24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (1894)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Flm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg get ekki látið vera að gera örfáar athugasemdir við ræðu hv. þm. Dala. (B. J.). Hv. þm. (B. J.) taldi fjárhagsvandræðin stafa af því, að afurðir landsins síðustu árin hefðu ekki selst, og væri það meðal annars að kenna slælegri framgöngu vorri í því að tryggja þeim markað erlendis. Tók hann til dæmis síldina, sem ekki hefði selst síðustu tvö árin. En jeg veit ekki betur en að öll síld síðasta árs hafi verið seld, og jafnvel með hagnaði. (B. J.: Má jeg benda hv. þm. (Þorst. J.) á, að jeg talaði um síldina, sem liggur nú á botninum í Eyrarsundi). Sama er að segja um fiskinn og kjötið. Eins og kunnugt er, er þetta alt selt, þótt kjötið sje selt með lágu verði. (B.J.: Á hvaða verði?). Það er ekki mitt hlutverk að gefa hjer neina skýrslu um það; hv. þm. (B. J.) verður að leita sjer frekari upplýsingar annarsstaðar.

Hv. þm. (B. J.) taldi það aðalatriðið að auka framleiðslu afurða vorra og bæta markaðinn. Jeg býst við, að allir verði á sama máli um það. En um aðferðina efast jeg miklu fremur. Jeg býst ekki við, að Alþingi geti með lögum ráðið miklu um það, hve snjallir menn verða að selja vörur sínar.

Þá kvaðst hv. þm. (B. J.) efast um, að hægt yrði að banna innflutning á einstökum vörum, svo miklu munaði. Í sambandi við það dettur mjer þó í hug, að það myndi mega hefta um eitt ár innflutning á allri vefnaðarvöru. Jeg skal að vísu játa, að slíkt myndi valda talsverðum óþægindum fyrir einstaka menn, en úr því sem komið er verður varla hjá því sneitt. Það er, eins og allir vita, talsverð þjáning fyrir sjúklinginn samfara því, að kipt er í liðinn, en þó munu fáir efast um, að slík lækning sje sjálfsögð.

Þá sagði hv. þm. (B. J.), að strandlengja Íslands væri svo löng, að ókleift yrði að verjast innflutningi á bannvöru til landsins. Jeg er á sama máli og hv. þm. (B. J.) í því efni, en jeg hygg, að til sje annað ráð við því, sem auðvelt yrði að framkvæma. Það er að ríkisstjórnin hefði til umráða alla framleiðsluvöru landsins og sölu á henni. Ef svo væri, hefðu menn ekki gjaldeyri til að borga bannvöru sína með erlendis.