24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í D-deild Alþingistíðinda. (1901)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Fjármálaráðherra (M. G.):

Hv. 1 þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að jeg hefði misskilið öll atriðin í ræðu sinni. Ef svo er, þá fæ jeg ekki betur sjeð en að við sjeum sammála, en jeg var að svara honum af því, að jeg hjelt, að hann væri mjer ósammála. En mjer er líklega heimilt að svara þessari síðari ræðu.

Hv. þm. (Jak. M.) mintist á innflutningshöftin, eins og oft áður. Jeg man í fyrra, að hann sagði, að það hefði verið skilin eftir ögn af þeim til þess að stjórnin þyrfti ekki að svínbeygja sig. Nú heldur hann því fram, að stjórnin hafi haft ótakmarkaða heimild frá þinginu í fyrra.

Hann sagði, hv. þm. (Jak. M.), að mismunur á útflutningi og innflutningi mundi lagast af sjálfu sjer, eða ef það færi ekki á þann veg, þá gætu bankarnir haft hönd í bagga með því, að menn keyptu ekki inn óþarfa. En jeg þori nú ekki að treysta því. Jeg hefi talað um þetta við bankastjórana hjerna, en þeir segjast ekkert fá við slíkt ráðið; allir þykjast auðvitað þurfa að kaupa inn nauðsynjavöru, og þeir hafa engin tök á að ósanna það.

Þá sagði þm. (Jak. M.), viðvíkjandi dæminu um manninn, sem jeg tók í fyrri ræðu minni, að tilboð það, sem hann fengi í fje það, er hann á inni hjá oss, skapaðist af áliti kaupandans á okkur. En það þarf ekki að vera. Það þekkist í viðskiftum, að menn nota sjer neyð annara, er þeim liggur á peningum, eins og jeg gerði ráð fyrir um manninn, og gera því lægra tilboð en ella, og óviðkomandi áliti kaupandans á þeim, sem ávísunin hljóðar á.

Þá undraðist hv. þm. (Jak. M.), að jeg skyldi gleðjast yfir gengishagnaðinum núna. Það er rjett, mjer þótti gott, að gengishagnaður varð, úr því að lánið var tekið, en hins vegar vil jeg aldrei taka lán í þeim einum tilgangi að „spekúlera“ með gengið. Þar sem hann talaði um, að gengishagnaðurinn væri tekinn úr vösum landsmanna, þá skildi jeg ekki, hvað hann fór.