sjálfsagt er að gera með eikartunnur, sem á að láta kjöt í. Er því engin furða, þótt þær hafi ekki reynst sjerlega vel, og verður beykinum tæplega með nokkurri sanngirni kent um þetta.

Annars endurtek jeg það, að þetta kemur ekkert við ástæðunum fyrir till.