05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 102 í D-deild Alþingistíðinda. (1789)

76. mál, baðlyfjagerð innanlands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Út af því, sem hv. þm. V.-Sk. (L. H.) sagði, að nokkur hjeruð væru laus við fjárkláða, skal jeg skýra frá því, eins og jeg tók fram, að jeg hefi átt tal við dýralækninn um þetta, og kvað hann ekki unt að staðhæfa um nokkurt hjerað, að þar gæti ekki verið fjárkláði, og hjelt hann, að ekki yrði hjá því komist, að böðun færi fram alstaðar.

En hvað snertir það, sem hv. sami þm. (L. H.) sagði, að ekki væri hægt að segja um, hvort allsherjarböðun kæmi að gagni, þá held jeg, að maður verði að fara eftir áliti þess manns, sem mesta þekkingu hefir á málinu. En að baða eingöngu á þeim stöðum, þar sem fjárkláðinn er mestur, hefir enga þýðingu. Eina ráðið er að taka alt landið í heild sinni.

Í sambandi við það, sem hv. sami þm. (L. H.) sagði um Skaftafellssýslur, skal jeg geta þess, að líkur eru máske enn meiri til, þar sem brú er komin á Jökulsá, að fjársamgöngur sjeu enn frekar milli sýslnanna. Annars skal jeg ekki leggja neinn dóm á, hvort kláði er í Skaftafellssýslum eða ekki. Til þess er jeg of ókunnugur.

Jeg skal játa, að það er von, þótt þau hjeruð, sem telja sig laus við kláðann, finnist skattur vera lagður á sig með því að skylda þau til útrýmingarböðunar, en ef það reynist óumflýjanlegt, vona jeg, að þau láti sjer það lynda.