08.04.1922
Neðri deild: 44. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í D-deild Alþingistíðinda. (1794)

76. mál, baðlyfjagerð innanlands

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg þarf litlu við að bæta það, sem jeg hefi áður tekið fram um þetta mál. Jeg varð var dálítils ótta hjá hv. þm. V.-Sk. (L. H.) við, að útrýmingarböðun færi fram á næsta sumri. En jeg get nú fullyrt, að til þess muni ekki koma, og mun því óþarfi að ræða málið frekar á þeim grundvelli. En það, sem þegar hefir unnist í þessu máli, er það, að tilboð um verð á baðlyfjum hefir nú lækkað um helming. En þó að slík tilboð sjeu nú komin fram, þá er þó ekki loku fyrir það skotið, að þau gætu orðið enn þá ódýrari með því að framleiða þau hjer á landi.