22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (1809)

88. mál, saga Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Jeg vil benda hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) á, að það er ekki siður að leita fjárveitinga fyr en eftir á, þar sem þingsályktunarheimild er fyrir. Annars þýðir þessi þál. þá alt annað en venja er til. (Sv. Ó.: Sagan verður ekki skrifuð á einu ári). Nei, en getur verið byrjuð fyrir næsta þing, og til þess þarf þó eitthvert fje. Svo sýnir sig, að árin líða, kostnaðurinn vex, og það, sem átti að nema tugum þúsunda, skiftir hundruðum. Þess vegna vil jeg slá varnaglann strax, svo jeg viti, um hvað sje verið að greiða atkv. Það er sjálfsagt að gefa út afmælisrit Alþingis, því neitar enginn, en það er heimskulegt að gera sjer enga grein fyrir kostnaðinum og fyrirkomulaginu áður en byrjað er. Og það er óforsvaranlegt að greiða um þetta atkvæði í blindni. Þetta rit, sem hjer er „planlagt“, kostar hundruð þúsunda, og það er alt of mikið, hjegómlega og heimskulega mikið.