04.04.1922
Neðri deild: 40. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (1958)

77. mál, skaðabótamál gegn Íslandsbanka

Forsætisráðherra (S. E.):

Hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) má reyna eins og hann vill að snúa orðum mínum á þá leið, að jeg teldi forsætisráðherra og bankaráð of fínt til þess, að höfða mætti mál gegn því. Í orðum mínum lá ekki annað en að jeg taldi það skaðlegt fyrir fjárhag landsins og lánstraust, ef þingið færi nú að skipa stjórninni að höfða mál gegn peningastofnun, sem í öllum verulegum atriðum stendur undir stjórn trúnaðarmanna Alþingis.

Jeg efa ekki, að mistök kunni að hafa verið á stjórn bankans. En tímunum má ekki gleyma, sem yfir hafa dunið. Jeg kvaðst ekki fær að dæma um starfsemi bankans; til þess yrði jeg að vera búinn að sjá og athuga allar „dispositionir“ hans, en til þess er ekki að ætlast, eftir þessa fáu daga, sem jeg hefi verið formaður bankaráðsins, og enn þá minni kost hefir hv. deild átt á því að rannsaka svo hag bankans, að hún geti gefið þessa skipun. En eitt stendur fast, og það er matið, sem sýnir, að engin hætta er á ferðum fyrir bankann.