25.04.1922
Neðri deild: 55. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í D-deild Alþingistíðinda. (1776)

93. mál, lagasetning búnaðarmála

Flm. (Eiríkur Einarsson):

Jeg vænti þess, að hv. deild sjái sjer ekki síður fært að samþykkja þessa till. mína, þótt hæstv. atvrh. (Kl. J.) hafi sagt, að framkvæmd hennar muni hafa einhvern kostnað í för með sjer. Annars er jeg þakklátur hæstv. atvrh. (Kl. J.) fyrir, hve sanngjarnlega hann tók í málið, og vona því fastlega, að hv. þdm. telji það ekki eftir, þótt verja þurfi nokkru fje til framkvæmda máli þessu, og meti hitt meira, hver nauðsyn er hjer fyrir hendi.

Jeg get verið mjög fáorður í svari mínu til hv. 2. þm. Reykv. (J. B.). Jeg er honum samþykkur um það, að hjúakaupgjald er samningsatriði milli vinnuveitanda annars vegar og vinnuþiggjanda hins vegar. Þó getur verið, og er oft, að ekki sje samið um kaupið fyrirfram, og er þá nauðsynlegt, að til sjeu einhver ákvæði um kaupgjaldið, sem hægt sje að leggja til grundvallar, og myndi það ekki síður heppilegt fyrir húsbændurna en hjúin, að slík ákvæði væru til. Finst mjer yfirleitt ekkert eðlilegra en að þetta sje fært í ákveðið horf, svo að einhver fastur mælikvarði sje fyrir kaupgjaldinu. Væri þá landauramælikvarðinn sá sjálfsagði.

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) sagði, að sanngjarnt væri, að þeir, sem færu með búnaðarmálin hjer á landi, ættu tillögurjett um þetta mál. Jeg skal nú gefa þær upplýsingar þessu viðvíkjandi, að jeg samdi þessa till. í samráði við Búnaðarfjelag Íslands, og var það því mjög fylgjandi, að hún væri borin fram. Að öðru leyti get jeg látið þetta vera útrætt mál frá minni hendi, að minsta kosti á meðan ekkert nýtt kemur fram, sem jeg þarf að svara.