24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (1896)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg hafði að vísu ekki ætlað mjer að taka þátt í umr. um þetta mál að sinni, en nokkur orð hv. þm. hafa gefið mjer tilefni til að leggja lítillega orð í belg.

Jeg skal þá fyrst taka það fram, að mjer þótti hv. frsm. (Þorst. J.) taka nokkuð djúpt í árinni, er hann var að lýsa fjárhag landsins. Jeg býst við, að skoðun mín í því efni fari mitt á milli hans og hv. þm. Dala. (B. J.), sem mjer finst aftur á móti helst til bjartsýnn. (B. J.: Nær minni þó). Annars þykir mjer vænt um, að hv. frsm. (Þorst. J.) hefir nú gerst liðsmaður minn í því að koma á innflutningshöftum. Það var ekki svo á síðasta þingi. Jeg man ekki til, að aðrir legðu þeim þá liðsyrði en hv. þm. Ak. (M. K.). En betra er seint en aldrei.

Jeg skal líka benda á það, að það er ekki alls kostar rjett, sem hv. frsm. (Þorst. J.) sagði um síldarútveginn, að hann berðist nú í bökkum. Nú hefir fjöldi síldarútgerðarmanna sent beiðni til þingsins um endurgreiðslu á síldartollinum, af þeim rökum, að síldin hefir selst undir kostnaðarverði.

Annars býst jeg við, að fjárhagsástand vort líti heldur ver út á pappírnum en það er í raun og veru. Jeg býst til dæmis við, að það sje ekki svo lítið af erlendum gjaldeyri í landinu, sem einstakir menn geyma og ætla sjer að nota síðar, og jeg held, að töluvert hafi verið borgað af erlendum skuldum síðastliðið ár umfram úttekt.

Jeg vildi svo svara ræðu hv. þm. Dala. (B. J.) nokkrum orðum. Hv. þm. kvaðst fyrir löngu hafa ráðið til að hækka tolla ríkissjóðs í sama hlutfalli og dýrtíðin hefði vaxið. Ef þessari aðferð hefði verið framfylgt, þá hefðu tollarnir fjórfaldast eða fimmfaldast. Jeg skal játa, að þetta er rjett hugsað hjá hv. þm. Dala. (B. J.). En það er bara óframkvæmanlegt. Slíkar ráðstafanir hefðu mætt þeirri óánægju og mótþróa hjá þjóðinni, að þær hefðu vart mátt endast til lengdar.

Jeg drep aðeins á þetta til að sýna, að það er ekki ávalt nægilegt að hugsa eftir rökrjettum reglum og ætla sjer að breyta eftir þeim. það er svo um hv. þm. Dala. (B. J.), að hann hugsar í sjálfu sjer rökrjett, en stundum „praktiskt“ óframkvæmanlega. Hvernig heldur hann, að því hefði t. d. verið tekið, að hækka sykurtollinn úr 15 aurum í 75 aura af kílói, eða tóbakstoll úr 8 kr. af kg. í 40 kr.? Nei, slíkt er ómögulegt, og í þessu fer hv. þm. Dala. (B. J.) eins og þeim manni, sem alt vill fara beint, af því að það er styst. En hann gætir þess ekki, að hinn mikli vegamálastjóri hins raunverulega lífs hefir lagt veginn í krókum og bugðum, og að sá, sem ætlar beint, lendir í fenjum, og það er skuldafenið, sem jeg óttast að hv. þm. Dala. (B. J.) leiði þjóðina í, því að hinn beini vegur, sem hann hefir bent á, er ófær.

Sami hv. þm. (B. J.) sagði, að húsaleigu hjer hefði átt að lækka. Á hvern hátt átti að gera það? Jeg hjelt nú, að síðasta þing hefði skilist vel við það mál, með því að fela það þeim, sem best gat alt um það vitað, bæjarstjórninni í Reykjavík.

Um viðskiftahöftin vil jeg ekki karpa í þessu sambandi. þá mótbáru, að eitthvað kunni að slæðast inn af þeirri vöru, sem bönnuð er, tel jeg varla svaraverða. Lítum á bannlögin. Eitthvað af víni er eflaust flutt inn, en hver mundi segja, að eins mikið vín komi inn í landið og ella? Nei, það

eru jafnan smámunir, og ef aðalatriðin nást, þá megum vjer vera ánægðir.

Hv. þm. Dala. (B. J.) kvað ekkert gert til þess að bæta markað íslenskra afurða. Jeg verð þá að segja, að dálítið er þó gert í því efni. Jeg veit ekki betur en að tveir fiskimatsmenn sjeu nýkomnir sunnan frá Spáni úr slíkum leiðangri. Hygg jeg, að þetta hafi flestum þótt rjett ráðstöfun. (B. J.: Mjer líkar hún vel). Jeg veit það, en þá má hv. þm. ekki segja, að ekkert hafi verið gert.

Jeg veit vel, að ekki dugir það eitt að hefta innflutninginn. Hefi jeg jafnan viðurkent þörf þess að auka framleiðslu og bæta söluskilyrði afurðanna. Stjórnin hefir nú líka sýnt viðleitni í þá átt. Hún hefir veitt aðstoð til þess að ná til landsins tveimur togurum, sem voru í smíðum, og áreiðanlega hefðu ekki komið til landsins án þessarar aðstoðar stjórnarinnar. Þetta ætti þó frekar að verða til þess að auka framleiðsluna en minka.

Jeg mun greiða þessari till. atkv. mitt. Sjálfur stakk jeg upp á því við 1. umr. fjárlaganna, að slík nefnd yrði skipuð. Jeg gerði að vísu ráð fyrir, að það mundi verða í sambandi við Spánarsamningana, en það mál er ekki á dagskrá fyr en á morgun. Þetta kemur því á undan, en það gerir ekkert til.