05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (1967)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Mjer fanst það skylda mín, er jeg sá till. þessa, að benda landssímastjóra á hana og fá skýringar frá hans hálfu á málinu, því að hann á engan kost þess að verja sig hjer sjálfur. Landssímastjórinn hefir sent mjer skýrslu sína um málið, og mun jeg nú tilfæra hana, að hans frásögn. Eru það hans ummæli, en ekki mín. Relata refero.

Landssímastjórinn segir, að Petersen beri það fyrir sig, að hann hafi orðið að segja upp vegna þess, hve launin voru lág, en landssímastjóri segir, að þetta hafi ekki verið aðalástæðan, heldur sú, að 1919 hafi átt að koma upp loftskeytastöð í Vestmannaeyjum, og að sami maður rækti hvorttveggja, hana og ritsímastöðina. En þegar til kom, hafi Petersen ekki kent sig mann til að standa fyrir þessari sameinuðu stöð. Bæði hann og kona hans hafi fengið leyfi til að fara hingað til Reykjavíkur til þess að læra það, sem þar að laut, en vottorð liggur fyrir frá stöðvarstjóra loftskeytastöðvarinnar, um það, að þau hafi reynst óhæf til þess vegna aldurs.

Enn kveður landssímastjóri, að Petersen hafi sagt upp vegna þess, að hann hafi búist við að geta fengið betur launaða stöðu hjer í Reykjavík á þeim veltiárum, sem þá voru hjer, en það hafi mishepnast. En hvað sem öllu þessu líður, þá leggur landssímastjóri áherslu á það, að Petersen hafi sjálfur sagt stöðunni upp.

Viðvíkjandi kaupinu tekur hann það fram, að það hafi mátt heita gott. Kona mannsins hafi líka unnið á stöðinni og fengið laun fyrir, og enn hafi Petersen gert við ýmsar smærri bilanir á símanum og fengið ríflega borgun, jafnvel þó að telja hefði mátt, að honum hefði borið skylda til að gera það kauplaust. Enn fremur hafi þau bæði fengið launauppbót, yfir 100%, 1919–1920, en hún hafi ekki getað orðið jafnhá almennu uppbótinni sökum þess, að þau hafi ekki getað komist undir hin almennu launalög.

Enn sje þess að gæta, að maðurinn hafi nú fengið 5000 kr. uppbót, sem þingið í fyrra hafi þó ekki sjeð ástæðu til að veita. Vísar landssímastjóri annars um þetta til fyrverandi fjrh., 1. þm. Skagf. (M. G.), sem sje bæði kunnur þessu og öðru, málið áhrærandi.

Auk alls þessa hafi svo ríkissjóður keypt af Petersen hús hans fyrir 65 þús. kr., sem ekki hafi staðið honum í meiru en 30 þús. kr. Finst landssímastjóra því, að vel hafi verið farið með manninn, og miklu betur en hann hafi átt skilið. Eru þetta alt ummæli landssímastjóra.

Nú vil jeg bæta litlu einu við frá mjer sjálfum. Mjer sýnist, að ekki komi til mála að leggja þetta fyrir þingið hvað eftir annað. Dómstólarnir eru hjer það rjetta forum, en hvorki Alþingi nje stjórnin. En annars skilst mjer, að það sje meining fjárveitinganefndar, að stjórnin eigi að gera út um það, hvort krafan sje rjett eða ekki, og eigi hann að áliti stjórnarinnar enga kröfu, þá greiði hún honum ekkert, en annars þá upphæð, sem henni þykir sanngjörn. En er þá nokkur von til þess, að Petersen verði þá ánægður? Ef hann verður þá óánægður með úrslit málsins þar, þá getur það enn á ný komið fyrir þingið. Jeg álít, að það sje ekki ástæða fyrir þingið að taka svona umkvartanir til greina, sem heyra beinlínis undir dómstólana. Þetta má ekki skiljast svo, að jeg skorist undan að rannsaka málið, en jeg vildi aðeins benda á það, að eðlilegra hefði verið, að viðkomandi maður sneri sjer beint til dómstólanna.