06.04.1922
Neðri deild: 42. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 146 í D-deild Alþingistíðinda. (1855)

75. mál, rannsókn á máli Árna Theódórs Péturssonar

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Jeg er sammála hæstv. forsætisráðherra (S. E.) um það, að hjer er ekki að ræða um skaðabótakröfur, sóttar að lögum. Í greinargerðinni er aðeins átt við skaðabætur af sanngirni, ef stjórnin kemst að því, að þessi maður hafi verið rangindum beittur. Getur þá stjórnin úr því bætt, annaðhvort með því að veita manninum sæmilegt embætti, eða með því að semja við hann öðruvísi um málið.

Fjárveitinganefnd hefir viljað forðast að fella nokkum úrskurð um þetta mál. En þar sem þessi maður hefir meðmæli margra manna, en hefir þó ekki fengið að halda embætti sínu, þá sýndist nefndinni rjett, að þessi maður fái, á þeim síðasta stað, sem hann getur flúið til, svo mikla athygli, að stjórnin rannsaki mál hans.

Jeg get ekki enn skilið skjól og skjöld allra kennara, 1. þm. N.-M. (Þorst. J.). Hann sagði, að stjórnin ætti ekki að rannsaka málið, en vill þó ólmur vísa málinu til stjórnarinnar til rannsóknar. Það er alveg eins og hæstv. stjórn sje tvær stjórnir. En jeg fæ ekki sjeð nema eina.

Jeg vona svo, að ekki verði rætt meira um málið og það gangi fram greiðlega.