22.04.1922
Neðri deild: 52. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í D-deild Alþingistíðinda. (1810)

88. mál, saga Alþingis

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) taldi, að æfiágrip þeirra manna, er jeg nefndi, myndi verða ritverk upp á mörg bindi. Jeg nefndi lögrjettumenn, goðana, höfuðsmenn og hirðstjóra, og svo alla þm. síðan Alþingi var endurreist, ásamt konungsfulltrúum, landshöfðingjum og ráðherrum. Þetta eru ekki svo margir menn, að stutt æfiágrip þeirra þurfi að fylla mörg bindi.

Og í sambandi við það skal jeg geta þess, að jeg hefi nýlega athugað 100 ára afmælisrit norska þingsins. Það er tvö bindi, og er annað þeirra æfiágrip allra norsku ríkisþingsmannanna á 100 ára tímabili, en á ríkisþingi Norðmanna sitja miklu fleiri menn en á Alþingi. Þess vegna get jeg ekki sjeð, að okkar saga þyrfti að verða mörg bindi. (M. G.: Hvað gerir þm. ráð fyrir mörgum bindum?). Vitanlega er ekki hægt að segja neitt um það fyrirfram, eða hve langt hvert æfiágrip yrði; við þyrftum þá sjálfir að vera búnir að semja ritið. Enda er lítið sagt um stærð ritsins, þótt sagt sje frá því, í hve mörgum bindum það verði. Bókabindi eru svo misjafnlega stór. Og sama er um kostnaðinn. Þingið getur ekki gert neina áætlun um hann, enda hefir svo verið um mörg önnur verk. Eða var nokkur áætlun gerð um sögu Boga Melsteðs, og ef til vill mun hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vilja svara mjer og segja, hvað hún muni kosta. (M. G.: En jeg er steindauður). Jeg vænti, að hæstv. forseti lofi honum að svara þessu, það mun varla þurfa að taka svo langan tíma.

En til Íslandssögu Boga Melsteðs er nú búið að veita fje á annan tug ára, og eftir því, sem jeg kemst næst, hefir engum enn komið til hugar, hvað hún muni kosta. Sömuleiðis hefir Alþingi í mörg ár veitt fje til þess að þýða eitt útlent skáldrit. Því verki er ekki lokið enn. Um stærð þess vita menn, en enginn veit enn, hvað þýðingin verður dýr.