18.03.1922
Sameinað þing: 7. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 244 í D-deild Alþingistíðinda. (1944)

53. mál, stjórnarskráin

Frsm. (Sigurður Stefánsson):

Hæstv. forsætisráðherra (S. E.) tók það fram, að stjórnin væri ekki mótfallin till., og þakka jeg honum fyrir það. En hann bjóst við, að fleira mundi af þessu spretta. Jeg veit eigi til þess, að fleira í þessa átt komi frá nefndinni, en þótt svo væri, er ekki ástæða til að kvíða því. Menn ættu að taka öllum till., sem ganga í þá átt að draga úr útgjöldunum, fegins hendi, því að aldrei hefir verið meiri nauðsyn á að spara en einmitt nú. Okkur hafa verið mislagðar hendur í þeim efnum síðustu árin, og á fullveldið óbeinlínis þátt í því. Við höfum um of reynt að semja okkur að siðum stærri fullvalda ríkja, án þess að íhuga fyrst, hvort við værum þess megnugir fjárhagslega. Og afleiðingin er auðsæ. Við höfum lent í megnustu fjárhagsvandræðum. Vitanlega liggja hjer til aðrar fleiri ástæður, en óhóf þingsins á þó mikla sök á máli. Það er ekki að marka, þó að hv. þm. Dala. (B. J.) finnist alt eins og vera ber, því að fyrir honum er fjárhagurinn altaf glæsilegur, hversu báglega sem við erum staddir. Annars hafa ummæli hans í þessu máli farið fyrir ofan garð og neðan, eins og oft vill brenna við hjá þessum hv. þm. (B. J.).

Jeg legg svo málið á vald hv. deildar. Jeg veit, að það á ítök um land alt, svo vel þykist jeg þekkja hugi landsmanna, og jeg efast um, að því verði fagnað með þjóðinni, ef till. verður feld.