22.04.1922
Neðri deild: 53. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (1823)

88. mál, saga Alþingis

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) virðist óttast það einna mest, að þetta verði of stórt ritverk, of kostnaðarsamt, og að það mundi ekki verða lesið. Jeg veit nú með vissu, að margir eru svo sagnelskir meðal þjóðar vorrar, að þeir mundu lesa slíkt ritverk, þótt það yrði nokkuð stórt. En um fje til verksins er jeg viss um, að stjórnin heldur svo vel í, að þingið megi vel við una. Um stærðina geri jeg ráð fyrir, að stjórnin ráðfæri sig við sjerfræðinga, og jeg þori vel að trúa henni fyrir því. Og jeg hygg, að að minsta kosti einn hæstv. ráðherra geti lagt þar orð í belg, svo viðurkendur fræðimaður á þessu sviði.

Það gladdi mig, að hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) virtist skilja það, að eigi er hægt að segja fyrirfram, hvað verkið muni kosta. Það er víst, að t. d. mikið af skjölum liggur í Kaupmannahöfn, sem þarf að rannsaka, því að um alllangt skeið voru þangað sendir allir dómar og fleiri slík skjöl, sem eru nú merkar heimildir.