29.03.1922
Neðri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

1. mál, fjárlög 1923

Björn Hallsson:

Það er aðallega vegna þeirra tundurskeyta, sem jeg fjekk frá hv. 1. þm. Árn. (E. E.), að jeg hefi kvatt mjer hljóðs. Jeg skildi háttv. frsm. fjvn. (B. J.) svo, að umsókn háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) hefði komið klofningi í nefndina út af verksmiðjumálinu. Fjvn. hafði heldur kosið að styrkja eina slíka verksmiðju með allríflegri fjárhæð heldur en tvær með lítilli fjárhæð hvora. Þess vegna sagði jeg, að þessi háttv. þm. (E. E.) hefði komið með fleyg í málið, þó hann hafi enn ekki sjálfur getað skilið það. Jeg þykist hafa sannfrjett, og það eftir sjálfum fjárveitingarmönnum að ef þessi háttv. þm. hefði ekki komið með fleyg sinn, mundi fjvn. hafa lagt til, að verksmiðjan eystra fengi að minsta kosti 60 þús. kr. lán. Þannig er sannað, að fleygur hans hefir dregið úr lánsupphæðinni, og hann þannig spilt fyrir okkur með frumhlaupi sínu. En hann tekur sjer það líklega ekki nærri.

Það kann að vera, að eitthvað sje búið að rannsaka þetta mál í Árnessýslu, en sú rannsókn mun skamt á veg komin, og ekki hefir þar enn verið safnað neinum hlutum. Því var það eðlilegt, að fjvn. kysi heldur að styrkja verksmiðjuna eystra, og það allsæmilega. En þegar till. 1. þm. Árn. kom fram, treysti nefndin sjer ekki til þess að styrkja báðar verksmiðjurnar. Því er það háttv. 1. þm. Árn. (E. E.), sem hefir spilt málinu með till. sinni, en ekki við þm. Norðmýlinga.

Háttv. 1. þm. Árn. sagði, að jeg hefði farið rasandi á hendur honum. Jeg get ekki talið það að fara rasandi, þótt jeg hafi skýrt framkomu hans í málinu með rökum. Jeg hefi sannað, að hann hefir sjálfur „farið rasandi“ í þessu máli sem fjárveitinganefndarmaður. Þessi ummæli hans til mín snúast því gegn honum sjálfum.

Sami háttv. þm. sagði, að sjer hefði komið mjög á óvart till. mín og samþingismanns míns. Sagði hann að jeg gerði mig breiðan o. s. frv. Þetta eru slagorð. En jeg játa það, að jeg og samþm. minn höfðum stuttantíma til að athuga þetta mál, og betra, ef hægt hefði verið að koma fleygnum úr tillögunni. En við bjuggumst ekki við því, að till. þeirra háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) og 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) hefði svo lítið fylgi í fjvn., þar sem háttv. 1. þm. Árn. á þar sæti, að gerlegt væri að koma fram með gagngerðar breytingar. En nú er sjáanlegt, að þessi till. þeirra hefir þar ekkert fylgi, og því hefði verið fært að koma fram með víðtækari breytingu. En það verður að bíða hjeðan af.

Háttv. 1. þm. Ám. (E. E.) sagði, að hann hefði hleypt þessu ullarverksmiðjumáli af stað í fyrra, en landbn. hefði spilt fyrir sjer málinu. Þetta er ekki rjett. Landbúnaðarnefnd færði aðeins hina þokukendu till. þm. til betra máls, svo deildin gæti sóma síns vegna samþykt hana. Hún feldi aðeins niður liðinn um rannsókn á sútun skinna, og gerði hún það vegna þess, að hún vissi ekki annað en að sá liður yrði tekinn upp af öðrum aðilja til rannsóknar. (E. E.: Þetta er ekki satt). Það er rjett frá skýrt, en háttv. Ed. feldi úr lið um rannsókn starfrækslukostnaðar, og var landbn. engin þökk á, að hann væri feldur úr.

Það, sem hefir komið hv. l. þm. Árn. (E. E.) til þess að flytja þessa till., er vafalaust fyrst og fremst áhugi hans fyrir klæðaverksmiðjunni, en þó er mjer ekki grunlaust um, að þar blandist saman við öfundsýki og að hann vilji ekki láta Austfirðinga verða á undan í þessu máli.

Þá vil jeg beina nokkrum orðum til hv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) út af því, sem hann mælti í minn garð. Get jeg verið stuttorður, því mörgu í ræðu hans hefi jeg áður svarað, er jeg talaði til háttv. 1. þm. Árn., og þarf jeg ekki að endurtaka það. Þessi háttv. þm. (Sv.Ó.) sagði, að þótt við flyttum ekki till. okkar af óvild til málsins, þá mundum við að minsta kosti flytja hana af misskilinni velvild. En við erum fullkomlega heilir í þessu máli og flytjum till. okkar hvorki af óvild nje heldur af misskilningi.

Sami háttv. þm. sagði, að þingið svaraði beiðni þessa fjelags á Reyðarfirði út í hött með því að samþykkja okkar till. Mun hann þar eiga við undirbúning málsins þar syðra. En jeg vil segja, að Seyðfirðingar hafa einnig hafið undirbúning um þetta mál. Þeir hafa stofnað fjelag og leitað til stjórnarinnar, en ekkert svar fengið. Vildi jeg gjarna hafa spurt fyrv. stjórn, hvers vegna hún hefir ekki svarað þeim umleitunum þeirra, ef þess hefði verið kostur nú.

Eða má ekki rannsaka staðhætti og vatnsmagn á Seyðisfirði eins og á Reyðarfirði? Það þykir mjer einkennilegt. Að lítið hefir verið gert að undirbúningi á Seyðisfirði, stafar af því fyrst og fremst, að þeir hafa beðið eftir manni til rannsóknar. Hygg jeg, að sú rannsókn muni leiða það í ljós, að þótt Reyðarfjörður sje hagfeldur staður til þessa iðnaðar, þá muni þó aðrir staðir vera jafngóðir eða betri þar eystra. Þá sagði háttv. 1. þm. S.-M., að við sem þm. N.-M. vildum hafa verksmiðjuna þar t. d. á Seyðisfirði. Þessu mótmæli jeg. Við viljum hafa verksmiðjuna þar, sem staðhættir eru bestir eystra, en ekki staðbinda hana að lítt rannsökuðu máli. Þetta er margtekið fram, og ætti þessum háttv. þm. að vera farið að skiljast það. Hefi jeg líka þá trú, að háttv. deild verði með till. okkar þm. N.-M. við væntanlega atkvæðagreiðslu.

Jeg skal svo ekki lengja umræður með því að minnast á aðrar brtt. Mun jeg sýna afstöðu mína til þeirra við atkvgr.