22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í D-deild Alþingistíðinda. (1815)

88. mál, saga Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Úr því að hv. meðflm. minn að brtt. á þskj. 280 (J. Þ.) kveður sjer ekki hljóðs, skal jeg segja nokkur orð, án þess að jeg þó ætli að taka framsöguna af honum, heldur aðeins svara nokkrum atriðum í ræðu hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) í dag.

Hann þóttist vera hissa á því, að jeg vildi fá upplýsingar um kostnaðinn, sem af þessu fyrirtæki leiddi, og sagði, að ómögulegt væri að vita um hann fyrirfram. Þetta er æðieinkennileg staðhæfing, því þegar fjárlögin eru samin, eru einatt gerðar áætlanir um kostnað þeirra fyrirtækja, sem ætlast er til að framkvæmd verði, og get jeg ekki sjeð, að þetta þurfi að vera nein undantekning.

Það er ekkert aukaatriði að fá einhverja áætlun um kostnaðinn, því eins og jeg sýndi fram á í dag, er síður, þegar þingsályktunartillögur eru samþyktar, að veita fjeð, sem til þeirra þarf, eftir á. Og það eru dæmi til, að þingsályktunartillögur hafa verið samþyktar, sem hafa haft hundruð þús. kr. útgjöld í för með sjer.

Jeg fer auðvitað ekki fram á, að hv. þm. gefi áætlun upp á krónu eða eyri, en t. d. svo, að ekki skeiki meiru en svo sem 25 þús. kr. En hann hefir ekki fengist til að nefna nokkra tölu. Er jeg talaði við hann í dag, var hann mjög ragur við að nefna 50 þús. kr. (Þorst. J.: Það var hv. 1. þm. Skagf. (M. G.), sem nefndi þá upphæð). Já, en hv. 1. þm. N.-M. (Þorst. J.) fjelst ekki á hana.

Hann kvaðst ekki vera sögumaður, en framsöguræða hans var svo vel undirbygð af sögulegum vísdómi og þekkingu, að jeg held, að hann hafi gert þar heldur lítið úr sjer.

Hv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að það væri þýðingarlaust fyrir þingið að vera að hugsa um kostnaðinn, sem af þessu leiddi; það hefði annað við tímann að gera. Sagði hann, að sjerfræðingar ættu að athuga, hvernig verkinu yrði hagað og hvað það mundi kosta. En jeg hygg, að þingið sje bestur sjerfræðingur í því efni, hverju það vill til verksins kosta, og því á það eitt að ráða og enginn annar.

Hv. þm. Dala. (B. J.) hjelt því fram, að kostnaðurinn við verkið yrði því minni, sem fleiri ynnu að því. En jeg vildi benda á, að þetta fer þvert ofan í heilbrigða skynsemi, og getur varla verið skoðun þm. (B. J.).

Úr því hv. formælendur till. vilja ekki nefna neina upphæð, held jeg, að það stafi af því, að þeir hafa ekki gert sjer neina hugmynd um kostnaðinn, ellegar þá að upphæðin er svo há, að þeir þora ekki að nefna hana, og er það líklegast.

Segi jeg svo ekki meira að sinni, en lofa hv. frsm. brtt. (J. Þ.) að komast að.