24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 200 í D-deild Alþingistíðinda. (1905)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jakob Möller:

Það er ekki af því, að jeg þurfi að svara hæstv. fjrh. (M. G.), að jeg stend upp; hann hefir ekkert af því hrakið, er jeg sagði. Heldur er það vegna þessarar reginvillu hv. samþm. míns (J. Þ.) um gengismuninn, að jeg get ekki orða bundist. Að vísu geri jeg ráð fyrir, að hann sjái, hversu fráleit hún er, þessi skoðun hans, en sje ekki neinu slíku að heilsa, þá vil jeg taka svolítið dæmi og reyna að gera honum það skiljanlegt.

Við skulum gera ráð fyrir, að jeg skuldi 100 þús. kr. — vitanlega skulda jeg ekki svo mikið — og til þess að greiða þessa upphæð tek jeg lán í Danmörku, ef jeg þá fæ það. Taki jeg lánið nú þegar, þarf jeg ekki nema 60–70 þús. kr. til þess að greiða skuldirnar. Lán þetta greiði jeg svo, þegar okkar króna stendur í pari, og hefi jeg þá grætt 30–40 þús. kr., saman borið við það, að skuldirnar hefðu staðið óhreyfðar í íslenskum krónum hjer í bönkunum, að upphæð 100 þús. kr. Þetta myndi jeg hiklaust gera, ef jeg bæði gæti og þyrfti þess með, og þrátt fyrir skoðanir hv. samþm. míns (J. Þ.) á gengismálinu.

Annars vil jeg ráðleggja hv. samþm. mínum (J. Þ.) að birta þessar skoðanir sínar víðar en í þingsalnum, svo að almenningi gefist kostur á að sjá þær og kynnast þeim. Einkum er þetta bráðnauðsynlegt, ef hætt yrði nú við að prenta Alþingistíðindin, enda hlýtur honum að finnast nauðsynlegt að leiðrjetta misskilning fjöldans á þessu máli. Og efast jeg þá ekki um, að hv. samþm. minn (J. Þ.) yrði frægur að makleikum.