25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (1775)

93. mál, lagasetning búnaðarmála

Jón Baldvinsson:

Það má vel vera, að þörf sje á að nýja upp eitthvað af þessum lögum, sem snerta búnaðarmálin. En við fyrsta yfirlestur þessarar till. fanst mjer varla eiga við að taka hjúalögin til meðferðar í þessu sambandi. Það er ekkert minst á það í greinargerðinni, hvað fyrir tillögu manni vaki í þessu efni. En eftir það sem fram hefir komið í framsögu hans, þá sje jeg, að jeg hefi ekki að óþörfu komið fram með brtt. mína. Hann kvað það nefnilega eitt af mestu vandamálunum í þessu efni að ákveða kaup hjúa, og þyrfti að setja fastari reglur um það atriði. Get jeg ekki sjeð, að ef þetta á að vera eitt af aðalatriðum þessara breytinga, að þær yrðu til mikilla bóta. Býst jeg við, að best færi á því, að hlutaðeigendur sjálfir komi sjer saman um kaupið, eins og tíðkast hefir til þessa, enda sje jeg ekki, að slíkt sje neinum vandkvæðum bundið. Fyndist mjer þm. heldur flasfengnir, ef farið væri að gera ákvæði um slíkt sem þetta í lögum, og vænti jeg þess, að hv. deild samþykki brtt. mína.

Hvað till. annars snertir, þá tel jeg hana alls ekkert bráðnauðsynlega, en vil þó hins vegar ekki hafa á móti henni, ef brtt. mín verður samþykt.