24.02.1922
Neðri deild: 8. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í D-deild Alþingistíðinda. (1907)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Magnús Kristjánsson:

Má jeg líka gera stutta athugasemd. Hv. þm. Dala. (B. J.) hjelt mig vera að dreyma. En það er nú svona með þessa andans menn, að þeir eru oft annars hugar þegar um praktiska hluti er að ræða. Þeir hafa sína veröld fyrir sig, og er því trúlegt, að skáldið frá Vogi hafi verið í öðrum heimi á meðan hann flutti þessar ræður sínar, og því rjettast að taka hann ekki alvarlega. En þar sem hann er að tala um þm. skifti í Dölunum, þá verð jeg nú að líta svo á, að það gæti ekki talist skaði fyrir Dalamenn, þó að þaðan kæmi annar þm., sem væri ekki í alla staði líkur þeim, sem nú er. Að minsta kosti að hann hefði dálítið meira af þeim hyggindum, sem í hag koma.