25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í D-deild Alþingistíðinda. (1932)

25. mál, tala ráðherra

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti það undarlegt, að hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hjelt því fram, að stjórnarskráin hefði verið samþykt hjer á þinginu með þeim skilningi, sem hann setti í athugasemdum sínum við frv. Ef við, sem í nefndinni vorum, og kunnum mælt mál, hefðum ætlast til, að hans skilningur hefði verið lagður í stjórnarskrána, þá hefðum við breytt orðalaginu. Þá nær það ekki nokkurri átt, að skýra megi stjórnarskrána eins rúmlega og önnur lög, heldur verður þar að fara eingöngu eftir orðanna hljóðan. Það er öðru máli að gegna um ýms önnur lög, þar sem til eru hliðstæð dæmi úr daglegu lífi og svipuð ákvæði annarsstaðar; þar má altaf teygja og toga. En menn mega ekki vera djarftækir í skýringum sínum á sjálfri stjórnarskránni.

Það þykir mjer næsta undarlegt, að því skuli vera haldið fram hjer, að það þurfi ekki nema einn, eða í hæsta lagi tvo menn, til að stjórna landinu. Það er kynlegt, þegar ekki er hægt að komast af með minna en þrjá menn til þess að stjórna smábankaholum, eins og bönkunum hjerna, að menn skuli ætla, að minna þurfi við um landið sjálft. Jeg hygg, að ekki muni veita af þremur mönnum, og þeim góðum, og ætla jeg, að reynslan hafi sýnt það og muni sýna. Það er nú svo ástatt í heiminum, að utanríkismálin eru umfangsmikil hjá öllum þjóðum og krefja mikilla starfskrafta, ekki síst núna eftir styrjöldina. En utanríkismálunum er nú ekki mikill sómi sýndur hjer hjá oss, og hygg jeg, að oss væri meiri þörf að fjölga ráðherrum en fækka.

Enda leiðir það af sjálfu sjer, að því betri verður stjórnin, því fleiri og betri menn sem í henni eru, nema því aðeins, að hlutfallið sje öfugt milli vitsmuna stjórnarinnar og fjölda ráðherranna.

Þar sem hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) var að tala um, að núna væru ráðherrarnir aðeins tveir, þá er ekki hægt að draga neinar rökleiðslur út af því. Það lá ekki svo á að fylla í skarðið þegar í stað, þar sem þing var í þann veg að koma saman. Mjer hefði að vísu verið ljúfast, að atvrh. hefði verið skipaður strax, þó ekki væri af öðru en virðing við hinn látna ráðherra. Og af virðingu við hinn látna atvrh. ber að skipa þetta embætti vel. Þetta er líka í fullu samræmi við lögin, því í stjórnarskránni er altaf átt við fleiri en 1 ráðherra. Hitt er líka augljóst, að þar er átt við fleiri en 2, því þar er talað um „einhvern ráðherranna“, en ekki „annanhvorn“, sem annars ætti að standa þar samkvæmt rjettu máli.

Auk þessa hljóta allir að viðurkenna þetta, sem þekkja hlutfallið milli 2 og 3.

Það er tvent, sem jeg hefi á móti þessari till. í fyrsta lagi tel jeg, að ráðherrar megi ekki vera færri en 3, og þurfi fremur að fjölga þeim en fækka, og í öðru lagi tel jeg konungi ekki leyfilegt eftir stjskr. að stýra þjóð vorri með færri ráðherrum en 3.