05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (1966)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Frsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf ekki að vera langorður. Hv. deild er mál þetta kunnugt, því það lá fyrir henni í fyrra, og var þá svo mikið um það talað, að tæplega hefir hjá því farið, að hv. þm. hafi kynst því rækilega. Nægir því að skýra frá gangi málsins hjer á þinginu í fyrra og síðan.

Á Alþingi í fyrra kom fram skaðabótakrafa frá manni þessum, rúmar 17,000 kr., og auk þess krafa um bætur fyrir atvinnumissi. Lagði fjárveitinganefnd þá til, eftir uppástungu frá fyrverandi atvrh. (P. J.), að manninum væru veittar 5000 kr. í fjáraukalögum. En till. þessi mætti mikilli mótspyrnu hjer í deildinni af þáverandi fjrh. (M. G.), sem taldi mjög varhugavert að veita þessa upphæð.

Till. fjárveitinganefndar var svo feld, og Alþingi gerði ekki ráð fyrir því, að þessi upphæð væri greidd.

Var bent á það hjer í fyrra af frsm. fjárveitinganefndar, að málið væri ekki svo einfalt, sem það liti út fyrir, þar eð um meira en uppbót fyrir slæm launakjör væri að ræða, jafnvel bætur fyrir að vera bolað frá starfinu, án þess þó að nefndin legði dóm á slíkt.

Um þetta var því alt óvíst í fyrra, en síðan hefir það fram komið, sem bendir til þess, að ríkari ástæður hafi legið til þess að bæta manninum en fjárveitinganefnd þá gerði ráð fyrir að væru til staðar. Stjórnin hefir sem sje greitt þessum manni 5000 kr., enda þótt till. um það væri feld, og með því viðurkent, að þarna hafi verið um rjettmæta kröfu að ræða.

Nú hefir hann enn komið fram með kröfur sínar til Alþingis, sökum þess, að hann þykist ekki hafa fengið að fullu bætt tjón sitt, þar sem hann og heldur enga atvinnu hefir fengið, þrátt fyrir loforð landssímastjóra.

Vill fjárveitinganefnd nú, að mál þetta sje tekið fyrir og rannsakað frá rótum, svo að endir verði á það bundinn. Er enn frekari ástæða til þessa, þar eð ætla mætti, ef farið væri eftir ýmsum orðrómi og blaðagreinum, að starfsmaður þessi hafi verið beittur ranglæti af yfirboðurum sínum.

Leggur fjárveitinganefnd engan dóm á, hvort svo hafi verið, en skorar aðeins á ríkisstjórnina, beggja aðilja vegna, að rannsaka málið, svo að það sanna komi í ljós. Er enn meiri ástæða til að leggja áherslu á, að rannsókn þessi fari fram, þar sem það sjest af skjölum málsins, að manninum hafa verið greiddar þessar 5000 kr. með því skilyrði, að hann færi ekki í mál við landssímastjóra, eftir því, sem Petersen sjálfur skýrir frá. Vænti jeg, að hv. deild sjái, að rannsókn málsins er öllum aðiljum fyrir bestu.