24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (1902)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jón Þorláksson:

Jeg verð að segja það, að það er dálítið erfitt að eiga orðastað við hv. þm. Ak. (M. K.), því að hann á bókstaflega ómögulegt með að hafa eitt einasta orð rjett eftir manni. Minni hans er svo ótrútt, að undrum sætir. Og þótt hann keppist við að skrifa upp eftir manni undir umræðum, þá er eftirtektin svo sljó, að alt verður skakt hjá honum.

Þá sýndu og ummæli hv. þm. (M. K.), að það er heldur þýðingarlítið að prenta þingtíðindin, því að þótt þar standi skýrum stöfum prentuð afstaða mín til þessa máls á síðasta þingi, þá segir hv. þm. (M. K.) nú alveg rangt frá um hana.

Hann sagði, að jeg væri nú eindregið á móti öllum verslunarhöftum yfirleitt, svo sem jeg hefði einnig verið á síðasta þingi. En þetta er hvorttveggja rangt. Jeg tók það fram á síðasta þingi, að jeg væri fús á að vera fylgjandi innflutningshöftum á óþarfa, ef menn vildu banna þær vörur, sem um munaði til gjaldeyrissparnaðar. Og það tók jeg einnig fram nú. Jeg nefndi tóbak í fyrra. En í stað þess að vera því fylgjandi að hefta innflutning á því, þá hefir hv. þm. Ak. ýtt undir innflutning á því, með því að koma því til leiðar, að landsstjórnin tæki í sínar hendur einkasölu á því, honum sjálfum og öðrum góðum vinum sínum til framfæris. (M. K.: Flóaáveitan! Flóaáveitan!).

Þá sagði hv. þm. (M. K.), að jeg hefði sagt, að öll innflutningshöft yrðu til þess, að meira yrði flutt inn og keypt af vörum. En jeg sagði það aðeins um þau höft, sem hægt er að koma við undanþágum eða undanbrögðum. Og það er rjett, eins og jeg sýndi þá fram á.

Þá kvað hann mig hafa sagt, að hagur væri að því fyrir þjóðina, að gjaldeyririnn fjelli. En þetta er auðvitað rangfærsla. En hitt er annað mál, að jeg álít það nokkuð fljótfærnislega ályktað að telja það þjóðinni í óhag, sem er einni stjettinni til óhagnaðar, en annari til hagnaðar.

Rök þau, sem hv. samþm. minn (Jak. M.) hafði fram að færa, eru því mjög veik. Reynslan hefir sýnt, að þjóðir með lágu gengi geta selt framleiðsluvörur sínar. En þær þjóðir, sem það geta, komast hjá því mesta böli, sem við er að stríða nú á tímum, en það er atvinnuleysið. Standa þær þjóðir því litlu betur að vígi, sem háa gengið hafa, ef þær geta ekki selt útflutningsvörur sínar. Annars kemur hjer margt fleira til athugunar, og kannske erfitt að gera þar upp á milli.

Jeg get ekki neitað því, að jeg hafði dálítið gaman af kappræðu hæstv. fjrh. (M. G.) og hv. samþm. míns (Jak. M.) um gengishagnaðinn eða gengistapið á enska láninu, því það, sem þeir höfðu fram að færa, var tómur hugarburður. Það getur hvorki verið að ræða um gengishagnað eða gengistap við lántökur stafandi af gengisbreytingum íslensku krónunnar. Við þurfum nákvæmlega jafnmörg sauðarkrof eða saltfisksskippund í rentur og afborganir þess láns, er við tökum, hvort sem okkar króna stendur hátt eða lágt. Eins og stendur er enska pundið fyrir neðan gullverð; hækki það, er það okkur tap; við verðum þá að greiða meira.

En annað mál er það, að með því að lánið á að endurgreiðast í enskum pundum, þá hafa gengisbreytingar pundsins móts við gull áhrif á greiðslukostnað okkar.

Jafnfávíslegt tal var og glamur það um að taka gengislán í Ameríku á meðan dollarinn stóð sem hæst, til þess að fá með því „gengisgróða“ Íslandi til handa. Dollarinn var þá í gullverði, og við hefðum orðið að láta nákvæmlega jafnmikið af vörum fyrir rentum og afborgunum lánsins, hvað sem okkar krónu leið.