25.02.1922
Neðri deild: 9. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í D-deild Alþingistíðinda. (1937)

25. mál, tala ráðherra

Forseti (B. Sv.):

Þar sem rökstudda dagskráin frá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) er nú fallin, kemur til álita tillaga flutningsmanna, á þskj. 26, og brtt. við hana frá hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.), á þskj. 29. En um tillögur þessar hefir orðið mikill ágreiningur hjer í deildinni, hvort þær geti samrýmst ákvæðum stjórnarskrár eða eigi, og sumir talið það eitt rjett að vísa þeim frá. Verður nú eigi hjá komist að skera úr þeim ágreiningi.

11. gr. stjórnarskrár segir, að konungur skipi ráðherra og veiti þeim lausn. Hann ákveður tölu þeirra og skiftir störfum með þeim“.

Auðsætt er, að konungur fær eigi skift störfum með ráðherrum, nema þeir sje að minsta kosti fleiri en einn. Sumir vilja komast fram hjá þessu skeri með því að benda á, að ákvæði þetta komi því aðeins til greina, að konungi þóknist að ákveða hærri ráðherratölu en einn, en hann hafi óbundnar hendur í þessu efni, þar sem hann „ákveður tölu þeirra“, og megi því ákveða að hafa aðeins einn.

Í 12. gr. segir, að ráðherrar (Íslands) skipi ríkisráð. „Ríkisráðsfund getur konungur haldið með einum ráðherra utan Íslands“.

Samkvæmt þessu getur konungur aldrei haldið ríkisráðsfund nema utan Íslands, ef ráðherra er aðeins einn. Væri það undarleg stjórnarskipun, er bægði konungi frá að geta haldið löglegan ríkisráðsfund innan ríkis. Virðist mjer þetta ákvæði girða fyrir, að tala ráðherra megi vera aðeins einn.

Í 13. grein eru ákvæði um ráðherrafundi. Skal meðal annars heyja þá fundi „er einhver ráðherranna óskar að bera þar upp mál“. Fundunum stjórnar forsætisráðherra. — Segir í 14. grein, að forsætisráðherra beri málin að jafnaði upp fyrir konungi „einnig fyrir hönd hinna ráðherranna, ef þeir eru ekki viðstaddir“, o. s. frv.

Þessi ákvæði virðist mjer öll bera að sama brunni.

Þá vil jeg enn benda á það, sem eigi hefir verið minst á í umræðunum, að stjórnarskipunarlög frá 3. okt. 1903 kveða svo á í 1. gr.: „Nú deyr ráðherrann, og gegnir landritarinn þá ráðherrastörfum á eigin ábyrgð, þangað til skipaður hefir verið nýr ráðherra“.

Þetta ákvæði er síðan tekið upp í 1. gr. stjórnarskipunarlaga frá 19. júní 1915. Þar segir:

„Nú deyr ráðherra eða lætur af embætti, og gegnir landritari þá ráðherrastörfum á eigin ábyrgð, þangað til skipaður hefir verið nýr ráðherra“. — „Verði ráðherrum fjölgað, legst landritaraembættið niður“.

Ákvæði þessi hafa verið feld niður úr núgildandi stjórnarskrá, einmitt af því, að ráðherrum var fjölgað. En ef þeim væri nú aftur fækkað niður í einn, svo sem gert er ráð fyrir í brtt. á þskj. 29, þá vantar samsvarandi ákvæði í stjórnarskrána, sem stóðu í hinum fyrri stjórnarskipunarlögum. Stjórnarskráin er þá ekki sjálfri sjer einhlít í þessu efni. Það verða eyður í hana, sem nauðsyn er að fylla með nýjum ákvæðum í henni sjálfri.

Að þessu öllu athuguðu verð jeg að vísa frá brtt. á þskj. 29, þar sem hún hlýtur að teljast koma í bág við stjórnarskrána.

Um till. sjálfa, á þskj. 26, er nokkuð öðru máli að gegna. Að vísu eru orðin í 13. og 14. gr. stjórnarskrárinnar, þau er jeg hermdi áður: „einhver ráðherranna“ og „einnig fyrir hönd hinna ráðherranna“, — miðuð við fleirtölu en ekki tvítölu, en það hefir getað ráðið þessu orðalagi, að haft var í huga, þegar lagagreinir þessar voru samdar, að ráðherrarnir voru þá þegar orðnir þrír, og því eigi hugsað út í eða hirt um að orða svo, að ákvæðin ættu einnig við, málfræðilega, ef ráðherrar væri aðeins tveir. Virðist mjer því eigi nauðsynlegt að skilja fleirtölu-orðmyndirnar þannig, að ráðherrar skuli skilyrðislaust vera þrír eða fleiri.

Í athugasemdum stjórnarinnar aftan við stjórnarskrárfrumvarpið er það tekið fram, að tala ráðherra sje eigi fastákveðin þar vegna þess, að hentugt geti verið, að einn ráðherra megi taka starf annars, svo að þeir sjeu einungis tveir um tímabil, t. d. þegar ráðherra fellur frá eða lætur af störfum milli þinga. Þetta bendir að vísu á það ótvírætt, að stjórnin hefir ætlast til, að ráðherrar væri (minst) þrír að forfallalausu.

En höfuð-skilsmunur aðaltillögunnar (á þskj. 26) og brtt.þskj. 29) er sá, að stjórnarskráin getur eigi komist til framkvæmda í mikilvægum atriðum, ef brtt. næði samþykki, en hún (stjórnarskráin) verður framkvæmd, þótt tillagan sjálf yrði samþykt. Skal jeg benda á þau atriði, er skilur:

Konungur getur skift störfum með ráðherrum, þótt aðeins sje tveir, samkv. 11. gr.

Hann getur haldið ríkisráðsfundi á Íslandi með tveim ráðherrum, en ekki með einum.

Ráðherrafundi er unt að heyja samkv. 13. gr., og forsætisráðherra getur flutt mál fyrir konungi af hálfu annars ráðherra en sín sjálfs. — Enn fremur getur hinn ráðherrann int af hendi öll ráðherrastörf í forföllum eða fjarveru embættisbróður síns, og kemur hjer því eigi til greina nein eyða eða vöntun í stjórnarskrána í stað þeirra ákvæða, er áður voru um verksvið landritara.

Sakir þessa verulega skilsmunar tillagnanna mun jeg eigi vísa aðaltillögunni frá, heldur gefa háttvirtri deild færi á að greiða um hana atkvæði. — Skal jeg þó kannast við, að orka muni tvímælis, hvort þessi úrskurður sje eigi of vægur, samkvæmt orðalagi fyrnefndra lagagreina og skýring þeirri, sem felst í athugasemd stjórnarinnar við frumvarp til núgildandi stjórnarskrár. Og eigi vildi jeg alls kostar synja fyrir, að landsdómur kynni að vera svo skipaður, að hann sakfeldi stjórn, er rjeði konungi til þess að staðfesta slík ákvæði, sem í till. felast, sakir þess, að of nærri gengi stjórnarskránni.

Hv. þdm. gefst nú kostur að lýsa afstöðu sinni til þessa máls, og verður tillagan borin upp til atkvæða.