18.04.1922
Neðri deild: 49. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (1767)

86. mál, vöndun umbúða undir útflutningsvöru

Bjarni Jónsson:

Eins og hv. flm. (J. A. J.) gat um áðan, þá kom fram á þinginu í fyrra till. til þingsályktunar, sem gekk í líka átt og þessi. Jeg gerði þá ítarlega grein fyrir skoðun minni í þessu máli, og þarf jeg því ekki að vera margorður nú. Þá komu nægar sannanir fram til þess, að auðsætt var, að full ástæða var til að biðja stjórnina um að hafa nákvæmt eftirlit með matsmönnum, svo að vanræksla þeirra yrði ekki til þess að spilla vöruverði voru á erlendum mörkuðum. En ef vel á að vera, þá þarf hjer fleira að gæta en að matsmenn geri skyldu sína. Ríkið ætti einnig að hafa hönd í bagga með þeim mönnum, sem starfa að umbúðagerð þessari. Er t. d. full ástæða til að gæta þess, að þeir menn einir fáist við slíka smíði, sem lært hafa til hennar og eru sínu starfi vaxnir. Er það auðsætt, að eftirlitið eitt, hversu gott sem það væri, er ekki einhlítt til að gera eina ógallaða tunnu, ef engum er á að skipa við starfið, sem kann að smíðinni. Býst jeg t. d. við, að mönnum kæmi saman um það, að sá maður væri ekki alllíklegur til húsagerðar, sem aðeins kynni að reka nagla. Það er eins um tunnusmiði sem aðra menn, að þeir verða að læra sitt handverk, til þess að verða færir um að leysa það vel af hendi. Nú er mjer kunnugt um það, að maðurinn, sem erindið sendi, er ef til vill sá eini hjer á landi, sem kann að þessu starfi. Auk þess er hann vandvirkur maður, og dreg jeg því í efa, að við eigum nú sem stendur völ á öðrum betri til verksins. Tel jeg nú rjett fyrir stjórnina að setja reglur um það, hvaða hæfileika og kunnáttu sá maður þarf að hafa, sem vill taka að sjer þessa smíði. Ætti hún helst að heimta sveinsbrjef af þeim, ekki síður en af öðrum mönnum, sem við vandasama smíði fást.

Þó að hæstv. stjórn geti ekki haft eftirlit með umbúðum alls varnings, sem fer út úr landinu, er samt mikil trygging í því falin, að hún hafi hvöt frá hv. Alþingi til þess að láta menn sína hafa strangt eftirlit með því, að umbúnaður varningsins sje vandaður, og halda að mönnum að skemma ekki vöruna með illum umbúnaði.

Það er áreiðanlegt, að illur frágangur og þar af leiðandi ill sala á afurðum landsins hefir orðið okkur að meira fjártjóni en öll eyðsla þingsins, þó að tekinn sje með allur gjaldaliður fjárlaganna.

Jeg tel sjálfsagt, að till. verði samþykt, og efast ekki um, að hæstv.stjórn geri sjer alt far um að efla eftirlitið og láti menn hafa hitann í haldinu til að gera sitt besta í þessu efni.