06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í D-deild Alþingistíðinda. (1849)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg skildi hv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.) svo, sem hann teldi mig vilja dylja eitthvað í þessu máli. En þá hygg jeg, að hv. þm. haldi mig of góðan, ef þeir hugsa, að jeg vilji halda svo fast hlífiskildi yfir fyrverandi stjórn, að jeg vilji fela það, sem mjer þætti grunsamlegt í gerðum hennar. Annars get jeg ekki sjeð, að hjer liggi fyrir nein skaðabótaskylda að lögum. Stjórninni er heimilt að veita embætti hverjum sem hún vill, og er ekki bundin við neinar fastákveðnar reglur í því efni, t. d. aldur eða annað slíkt. Það getur því ávalt verið álitamál, ef margir eru umsækjendur, hverjum stjórnin eigi að veita embættið, og auðvitað eiga hinir, sem ekki fá embættið, enga lögmæta skaðabótakröfu á hendur stjórninni. Jeg hygg því algerlega ómögulegt fyrir þennan mann að koma fram með neinar lögmætar kröfur til skaðabóta.