29.03.1922
Neðri deild: 35. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í B-deild Alþingistíðinda. (190)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Bjarni Jónsson):

Mjer hefir verið falið af háttv. fjárveitinganefnd að gefa svofelda yfirlýsingu í hennar nafni:

„Á fundi fjárveitinganefndar 24. mars var samþykt með samhljóða atkvæðum að lýsa yfir því áliti hennar, að 15. liður í 16. gr., um fjárveitingu til að leita markaðs fyrir fiskiafurðir, skyldi vera áætlunarupphæð, þó ekki yfir 15 þúsundir króna.“

Það er einungis gleymsku minni að kenna, að jeg flutti eigi fram yfirlýsing þessa í fyrstu ræðu minni.

Þessu næst liggur fyrir mjer að svara nokkrum viturlegum og velviljuðum athugasemdum frá hv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.).

Jeg hafði getið þess í hinni fyrri ræðu minni, að það væru firn mikil, hversu þessi þm. ofsækti Jóhannes Lynge Jóhannsson. Fyrst reynir hann að fella kaup Jóhannesar úr 7000 kr. niður í 3500 krónur. En er háttv. deild hefir felt þessa tillögu hans, þá byrjar hann á nýjan leik og vill nú fyrir hvern mun lækka kaup hans um 2000 krónur. Hann gerði sig sekan um þá hrekkvísi í ræðu sinni að reyna að telja mönnum trú um, að hjer væri um styrk að ræða, en ekki kaup. Þó hygg jeg, að honum bregðist þar bogalistin, því að hver mundi svo heimskur að halda, að samning vísindalegrar orðabókar væri hjáverk fyrir einn mann, er hann gæti unnið með einhverjum litlum styrk? Hver mundi telja líklegt, að embættismaður færi úr embætti til þess að vinna eitt hið erfiðasta og vandasamasta starf fyrir einhvern lítinn styrk? Einkum væri slíkt um fullorðinn vísindamann, sem er fátækur og á fyrir mikilli ómegð að sjá. Enda er þetta alt annan veg en háttv. 1. þm. S.-M. af kænsku sinni heldur fram. Jóhannes fór úr embætti að orðabókarstarfinu í þeirri vissu von, að hann fengi sæmileg laun og lífvænleg. Og kenslumálastjórnin hefir litið sömu augum á þetta, því að hún hefir ætlað honum dósentslaun með uppbót. Lægri laun er ekki sómasamlegt að bjóða neinum vísindamanni fyrir fult starf. En Jóhannes hefir einmitt unnið og vinnur fullkomið og afarerfitt starf og leggur í það alla vinnu sína. Þess vegna vona jeg, að hitt refkeilubragðið hepnist eigi þessum háttv. þm. að villa mönnum sýn með því að bera þessi vinnulaun Jóhannesar saman við eftirlaun og styrktarfje ýmsra manna, sem nefndir eru í 18. gr. Honum mun það að sjálfsögðu ofætlun að hlunnfæra hv. þm. með þesskonar masi.

En á þessum ummælum háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) um orðabókarstarfið má sjá, að hann hefir ekki hina minstu nasasjón af þessu verki. Sjest þá um leið, að ómerk eru þau ómagaorð hans, að Jóhannes sje eigi vísindamaður. Hvað skal blindum bók og hvað vill 1. þm. S.-M. dæma um vísindamenn? Vanþekkingin og meinfýsin renna í köpp af vörum háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó), en háttv. fulltrúar þjóðarinnar hjer í deildinni munu ekki verðlauna þær göfugu systur með því að samþykkja þessa smánarlegu tillögu. — En við annan tón kveður hjá þessum háttv. þm. S.-M., þegir hann fer að ræða um ullarverksmiðju í sínu eigin kjördæmi. Þar eru eintómir vísindamenn og spekingar, sem fjallað hafa um það mál og fundið, að nóg vatnsafl mundi vera í Austfirðingafjórðungi til þess að snúa nokkrum spunavjelum og reka nokkra vefstóla. Þar með taldi hann þá merkilegu uppgötvun, að Fagradalsbrautin lægi af Fljótsdalshjeraði niður á Reyðarfjörð. Og það telur hann vel gerandi fyrir ríkissjóð að lána stórfje til svo vel grundvallaðs fyrirtækis. Þar er nú ekki um áhættuna að ræða; þá er landssjóður ekki í kröggum!

Kunnáttumenn á þessu sviði líta alt öðrum augum á þetta mál, sem vænta mátti. Eftir þeirra skoðun ætti hjer ekki að vera nema ein dúkasmiðja. Hjer kemur álit þeirra, dregið saman í eitt:

„Það er ekki nauðsyn á að fá fleiri ullarverksmiðjur hjer á Íslandi, og yrði ekki til annars en að auka kostnað og gera vöruna dýrari í framleiðslunni, sem nú skal sanna. Á Íslandi búa nú tæpar 100 þúsundir manna. Þessar 100 þúsundir þurfa til sinna eigin þarfa á að geta 200 þúsund stikur af fataefni á ári, bæði handa yngri sem eldri. Í þessi fataefni þarf 250 smálestir af ull, en framleiðsla alls landsins er um 800 smál. Stundum getur framleiðsla landsins komist niður í 600 smál. og það hefir komið fyrir, að útflutningur hefir verið 1000 smál. Það sem yrði framleitt meira hjer á landi en hægt er að nota í landinu sjálfu, yrði því að selja erlendis, en þar eigum vjer við hina erfiðustu keppinauta, þar sem eru Englendingar og Þjóðverjar, sem stundað hafa þennan iðnað öldum saman, og eru því miklu betur að sjer í öllu, sem honum viðkemur, og auk þess reka þeir þennan iðnað í miklu stærri stíl; geta þeir þess vegna framleitt vöruna á ódýrari veg en vjer“.

Íslendingar eru að byrja og verða því að fara varlega, því að íslenska ullin er ekki góð til tóvinnu, og dúkar úr henni eru ekki svo góðir, að Íslendingar vilji ganga í fötum úr þeim; svo hjegómlegir gerast þeir nú, að þeir vilja heldur dúka frá Englandi. Danmörku, Noregi, Þýskalandi eða Frakklandi, þó að þeir sjeu gerðir úr baðmull, pappír eða öðrum slíkum efnum, og taka þeir jafnvel þessa dúka langt fram yfir íslenskar ullarvörur.

Jeg hefi oft haft tækifæri hjer á Alþingi til þess að minna menn á, hve títt sje að sjá auglýst stórum stöfum víðsvegar um sveitir í Noregi: „Kauptu norskar vörur“! Þetta er sjaldsjeð hjer, en það er kunnugt, að menn forðast hjer það, sem íslenskt er og kaupa heldur okurverði útlent rusl.

Framleiðsla íslenskra ullarverksmiðja er nú nálægt 40 þúsund stikur voðar á ári. Til þess að framleiða þetta vinna um 80–100 manna á 2 stöðum. Auk þessa vinna á hvorum stað 4 kunnáttumenn, spunameistari, vefmeistari, litunarmeistari og verkmeistari. Þessir menn gætu hver í sínu lagi sjeð um miklu fleiri vjelar en nú gera þeir, — en með því skilyrði einu, að þær sjeu á sama stað, því að þeir geta ekki þotið landshornanna milli. Þetta eru dýrustu mennirnir og hvílir framleiðslan á hverjum stað á því, að þeir sjeu gegnir menn og vel að sjer, en sjeu þeir klaufar, fer alt út um þúfur; en af þessu sjest, að því meira sem framleitt er á hverjum stað, því ódýrari verður varan, og því minna sem framleitt er, því dýrari verður varan. En hitt er alkunna, að sá þröskuldur, sem framleiðslan íslenska á örðugt með að fá yfirstígið, er það að geta framleitt nógu ódýrt, svo hægt sje að keppa við útlendan varning.

Það væri því hinn mesti búhnykkur fyrir þjóðina að stækka eða sameina þær 2 verksmiðjur, sem nú eru, svo að hægt væri að vinna þar alla þá ull, sem annars er unnin í landinu, en hindra alt kák, sem menn hafa komið af stað án þess að hafa hugsað á hverjum grundvelli slík fyrirtæki geta þrifist.

Þeir menn sem kunnugir eru þessum hlutum hjer á landi og jeg hefi náð til, hafa sagt mjer það um ullariðnað, sem hjer fer á eftir.

1. Ullin er of gróf með toginu. Þurfa því bændur að láta taka ofan af henni allri. Síðan ættu þeir að láta vinna úr þelinu fína dúka og nærfatnaði, og þyrfti þá helst að hafa nokkuð af hör í það, sem fínast ætti að vefa. Úr toginu mætti vinna ýmsa dúka, utanhafnarsokka, gólfdúka og fleira því líkt. Á þennan hátt mundu bændur geta fengið helmingi meira fyrir ullina, og gæti þeim þá notast vinna heimilisfólks síns á vetrum, þegar það annars situr auðum höndum síðan tóvinna á heimilum lagðist niður.

Eins og ullin nú er seld, er hún unnin erlendis með toginu, og þykir því ekki hæf í annað en gólfdúka o. þ. h. Það er því eðlilegt, að hún sje í lágu verði.

2. Vjelar þær, sem notaðar eru við ullarvinnu, þurfa að vera á sem fæstum stöðum, til þess að kostnaðurinn við framleiðsluna yrði sem minstur.

Til þess að framleiða svo mikið vaðmál, að nægi til þess að klæða alla Íslendinga, þarf að bæta 50 vefstólum við þá, sem nú eru til í landinu, ef aðeins er unnið að deginum. Ef unnið er líka á nóttunni, sem telja má hagfeldara til þess að nota aflvjelarnar, þarf aðeins 25 vefstóla. Til þess að vinna úr allri íslenskri ull þarf 160 vefstóla með öllum öðrum tóvinnuvjelum, svo sem spunavjelum, kembivjelum, þvottavjelum og þurkvjelum.

Ef þessum vjelum væri skift í 2 staði, væri þó hvorug verksmiðjan stór í samanburði við samskonar verksmiðjur erlendar. En þessar verksmiðjur gætu orðið bestu kaupendur og óbeinir seljendur íslensku ullarinnar, því að þær mundu kosta kapps um að hafa þær vjelar og þá menn, sem bestir væru, til þess að geta kept á erlendum markaði, og mundu bændur þá geta fengið miklu meira fyrir vöruna. Þetta væri að minni hyggju rjetta leiðin, að nota vatnsafl og hveraafl til þess að framleiða. Því það tel jeg mikla vanhyggju, ef ullarverksmiðja er ekki reist þar, sem hiti er í jörðu, því að hitinn er mikill hluti af framleiðslukostnaðinum, en hveravatn, eða hverahitað vatn, má nota til litunar og hveravatn til hitunar á híbýlum og vinnuhúsum. Hverahitinn ætti að verða fyrir okkur hið sama og kolin eru fyrir England og Þýskaland.

Að minni hyggju væri það hin besta stefna í þessu máli að efla þær verksmiðjur, sem þegar eru til í landinu, svo að þær næðu fullum viðgangi. Þetta gæti orðið með því móti, að lán og styrkur væri veittur til þess úr landssjóði, eða að stofnuð væru stór fjelög af ullareigendum sjálfum. Þess er og að geta, að á öðrum af þeim stöðum, sem þessar verksmiðjur eru á, er jarðhiti; þessi staður er Álafoss, og Alþingi hefir ekki fyrir löngu lofað þessari verksmiðju mikilli ábyrgð, einmitt með þeim skilningi, að hún yrði stækkuð. Þessi verksmiðja notfærir sjer og jarðhita og alla þá hluti aðra, sem miða að því að gera vinnuna ódýrari.

Til þess að reisa slíkar verksmiðjur, sem jeg hefi nú lýst, þarf mikið fje, en á það er og að líta, að þetta er eina leiðin til þess að gera ódýra og góða vöru úr ull vorri, sem nú er illseljanleg.

Það er því hlutverk þjóðarinnar að láta mætast við þetta mál rífan styrk af opinberu fje og fjárframlög einstakra manna, en það ber hjer fyrst og fremst að varast að stofna of margar verksmiðjur, því að þær auka að eins þann kostnað, sem fellur á framleiðsluna, en gera þó jafnan verri vöru.

Hjer hefði nú verið verkefni fyrir sparnaðarnefnd, ef hún hefði haft heila sjón.

Hjer hefði háttv. 1. þm. S.-M. (Sv.Ó.) getað sýnt sparnað sinn, ef eigingirni og kjördæmadráttur hefði eigi blindað hann.

Hjer á landi eru nú tvær klæðaverksmiðjur. Hefðu þessir búmenn gert ráðstafanir til að sameina þær, þá hefðu þar með sparast 4 dýrir menn, hver með dósentslaunum að minsta kosti. En í þess stað vilja þeir auka tölu verksmiðjanna um helming og búa þar með til 8 ný embætti, í stað þess að fækka þeim um fjögur. Jeg segi embætti, þótt ekki sjeu goldin launin úr landssjóði, því að alt fyrir sama kemur, — þjóðin borgar. Þó er sá munur á, að opinber störf manna borga allir landsmenn, en þessum starfsmönnum borga ullareigendur einir, því að allur óþarfur kostnaður á ullarvinnu dregur úr verði ullarinnar.

Búhnykkur háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) er því í þessu fólginn, að ullareigendur skulu gjalda kaup 16 dýrum mönnum í stað 4, og auk þess allan annan kostnað, til jafnaðar tvöfaldan á að geta.

Undirbúningsleysið sjest best á því, að menn halda, að 50000 kr. muni duga nokkuð til þess að setja á fót ullarverksmiðju. Það er varla of mikið í lagt að telja 500000 krónur sæmilegt fje til þessa. Þegar nú á að stofna 2 slíkar verksmiðjur, leggjast vextir og afborganir af 1000000 króna á ull bænda auk þess, sem kaupgjaldið verður meira, svo sem bent var á fyr. Þó má telja mikinn mun á þessum tveim tillögum. Því að till. háttv. 1. þm. Árn. (E. E.) fer fram á sanngjarna kröfu að mörgu leyti. Fyrir austan fjall er víða mikill jarðhiti, svo komið gæfi til mála, að þar yrði sett á fót hin eina verksmiðja á landinu, ef það þætti tiltækilegt. En á Austfjörðum gæti ullarverksmiðja aldrei orðið til annars en skaða fyrir ullarframleiðendur. Væri því miklu nær að setja þar klæðaverksmiðju en á gjögrum Austurlandsins. Þó má líta á það, að Álafoss hefir jafngóða aðstöðu eða betri; mundi því þessi verksmiðja austanfjalls vera óþörf.

Jeg heyri, að háttv. þingmönnum Múlaþinga líkar ekki þessi orðræða mín, en þó vildi jeg segja þeim góðu mönnum, að ef jeg kæmi á Austurland og ætti tal við kjósendur í Múlasýslum, mundi jeg geta sannað þeim, að þingmenn þeirra hafi haldið fram röngu máli á Alþingi nú, og það er víst, að þeir eigist þar æ einir við. (B. H.: Þingm. Dala. mundi seint verða kosinn á þing á Austurlandi). Það getur verið, en þeir gætu þó ekki varnað þm. Dala. málsins þar austurfrá.

Jeg hverf svo frá þessari till., sem er svo dauðadæmd sem nokkur tillaga, jafnvel sparnaðarnefndar, getur verið.

Þá kemur að háttv. þm. N.-Ísf. (S. St.), er vaknaði nýlega af mannúðardraumum sínum og sá, að ekki mundi seinna vænna að bjarga eftirmæli háttv. sparnaðarnefndar. Tók hann að afsaka hana sem ákafast og vonaðist auðsjáanlega eftir, að sjer tækist að sanna, að hún ætti skilið að fá ekki lakari orð á legsteininn en þau, er hann tók til: „Hjer hvíla sparnaðarnefndarmenn neðri deildar. Þeir gerðu sumt af viti, en flest af engu viti. Requieseant in pace“. En því er miður, að honum mistókst öll vörnin og vafðist tunga um tönn, er hann skyldi svara háttv. þm. Ak. (M. K.), og stendur því óhrakið, að nefndin hafi gersamlega misskilið hlutverk sitt.

Erindisbrjefið vildi jeg með leyfi hæstv. forseta lesa upp fyrir háttv. deild:

„Alþingi ályktar að skipa 5 manna nefnd til að rannsaka fjárhagsástæður ríkisins og gera tillögur um sparnað á ríkisfje, svo sem með niðurlagningu miður nauðsynlegra embætta, sameiningu þeirra opinberu starfa, sem samrímanlegir eru, niðurfærslu skrifstofukostnaðar ýmsra opinberra stofnana, burtfellingu eða niðurfærslu verðstuðulsuppbótar, þar sem hún er eigi lögmælt, m. m.“ Hjer er auðsjáanlega lögð aðaláherslan á það, að nefndin rannsaki hag ríkisins, en enginn hefir spurt, að hún hafi gert það. Hún hefir ekki lagt heilann í bleyti við að hugsa um það og engan beðið ráða.

Um niðurlagningu óþarfra embætta er það að segja, að þar mun nefndin þótst hafa gert hreint fyrir sínum dyrum. Hún hefir ráðst á 2 embættismenn við háskólann, en hún er ekki þannig af guði gefin, að hún beri skyn á það, hvort þau væru óþörf eða ekki. Enn má og minnast á, að þeir hjeldu fast við sameiningu Árness- og Rangárvallasýslna og mæltu með því viturlega og djarflega (!?), en þeir gleymdu að sameina Siglufjörð og Eyjafjarðarsýslu, þó þeim væri bent á það af einum háttv. sparnaðarmanni á þingi.

Er þetta því undarlegra sem einn háttv. nefndarmaður er þm. Siglufjarðar og Eyjafjarðar. Sennilega hafa þeir gleymt þessu, nema sjón þeirra sje þannig mishaldin, að þeir sjái þá aðeins sparnaðinn, að kjördæmi þeirra sjálfra eigi ekki hlut að máli.

Hv. frsm. sparnaðarnefndar Nd. sagði, að kjósendur sínir hefðu heimtað, að hann berðist fyrir því, að fjárlögunum væri skilað tekjuhallalausum. Aumingja kjósendurnir! að hann skuli vitna til þeirra. Því það er deginum ljósara, að ef þeir hafa staðið upp og vitnað um sparnað, er það aðeins af því, að hann hefir áður komið þeirri flugu í munn þeim. Hann gat því jafnvel vitnað til sjálfs sín eins og fara þessar krókaleiðir.

Hann játar, að nefndin hafi viljað spara við vísindi til þess að eiga krónunni fleira til þess að leggja í framleiðsluna. Jeg veit ekki hvernig á að skilja þetta. Jeg fæ ekki sjeð, hvað hann vill gera við krónuna. Ætlar hann kannske að kaupa fyrir hana ær og sauði handa sjer til þess að auka framleiðsluna? Eða vill hann lána til að setja á stofn smjörlíkisgerð austur um jökla eða ullarverksmiðju í hverjum hreppi á landinu? Það getur nú verið vafasamt, hvort alt er svo gott, sem þessir sparnaðarmenn halda fram. Líklega stafar þetta af misskilningi eða það er sagt til þess að þóknast kjósendum.

Einni krónu fleira, — einni krónu fleira, þetta á að vera það mikla orð. það „excelsior“ sem hefur þjóð vora upp úr öllum vanda. Þess vegna flæðir Búkolla allri þessari mannelskumjólk hjer í deildinni.

Hv. þm. N-Ísf. (S. St.) rangfærði orð þm. Dala. (B. J.) um alþýðumentun. Þetta sýnir hið ýtrasta röksemdaþrot. Þar sem maðurinn hefir áður lýst yfir því, að hann væri mjer sammála um það mál.

Annars munu menn vita, að jeg nefi haldið því fram, að heimilin mundu fær um að túlka börnunum opinberun þess vísdóms að lesa, skrifa og reikna.

Jeg hjelt því fram, að jeg vildi fá miklu meiri fræðslu í landinu. Til þess vildi jeg láta stofna 1 unglingaskóla eða alþýðuskóla í hverri sýslu.

Þetta sýnir enn, hversu þessi þm. (S. St.) leyfir sjer að fara á hundavaði yfir allar röksemdir, og hirðir þá eigi meira um sannleikann eða sinn eigin sóma en það, að hann lætur sjer sæma að segja það, sem deildin öll gæti vottað að er rangt.

Loks gat hann þess að niðurlagi, að hann gæfi ekki 2 aura fyrir fullveldið(!?). Hann hefir nú áður reiknað út, að fullveldið hafi kostað landið 200000 kr., og taldi þær þá eftir. Hefði hann því getað sparað sjer þessa yfirlýsingu, því öllum þingmönnum er kunnugt um, að hann hefir margsinnis svikið þann málstað. Það er annars gaman að rifja upp nú, hve mikið kapp hann lagði á það að fjölga embættismönnum, læknum og prestum. Hvar? — Í sínu eigin kjördæmi. Þá var ekki talað um sparnað, þá var ekkert til, sem væri rjettlátara eða betra en fá lækni og prest í Bolungarvík. Og þá brá svo við, að sólroði færðist yfir hið geistlega andlit hans, þegar talað var um að ausa út fje úr ríkissjóði í Hesteyrarsímann. En hvar er svo Hesteyri og þessi sími, sem svo nauðsynlegt er að leggja? Mundi hann ekki vera vestur á Ströndum, eða einhversstaðar nærri þm. N.-Ísf. (S. St.)? Svo var að minsta kosti að skilja á þakkarávarpi þm. til hæstv. atvrh. (Kl. J.).

En jeg vil ekki skilja við þennan höfuðpaura sparnaðarnefndarinnar, án þess að minna á, að hann muni segja eins og Skuggasveinn: „Lofið honum aumingja Katli að fylgjast með.“ Og er jeg þá kominn að hv. 1. þm. Eyf. (St. St.), sem þó sjerstaklega virðist á þing sendur vegna Ólafsfirðinga. Það er ekki ósennilegt, að honum takist að nurla saman í Ólafsfjarðarbryggjuna, ef hann fylgir uppteknum hætti, að drepa alt, sem ekki snertir hans kjördæmi að einhverju leyti. Slíkir menn sem hann eru sparnaðarhugsjón sparnaðarnefndar trúir, og ekki er nema von, þó að þeir ætlist til, að aðrir láti alt af höndum, jafnvel atvinnu og lífsuppeldi, til þess að sparnaðarmenn geti gengið í landssjóðinn og tekið sem þá lystir handa sjer og sínum kjördæmum.

Jeg hefi þá lofað veslings Katli að fylgjast með og svarað þessum hv. herrum. Skal jeg því ekki frekar lengja umræður, úr því hv. þingmenn hafa látið sjer sæma að skera þær niður. Að þeir hafa gripið til þess, hlýtur að byggjast á því, að sumir álíti sig sitja hjer til skaða fjárhag landsins. Þeir um það, en jeg mótmæli því fyrir sjálfan mig, og svo munu fleiri gera; en það er altaf hægt að svíkjast að mönnum og skera niður umr. að þeim forspurðum. Og vil jeg þá bæta við frá sjálfum mjer, að slíkt ætti hvergi að koma fyrir, að skornar væru niður umr. um fjárlög.