29.03.1922
Neðri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í B-deild Alþingistíðinda. (188)

1. mál, fjárlög 1923

Þorleifur Jónsson:

Það er nú þegar búið að taka margt af því fram, sem jeg vildi hafa sagt, og því get jeg verið stuttorður. Það eru einkum tvær brtt., sem jeg vildi minnast á.

Það er þá fyrst brtt. XXVII frá fjvn., um að veita ræktunarfjelagi eða búnaðarsambandi 35 þús. kr. lán til þess að kaupa sljettil. Svo stendur á þessari till., að forseti Búnaðarfjelagsins sendi fjvn. erindi um að veita fjelaginu ríflegt lán til verkfærakaupa o. fl. Þó að fjvn. væri þess fýsandi, að reyndar yrðu fleiri vjelar en þessi eina, sem kom hjer í fyrrasumar, þá þótti nefndinni rjettara að fara hægt af stað og leggja það til, að aðeins einn sljettill yrði nú keyptur, og þá sjerstaklega handa Norðurlandi. Ef tvær slíkar vjelar starfa hjer á landi og gefast vel bæði norðanlands og sunnan, þá væri ekkert á móti því aðstyrkja fjelagið til kaupa á fleiri slíkum vjelum.

En fjvn. þykir nóg að ein sje keypt nú í bráð, til viðbótar þeirri sem fyrir er. Jeg vil því mæla hið besta með því, að þessi till. verði samþykt.

Jeg vil geta þess hjer um leið, að forseti Búnaðarfjelagsins fór einnig fram á það, að nefndin hækkaði styrkinn til Búnaðarfjel. um það, sem stjórnin hafði lækkað hann í þessu frv. Það er ekki af því, að nefndin sje ekki fjelaginu vinveitt, að hún hefir ekki orðið við þessari beiðni, heldur eingöngu af sparnaðarástæðum. Og hún væntir þess, að undireins og eitthvað raknar úr fjárhagskreppunni, þá hækki stjórnin aftur styrkinn til Búnaðarfjelagsins.

Hin till., sem jeg vildi minnast á, er um klæðaverksmiðjur á Austur- og Suðurlandi. Það hefir verið deilumál bæði hjer í deildinni og annarsstaðar. Eftir því sem jeg best þekki til, þá verð jeg að taka undir með háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) um það, að máli þessu er lengst komið áleiðis í Reyðarfirði. Þar hefir sýslunefnd Suður- Múlasýslu skipað nefnd til þess að safna hlutum. Hefir sú nefnd þegar safnað 70–80 þús. kr. Hún hefir einnig skorað á Austur-Skaftfellinga að vera með umfjársöfnun, og mun þar vera allmikill áhugi fyrir þessu máli. Reyðarfjörður sýnist og vera sjerstaklega heppilegur staður fyrir slíka verksmiðju. Þar er ágæt höfn, greiðar samgöngur, nægilegt vatn og fjörðurinn liggur um miðbik Austurlands. ef Austur-Skaftafellssýsla er talin með. Frá Reyðarfirði liggur og ágætur vegur bílfær upp um Fljótsdalshjerað. Þessi staður sýnist því vera sjálfkjörinn fyrir slíka verksmiðju á Austurlandi ef hún kemst á fót á annað borð.

Jeg verð því að hallast að till. háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) um að binda fjárveitinguna við Reyðarfjörð. Mjer þykir leitt, að metingur skuli hafa komist inn í þetta mál hjer á þingi, en verra er, ef hann heldur áfram á Austurlandi, því að það getur orðið til þess að spilla alveg fyrir málinu.

Mjer virðist að þm. Norðmýlinga geti sætt sig við ákvæðið að staðbinda við Reyðarfjörð, því að ef svo sýnist við nákvæmari rannsóknir, að hentugra sje að hafa verksmiðjuna á Seyðisfirði, þá getur lánsheimildin átt þar við á sínum tíma, því að það er alls eigi meining fjvn. að lána þetta út í bláinn, heldur á ítarleg rannsókn að fara fram fyrst.

Þá vil jeg minnast lítið eitt á orð háttv. þm. N.-Ísf. (S.St.), er hann ljet falla í minn garð í gær. Hann hjó þá á báðar hendur, en honum hefir fundist vígfimi sín svo mikil, að honum dugði ekki hæstv. forsrh. (S. E.) og þm. Dala. (B. J.), heldur þurfti hann einnig að veitast að mjer. Það var nú aðallega út af því, hvernig jeg greiddi atkv. um sparnaðartill. hans. Í fyrsta lagi verð jeg nú að láta hann vita það, að það er jeg, en ekki hann, sem ber ábyrgð á því, hvernig jeg greiði atkvæði hjer á þingi. Þótt jeg hafi í byrjun þings verið með því að skipa sparnaðarnefnd, þá var jeg þó eigi þar með skuldbundinn til að fylgja henni út á alla hennar refilstigu. Jeg hefi fæstum till. hennar getað fylgt. vegna þess að þær hafa verið svo einhliða, eins og t. d. till. um að taka tvö kennaraembætti við háskólann út úr og leggja þau niður á þann hátt, að öðrum manninum átti að kasta út á gaddinn, en hinum átti að varpa fyrir borð, án þess að embættislaunin væru afnumin, og var þar enginn sparnaður. Þá eru einnig fjárlagatillögurnar, sem jeg hefi fæstar getað aðhylst. Jeg veit nú ekki betur en að fjvn. hafi tekist að minka tekjuhallann um ca. 160 þús. kr., án tilstyrks sparnaðarnefndar. En fjvn. hefir ekki getað aðhylst þetta nart hennar við 3. umr. fjárlaganna. En það er ekki jeg einn, sem hefi verið á móti þessum till. sparnaðarnefndar, því að eina till., sem matarbragð var að, um að fella niður fjárveiting til fjallvega, var feld að mig minnir með 17 atkv. gegn 6. Þá fjekk sparnaðarnefnd aðeins 3 menn með sjer, enda var till. hin fáránlegasta. — Þá skal jeg geta þess, að mestur hluti fjvn. er á móti þeim till., sem ógreitt er atkv. um. Það er eingöngu nart í einstöku menn og stofnanir, sem gerir lítið til eða frá.

Jeg kann nú illa við að fara mörgum orðum um háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), því að jeg sje hann hjer hvergi viðstaddan, en verð þó að geta þess, að hann hefir eigi altaf horft í fje landssjóðs, er um hans eigið kjördæmi er að ræða. Má í því sambandi minna á brimbrjótinn, sem nú orðið kostar marga, marga tugi þúsunda; læknishjerað fjekk hann stofnað, barðist mjög fyrir nýju prestakalli og ennfremur greiddi hann ekki atkvæði um símana, vegna þess að hans hjerað átti að fá einn símann, sem þar um ræddi.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Mjer er ekki gjarnt til að fara í persónulegar illdeilur og hefi ekki gert það hjer á þingi, en af því að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.) ætlaði að knjesetja mig út af því, hvernig jeg greiddi atkvæði, þá fjekk jeg eigi orða bundist.