25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (1928)

25. mál, tala ráðherra

Gunnar Sigurðsson:

Jeg er þeirrar skoðunar, að báðar þær till., sem hjer eru fram komnar, höggvi allmjög nærri stjórnarskránni og brjóti að minsta kosti allmjög í bága við grundvöll hennar og eindreginn þingvilja undanfarinna þinga.

Á þingi 1917 voru, eins og öllum er kunnugt, samþykt lög um, að ráðherrar skyldu vera þrír, og það með svo yfirgnæfandi meiri hluta, að aðeins þrír þm. munu hafa verið á móti þeim í Nd., og einn í Ed. Þessi lög tók svo stjórnarskráin inn í sig, og í henni er út frá því gengið, að ráðherrarnir skuli vera þrír í fæsta lagi.

Að vísu er ekki eins sterk ástæða til þess að vera á móti till. á þskj. 26 eins og brtt. á þskj. 29, því að í 11. gr. stjórnskrárinnar segir svo, að konungur ákveði tölu ráðherra og skifti störfum með þeim. En hvernig á konungur að skifta störfum með ráðherrunum, ef hann er aðeins einn? Till. á þskj. 29. nær því ekki neinni átt. En jeg vil enn fremur lýsa yfir því, að jeg er einnig á móti aðaltill., fyrir þá sök, að jeg vil ekki láta halla grundvelli stjórnarskrárinnar og þingviljanum. Jeg vil ekki breyta anda og tilgangi stjórnarskrárinnar og vil minna menn á stjórnarskráreið sinn.

Enn fremur kemur annað atriði til greina í þessu máli, sem að vísu er oft lagt of mikið upp úr, en það er vilji kjósenda sjálfra. Ef nokkurt mál á að bera undir þjóðina, þá er það einmitt þetta mál. Að vísu getur verið, að sumir þm. hafi gert þetta, en jeg hefi ekki haft tækifæri til þess að bera það undir mína kjósendur, og veit því ekki vilja þeirra. (P. O.: Kjósendur heimta sparnað). Já, en jeg held, að þetta sje ekki svo mjög mikill sparnaður, nje heldur borið fram aðallega í því skyni. Liggur mjer fremur grunur á, að þessi till. sje fram komin af því, að núverandi stjórn hafi ekki haft handbæran mann í stjórnina.

Um till. á þskj. 29 er það að segja, að jeg tel alveg víst, að hæstv. forseti vísi henni frá, og ætti í rauninni að vísa hinni frá líka. Jeg ber hjer með fram svohljóðandi rökstudda dagskrá:

Þar sem tillögurnar á þskj. 26 og 29, um tölu ráðherra, fara svo svo mjög í bága við grundvöll þann, er stjórnarskráin leggur um skipun ráðherra, að nærri liggur stjórnarskrárbroti, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.