22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (1817)

88. mál, saga Alþingis

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Mjer þykir vænt um, að hv. flm. brtt. viðurkenna nauðsyn þessa máls, þótt jeg á hinn bóginn sje ósammála þeim um fyrsta undirbúning þess. Jeg álít ekki heppilegt, að Alþingi geri fasta áætlun um framkvæmd þessa máls, því hætt er við, að þá kynni tilviljun ein að ráða úrskurðinum. Treysti jeg hæstv. stjórn betur til þess í samráði við sagnfróða menn, því hvorki jeg nje aðrir hjer í hv. deild erum jafnfærir um að leggja áætlunargrundvöll fyrir Alþingissöguna og sjerfróðir menn, sem stjórnin altaf hefði tök á að ná í.

Viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) talaði um, að fjeð til þessa yrði veitt eftir á, þá er það að vísu rjett, en fjeð yrði veitt ár eftir ár, svo ef hv. Alþingi þætti of miklu eytt, gæti það altaf dregið inn seglin.

Jeg þakka gullhamrana, sem sami hv. þm. (M. G.) sló mjer út af sögukunnáttu minni. En ætlun mín var eingöngu sú að lýsa, hvernig við flm. till. hugsuðum okkur að mætti haga verkinu. En jeg gekk altaf út frá, að sjerfróðir menn mundu vilja breyta ýmsu af því, sem jeg hefi haldið fram.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) var enn þá að telja það óheppilegt, að við flm. höfum enga upphæð nefnt, sem þetta verk mundi kosta. Jeg er hræddur um, að við mundum engri niðurstöðu ná, enda þótt við ræddum um þá hlið málsins í alla nótt.

Þá virtist hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vera hræddur um, að þetta ætti að verða afarstórt safnrit. Fyrir mjer hefir nú hitt vakað, að það yrði frásagnarit, en aðeins allítarlegt. Að það verði safnrit getur ekki komið til mála.