05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í D-deild Alþingistíðinda. (1786)

76. mál, baðlyfjagerð innanlands

Björn Hallsson:

Jeg er till., sem fyrir liggur, í rauninni samþykkur, en ætla að segja fáein orð út af nokkrum ummælum hv. frsm. (Þór. J.).

Mjer skildist á ræðu hans, að til væri ætlast, að byrjað yrði á útrýmingarböðun næsta haust, en jeg hygg ekki, að við verðum nægilega undir það búnir til þess tíma. Fyrir nokkrum árum var flanað út í útrýmingarböðun með litlum undirbúningi. Árangurinn af því er öllum kunnur, og ódýrt reyndist það ekki. Sannast því á mjer, að brent barn forðast eldinn. Jeg vil, að eigi verði í annað sinn byrjað á þessu fyr en fengin er full vissa fyrir því, að einhlítt baðlyf verði fengið; tóbakið hefir, eins og kunnugt er, ekki reynst vel og er mjög dýrt baðlyf.

Þá skal jeg geta þess, að kláðinn er mjög mismunandi í hinum ýmsu hjeruðum landsins. Sumir landshlutar, eins og t. d. Austurland, geta talist næstum því lausir við fjárkláða. Við fjárkláðaskoðun þá, sem fram fór áður en jeg fór að heiman í vetur, kom ekki fyrir nema ein kind, sem grunuð var um fjárkláða, á öllu Fljótsdalshjeraði, 10 hreppum.

Jeg er því hræddur um, að lögboðin útrýmingarböðun mundi ekki alstaðar mælast vel fyrir, einkum þegar þar við bættist, að bændur ættu sjálfir að kosta lyfið á kláðalausar kindur sínar. En vitanlega vilja margir leggja í nokkurn kostnað, til þess að losna við þennan eilífa kláðagrun.

Góð baðlyf eru fyrst og fremst undirstaðan undir því, að von geti verið um árangur af böðun, hvort sem er kláða- eða útrýmingarböðun. Hins vegar eru baðlyfin dýr, og því mjög áríðandi, að þau sjeu ekki svikin. Jeg er því samþykkur þessari till., tel þörf á, að þetta sje rannsakað. Reynsla okkar eystra er, að kláðinn sje ekki meiri en svo, að það megi halda honum niðri með góðum þrifnaðarböðum. En jeg sje í blöðum og víðar, að kláðinn er magnaður á öðrum stöðum. Hygg jeg, að það stafi af því, að þrifnaðarböðunin sje þar í ólagi, og að ekki hefir verið þá baðað nógu rækilega, þar sem kláði hefir komið upp. En samt er ekki gott fyrir mig að dæma um það til fulls, þar sem jeg þekki ekki af eigin reynslu verulega útbreiddan kláða.