05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í D-deild Alþingistíðinda. (1785)

76. mál, baðlyfjagerð innanlands

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg get verið mjög stuttorður, því að landbúnaðarnefndin hefir áður borið þetta mál undir mig og jeg látið álit mitt í ljós við hana. Jeg vil þó taka fram nokkur atriði viðvíkjandi því, hvort sjálfsagt sje eða ráðlegt að hverfa algerlega frá þeim baðlyfjum öllum, sem áður hafa verið notuð hjer á landi. Eins og menn muna, þá ferðaðist norskur maður, Myklestad að nafni, hjer um landið í byrjun aldarinnar og baðaði fje bænda. Baðlyf það, sem hann notaði, var tóbakslögur, og hafði það reynst mjög vel í Noregi. Þóttist Myklestad sannfærður um, að hjer mætti líka útrýma kláðanum með tóbaksböðum, ef rjett væri að farið. Baðaði hann víða hjer, og reyndist það örugt alstaðar, þar sem hann baðaði sjálfur og þeir, sem best kunnu til. Stjórnin keypti nú baðlyf, og var svo haldið áfram að baða úr því, þar sem kláðanum skaut upp, og varð árangurinn góður. Nú finst mjer till. þessi bera vitni um það, að menn vilji alveg hverfa frá tóbakinu sem baðlyfi, að mönnum virðist reynslan búin að sýna það, að tóbaksbaðlyf dugi ekki til útrýmingar kláðanum. Furðar mig dálítið á því, jafnvel og þetta baðlyf hefir einmitt gefist, að landbúnaðarnefndin skuli ekki hafa tekið það líka með í reikninginn. Ýms önnur baðlyf voru og notuð, en um þau voru víst mjög skiftar skoðanir. Man jeg eftir, að harðar ritdeilur voru hjer í bænum fyrir allmörgum árum um þau og gæði þeirra.

Á síðustu árum hefir víst kreólín mikið eða aðallega verið notað til böðunar, og virðist kláði nú vera að færast mjög í vöxt víða á landinu. Hefir sýslumaður Dalasýslu nýlega kvartað undan því, hve útbreiddur kláðinn sje orðinn þar vestra, og sama er að segja um Húnavatnssýslu. Er því auðsætt, að þessi baðlyf eru ekki einhlít, eða ekki nógu rækilega baðað, og liggur því fyrir að gera sem fyrst ráðstafanir til kláðaútrýmingarbaða, sem að gagni koma. Verður þá fyrst að rannsaka, hvaða baðlyf gagni hjer best og hvernig þau verði útveguð með ódýrustu móti. Þessi till. fer fram á, að reynt verði að koma upp innlendri baðlyfjagerð.

Þar sem þessi nauðsyn er fyrir hendi og maðurinn, sem á að hafa umsjón með þessu, er alkunnur hæfileikamaður á þessu sviði, finst mjer rjett að samþykkja till. Og það því fremur, sem hjer er um tiltölulega litla upphæð að ræða, aðeins 10.000 kr., og tilgangurinn auk þess að styrkja innlendan iðnað.

Það hafa komið fram upplýsingar um, að lyfjabúð Reykjavíkur vilji selja kreólín miklum mun ódýrara en það nú er keypt, og tel jeg sjálfsagt að rannsaka, hvort er betra, kreólín eða þetta innlenda baðlyf.

En hver sem afleiðingin af þeirri rannsókn verður, býst jeg samt ekki við, að útrýmingarböðun geti byrjað á þessu hausti eða um jól, en stjórnin mun að sjálfsögðu gera alt, sem í hennar valdi stendur, til að koma málinu áfram sem fyrst og á heppilegastan hátt.

Að lokum skal jeg geta þess, að sennilega verður að breyta gildandi lögum um þetta efni, ef ætlast er til, að bændur sjálfir borgi baðlyfið, en stjórnin aðeins eftirlit með böðuninni. Það atriði þarf að athuga, en till. er jeg meðmæltur.