24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (1893)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Bjarni Jónsson:

Jeg stend eigi upp til þess að mótmæla nefndarskipuninni, en þó verð jeg að játa, að jeg hefi litla trú á, að ættjörðin frelsist þar.

Jeg ætla mjer eigi að verða í þessari nefnd, og vona jeg því, að hv. þm. taki því ekki illa, þó að jeg segi mína skraddaraþanka um mál þetta.

Það mun satt, að hagur landsins er hvergi góður, en þó er hann eigi á heljarþröminni. Lít jeg þar nokkuð líkt á og hæstv. fjármálaráðherra (M. G.), en þó hóti bjartara. En út í það fer jeg ekki að þessu sinni. En þessi erfiði hagur vor nú hefir átt langan aðdraganda og margt að honum stuðlað. Á jeg þar við það, sem kveðið var um ask Yggdrasils:

„Askr Yggdrasils

drýgir erfiði

meira an menn viti,

hjörtr bítr ofan,

en á hliðu fúnar

gnagar Níðhöggr neðan.“

Þarfirnar aukast hjá einstaklingum og þjóðunum. Er það venjulega góðs viti, byrjun framfara og menningar. En þó verður sú regla að vera, að þarfirnar aukist eigi óðara en svo, að máttugt sje að fylla þær. Geri þær það, koma erfiðir tímar, eins og þeir, sem nú standa yfir.

Íslendingum stafar meiri hætta af þessu en öðrum þjóðum. Skapi þeirra er öðruvísi varið, og hjer er það, sem hvergi er annarsstaðar, að vantar það, er menn kalla lægri stjettirnar. Þeir eru allir ein og sama stjettin, enda liggja ættir allra Íslendinga saman. Þeir eru því allir höfðingjar, jafnskjótt sem ytri þunganum lyftir af þeim. Nesjakonungseðlið býr í hverjum Íslendingi. En það fylgir víkingseðlinu, að menn eru djarfari til framkvæmda, en gætnin er ekki að sama skapi. Hættulöngunin og nýjungagirnin er mikil og gráðug. Einn tekur upp á því að róa á vjelarbát innfirðis. Þá rjúka allir til og fara að stunda veiðar á þessum bátum úti á rúmsjó. Menn eru of fljótir til, bíða ekki eftir reynslunni. Ónýtist af þessum sökum mikið fje. Mörg önnur dæmi mætti nefna, en jeg hirði eigi um það.

Þá fylgir það enn víkingseðlinu að sækja mikið til erlendra landa. Var það hinn helsti lítilmenskubragur hinna fornu Íslendinga, hve sólgnir þeir voru í það. Þeir voru ekki nægilega samgrónir landinu. Nú lýsir þetta sjer nokkuð öðruvísi. Menn hafa enga trú á því, sem hefir reynst vel í þúsund ár. Það er ótrú á öllum þjóðarsiðum og öllu innlendu. Og hefir því um marga áratugi verið verslað alt of mikið við útlönd, og mundu menn eigi hafa staðist það, ef landið væri eigi svo gott og víkingseðlið jafnríkt sem raun er á.

Ask veitk standa

heitir Yggdrasill,

hárr baðmr ausinn

hvíta auri.

Viðhaldið er hvíti aurinn, — það er hjá oss dugnaður og hagsýni. Um dugnaðinn efast enginn. Íslendingar hafa framkvæmt ótrúlega mikið í útgerð, húsagerð og jarðabótum. Dugnaður er það, þótt heimskulega væri þar ráðið, er húsagerðin var, því að tugir miljóna hafa farið í illa bygð hús, sem stóðu stutt og voru vond meðan þau stóðu. Alt vegna þess, að horfið var frá hinum gömlu, góðu torfhúsum. Hefðu þau verið bætt, mundu tugir miljóna hafa sparast, og vextirnir nægir til þess að bjarga lífi fjölda manna, og leyst mig undan brigslyrðum fyrir að reyna stundum að halda lífinu í gáfuðum mönnum. Skarpsýnin hefir verið lítil. Eitt dæmi þess er það, að þingið vildi ekki fara að mínum ráðum, er jeg bar fram frv. um það, að goldið væri eftir verðlagsskrá og tekjurnar teknar eftir henni. Það er að reikna gjöldin til landaura og álna. Hefði þetta verið gert, mundu menn eigi hafa vilst svo hrapallega á verðmiðli og verðmæli. Landaurarnir eru tryggur verðmælir. Var einkennilegt að leggja hann niður og flækjast í verðmiðilinn, sem stígur og fellur af handahófi. Hefði þetta ráð verið upp tekið, mundi engin þurð vera í landssjóðnum nú, og þó hefðu menn eigi borgað meira en áður. Hafa menn á stríðsárunum borgað mun minna en þeim bar og þeir höfðu áður goldið.

Eitt af því, sem jeg vildi hafa, var verðtollur en ekki vörutollur. Hefði hann komist á, hefði eigi sami tollur verið goldinn af tunnu, sem áður kostaði 7 kr., en síðar 70 kr., heldur 10 sinnum meiri.

Þá hefir lítil hagsýni verið viðhöfð til þess að draga úr dýrtíðinni. Húsaleiguna hefði mátt lækka, en hún er um 1/3 af framfærslukostnaði verkamannsins; hefði þá kaup verkamannsins getað lækkað, og útgerðin og aðrar framkvæmdir hefðu þá staðist betur.

Einnig mætti nefna, að sjálfsagt var að gefa eftir salt- og kolatollinn, er skipin lágu hjer við garðana í sumar Hefðu þau þá getað lagt út.

En þrátt fyrir alt þetta er landið svo gott, að enginn mundi hafa tekið eftir þessu, ef sú ógæfa hefði ekki hent, að afurðir landsins seljast ekki ár eftir ár, en verða að skarni.

Síldin var ekki seld í tvö ár, fiskur, ull og kjöt einnig ekki selst, eða þá mjög illa, eða skemst.

Þetta er aðalatriðið. Af þessu stafa vandræðin. Það er ekki eyðslunni að kenna, heldur því, að framleiðslan selst ekki.

Þessi slys þurfti að bæta með láni í tíma, en í stað þess hafa bankarnir stöðvað viðskiftin, og menn neyðst til þess að fara ýmsar koppagötur, utan við bankana, og mestur skaðinn hefir orðið sá, að dregið hefir úr framleiðslunni.

Það er ágætt að spara, en það tekur langan tíma að spara tugi miljóna. Þær borgast aðeins með aukinni framleiðslu.

Það er því ekki að undra, þótt hagurinn sje erfiður. Ekkert lán var tekið í heilt ár, til þess að dreifa skaðanum og jafna honum niður á mörg ár, og þó var vitanlegt, að eins árs framleiðsla gat ekki jafnað hallann. Nú á að fara að skipa nefnd, en það sannast hjer hið fornkveðna, að erfitt er eftirhyggjusömum.

Það er hægt að nefna ráðin, eyða minna, versla minna og framleiða meira, en það er erfiðara að framkvæma þau. Það vill enginn verða til þess að hengja bjölluna á köttinn.

Eyðslan minkar ekki, nema þjóðin fallist á það að spara, en stefna hennar breytist ekki á einu ári. Það er gamla konan, Neyð, sem kennir þetta, en annað ekki. En þetta er ekki heldur nægilegt. Þjóðarsparnaðurinn er of seinn til viðreisnar.

Það verður að finna önnur ráð, en það eru ekki innflutningshöft. Þau koma því aðeins að nokkru gagni, að vissar vörutegundir, sem um munar, sjeu bannaðar, en það er ekki auðvelt að finna, hverjar þessar vörutegundir eigi að vera. Það var auðvitað með tóbakið, en aðrar vörutegundir eru ekki svo margar. En sjálfsagt er það, að banna ekki innflutning á neinni vörutegund, nema að ráði lækna og kaupsýslumanna og annara sjerfræðinga. En þótt þetta væri alt gert, eru notin vafasöm. Þjóðin ræður því. Strandlengja Íslands er löng, og víða eru lendingarstaðir, sem lítið ber á. Ekki einhlítt, þó að lögbrjótarnir óttist lögregluna í Reykjavík. Henni verður eigi dreift suður um hraunin og aðra afvikna staði um land alt. Annars hefi jeg aldrei heyrt, sjeð eða lesið um önnur úrræði til að bjarga hag lands á skömmum tíma heldur en þau, að auka alt vörumagn, vanda vöruna og selja hana. Það er hnúturinn.

Til þessa á þingið og peningastofnanirnar að hjálpa. Vöruvöndun er nú talsverð, en mætti vera miklu meiri. Mætti þar tilnefna síldarmatið. Trúi jeg illa, að öll kaup á íslenskri síld, sem gengu til baka, hafi stafað af tómri mannvonsku og hrekkjum kaupanda.

En það, sem þing og stjórn ættu að leggja aðaláherslu á, er að auka markaðina og bæta þá.

Þetta er höfuðatriðið, að íslensku afurðirnar seljist með viðunandi verði. Takist það, þetta ár og næsta, ætti barlómsharpan að geta hljóðnað innan skamms. Jeg sje líka ekki betur en að það sje þegar tekið að rofa lítið eitt til á þessu sviði. Útgerðarmenn hafa nú í ár selt ísfisk sinn með hagnaði, en á honum varð tapið einna mest árið sem leið. Og fleira mætti til nefna.

Eitt er víst, og það er það, að gengi íslensku krónunnar verður ekki bjargað með öðru en öflugri framleiðslu afurða landsins og heppilegri sölu þeirra. Þokist framleiðslan og jafnframt hagur landsins upp á við, eykst tiltrúin erlendis, og gengi íslensku krónunnar hlýtur að hækka að sama skapi. Og jeg er í engum efa um, að þetta á að takast, því að þess er jeg fullvís, að þegar alt fer með feldu, getur þetta land selt miklu meira en það þarf að kaupa.

Menn kunna nú að segja, að þetta sje ein af þessum djöfullegu ástríðum þingmanns Dalamanna til að sóa fje landsins. En svo er þó ekki að þessu sinni. Hjer er alls ekki um neitt einsdæmi að ræða. Í öðrum löndum hafa menn einnig þrifið til þessara ráða. Norðmenn, Danir og Svíar hafa síðustu árin fjölgað mjög umboðsmönnum sínum á erlendum mörkuðum, og svo er um ýmsar fleiri þjóðir. Og það er fjarri því, að þetta sje að óþörfu gert. Hjer er um að ræða aðallífæð þjóðanna, sem með engu móti má stíflast eða slitna. En við því er þó jafnan hætt á slíkum tímum, sem nú standa yfir. Á viðskiftasviðinu er nú alt á hverfanda hveli eftir stríðið. Gömul sambönd hafa rofnað, en ný vandfengin, og er því aldrei fremur en nú þörf á að hafa ötulan fulltrúa á heimsmarkaðinum, ef landið að halda velli.

Eins og menn hafa nú heyrt, eru það þessi tvö atriði, sem jeg legg aðaláhersluna á: að auka framleiðslu íslenskra afurða og bæta markað þeirra erlendis.

Það er komið sem komið er. En úr því vjer höfum stofnað oss í voða með ógætni og fífldirfsku, þá er oss nú sæmra að verða vel við og mannlega og hefjast handa, heldur en reynast huglausir aumingjar þegar á hólminn er komið, sem ekki gera annað en biðja fyrir sjer og berja lóminn.

Jeg skal að lokum taka það fram, að ástæðan til þess, að jeg hefi nú farið svo mörgum orðum um þetta mál, er sú, að jeg hygst ekki munu eiga sæti í þeirri nefnd, sem væntanlega fjallar um það. Hvort sú nefnd, eða þingdeildin, vill í nokkru fara eftir mínum orðum, veit jeg ekki, — mín vegna má mjer standa á sama, en landsins vegna vildi jeg kjósa, að meiri hlutinn liti svo á þetta mál sem jeg.