28.03.1922
Neðri deild: 34. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1923

Magnús Kristjánsson:

Jeg ætla að minnast nokkrum orðum á brtt. XXIII. við 16. gr. 17. — Háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) hefir tekið af mjer ómakið hvað snertir fyrri lið hennar, og get jeg því verið stuttorður.

Eins og öllum er kunnugt, hafa háttv. alþingismenn lagt afarríka áherslu á, að fyrst og fremst eigi að styrkja atvinnuvegina af fremsta megni. Þessar till. miða beinlínis í þá átt. Vil jeg nú sjá, hvort nokkur hugur fylgir máli; ekki svo að skilja, að mjer detti í hug að bera háttv. þm. hræsni á brýn, en jeg vil þó vita, hvort þeim er nokkur alvara í þessu efni.

Eins og háttv. þdm. er kunnugt, eru þessir tveir staðir. Eyrarbakki og Ólafsfjörður, góðar veiðistöðvar. Þaðan ganga 10–15 mótorbátar frá hvorum stað og í þeim útvegi liggur um ½ miljón kr., en hafnleysur eru þar miklar og atvinnureksturinn þar af leiðandi ótryggur. Af þessu hafnleysi stafar ekki eingöngu beinn háski fyrir bátana, heldur hamlar það einnig oft bátunum frá að sækja sjó.

Jeg vona að menn sannfærist um nauðsyn þessara fyrirtækja, er þess er gætt, að hlutaðeigendur eru fúsir til að leggja fram stórfje til að koma þeim í framkvæmd. Jeg kalla það stórfje, ef á hvern bát legst alt að 1 þúsund kr. skattur til þessa eins og á sjer stað á Ólafsfirði. Á hinum staðnum þarf meira fje, en hann er stærri, og mun hreppurinn þar hlaupa undir bagga; en styrkurinn, sem farið er fram á, er aðeins lítill hluti af þeirri upphæð, sem til fyrirtækisins þarf.

Jeg skal benda á, að landið hefir líka gagn af þessu. Háttv. fjhn. hefir komist að þeirri niðurstöðu, að ekki verði hjá því komist að framlengja lögin um útflutningsgjald af afurðum landsins. Styrkurinn til Ólafsfjarðar nemur ekki meiru en sem svarar útflutningsgjaldi af fiski þaðan í eitt ár. Það er því ekki farið fram á meira en að þeir sleppi við að gjalda útflutningsgjald í eitt ár. —

Jeg skal svo ekki vera langorður um þetta, því jeg hygg að nægi hið sama um báða staðina.

Aðeins skal jeg geta þess, að þegar litið er á slysfarirnar, sem þegar hafa orðið á þeim 3 mánuðum, sem af eru þessu ári, er um 50 menn hafa farið í sjóinn er íhugunarvert, hvort það er rjetti sparnaðurinn að neita um lítilfjörlegan styrk til að bæta lendingarstaði fyrir smábáta, því eins og menn vita, er ekki fátíðast, að slys verði við lendingu smábáta, þar sem svo hagar til, að alt verður að flytja á þeim milli skips og lands, hvernig sem viðrar, og jafnvel þótt það geti beinlínis haft lífsháska í för með sjer. Mjer þætti ekki ósennilegt, að þeir, sem á móti kynnu að vera, fengju einhverntíma eftirþanka af því.

Loks vil jeg endurtaka það, að hjer er í raun og veru ekki verið að fara fram á annað en hlífa hlutaðeigendum við að gjalda hið umrædda útflutningsgjald í þetta skiftið.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Málið er eins einfalt og það getur verið. Get jeg ekki gert ráð fyrir öðru en að það verði samþykt.