10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

1. mál, fjárlög 1923

Frsm. (Halldór Steinsson):

Það hefir nú orðið eins og fyrri, að fjárveitinganefnd þessarar deildar hefir ekki verið ætlaður of langur tími til þess að athuga fjárlagafrumvarpið, þar sem það kom eigi til 1. umr. fyr en 31. mars, en brtt. skilaði nefndin 6. apríl. Hefir hún því eigi haft það til meðferðar nema tæpa viku.

Það liggur því í hlutarins eðli, að nefndin hefir orðið að vera hraðvirk. En hversu velvirk eða góðvirk hún hefir verið, verður nú lagt undir dóm hv. deildar. Eftir eðli sínu á hv. efri deild að vera íhaldssöm í fjármálum, og verður tæplega annað sagt en að hún hafi haldið þeirri stefnu. Fjárveitinganefnd hefir því viljað reyna að skila fjárlagafrv. svo, að tekjuhalli sá, er á því var, er það kom frá hv. Nd., minkaði að einhverju leyti. En það hefir verið erfitt verk fyrir nefndina, því að óhætt er að fullyrða, að fjárlagafrumvarp hafi sjaldan komið frá hv. Nd. með jafnmiklum sparnaðarblæ.

Nefndin leggur til, að tekjuhliðin hækki um 75 þús. kr. Á einstökum gjaldaliðum leggur hún til rúml. 50 þús. kr. lækkun, en á öðrum 12 þús. kr. hækkun. Ætti því að sparast rúmlega 38 þús. kr. á gjöldunum. Það lagt við 75 þús. verða 113 þús., sem nefndin leggur til, að tekjuhallinn minki. Fer fjárlagafrv. því frá nefndinni með 68 þús. króna tekjuhalla. Jeg verð því að líta svo á, að hún hafi gengið sæmilega frá því.

Þá vil jeg snúa mjer að frv. sjálfu, og mun jeg ekki fara ítarlega út í hverja einstaka grein þess, heldur halda mig við þær brtt., sem nefndin hefir gert.

Við tekjuhlið frv. hefir nefndin gert litlar brtt., því að hún leit svo á, að tekjurnar væru varlega áætlaðar, eins og vera ber, því að altaf má búast við, að útgjöldin fari fram úr áætlun. Það eru því aðeins þrjár brtt. frá nefndinni við þessa hlið frv. Sú fyrsta er, að tekju- og eignarskatturinn sje hækkaður um 100 þús. kr., og getur það tæplega talist óvarlegt, þegar litið er á það, hve útlit er fyrir að þessi skattur verði hár á þessu ári, sem sje að hann ætli að fara fram úr þeirri upphæð, sem hann var áætlaður. Einnig má taka tillit til þess, hversu árferði virðist ætla að verða gott nú og öll framleiðsla að ganga vel.

Önnur brtt. nefndarinnar er sú, að bifreiðaskatturinn, 30 þús. kr., sje feldur niður úr fjárlagafrv. Eftir lögum frá 1921 á að verja skatti þessum til þess að leggja slitlag á þá vegi, sem verst verða úti af umferð bifreiða, og er skýrt tekið fram, að vegamálastjóri hafi víðtækari yfirráð yfir þessu fje en öðru vegafje. Telur nefndin því eigi rjett, að sjóður þessi standi í fjárlögunum, því ætti hann að standa þar, þyrfti að minsta kosti að geta þess gjaldamegin, hvernig ætti að verja honum. Vitanlega hefir fyrv. fjármálaráðherra (M. G.) tekið það fram, að upphæðin lægi í því fje, sem ætlað er til viðhalds flutningabrautum og þjóðvegum. En vegamálastjóri hefir látið þess getið, að af því fje megi ekkert missast til bifreiðavega sjerstaklega.

Þá er þriðja brtt. nefndarinnar fram komin af því, að háttv. Nd. samþykti að koma á skólagjöldum við fasta landsskóla. Er því ekki nema eðlilegt, að þau sjeu einhversstaðar færð til tekna. Þykir nefndinni því rjettara, að þau sjeu færð tekjumegin í fjárlögin heldur en að stofna af þeim sjerstakan styrktarsjóð innan skólans, því að það gæti orðið til þess að vekja óánægju meðal nemenda.

Þessa upphæð hefir nefndin áætlað 5 þús. kr. og gerir ráð fyrir, að það sje síst of hátt.

Þá skal jeg víkja að gjaldahlið frumvarpsins. Við hana á nefndin allmargar brtt. á þskj. 207. Við 10. og 11. gr. hefir nefndin ekki gert neinar brtt. En sú skoðun kom fram innan nefndarinnar, að það fje, sem varið væri til skrifstofuhalds, bæði hjá stjórnarráði, lögreglustjóra og bæjarfógeta og fleiri skrifstofum, sem taldar eru í þessum greinum, væri ægilega mikil upphæð. En hún sá sjer ekki fært að koma með brtt. til lækkunar, því að hún telur eðlilegast að þær komi frá stjórninni.

Þá er fyrsta brtt. nefndarinnar við 12. gr. sú, að lagt er til, að Eyrarsveit fái kr. af þeim styrk, sem ætlaður er þeim hreppum, sem eiga erfitt með að ná til læknis. Jeg mun ekki fara að tala langt mál með þessari tillögu, en aðeins geta þess, að þessi hreppur á mjög erfitt með að ná til læknis, og áreiðanlega erfiðara en margir þeir hreppar, sem þegar njóta þessa styrks.

Þá er lagt til, að styrkurinn til Andrjesar Fjeldsteds augnlæknis sje lækkaður niður í 1500 kr. Gerir nefndin það af því, að henni finst eðlilegast, að styrkur til þessa manns sje eigi hærri en til annara læknasjerfræðinga, sem kensluskylda hvílir á við háskólann og styrks njóta úr ríkissjóði, eins og t. d. tannlæknis og háls-, nef- og eyrnalæknis.

Styrkinn til augnlækningaferða kringum land fanst nefndinni ekki rjett að binda við nafn einstaks manns, af þeim ástæðum, að nú eru búsettir hjer tveir sjerfræðingar í augnsjúkdómum, og væri því ekki nema eðlilegt, ef annar vildi ekki nota styrkinn, þá notaði hinn hann. En að sjálfsögðu gekk nefndin út frá því, að A. Fjeldsted verði látinn sitja fyrir þessum styrk, ef hann vill nota hann.

Við spítalana hefir nefndin ekki gert neinar breytingartillögur, en hún hefir falið mjer að lýsa skoðun sinni á fyrirkomulagi geðveikraspítalans á Kleppi. — Eins og kunnugt er, er þar svo þröngt, að engin leið er að koma þangað sjúklingum, og hefir mjög verið kvartað undan því. Kostnaður sá, sem hrepparnir hafa af geðveiku fólki, er að verða þeim, mörgum hverjum, alveg um megn. Sem dæmi upp á það má nefna, að hjer fyrir þinginu liggur umsókn frá einum hreppi á Austurlandi um styrk til þess að halda geðveikan mann, og hefir hreppurinn lagt út með manninum á 5. þús. króna fyrir síðastliðið ár. Þetta fyrirkomulag má því eigi vera svona lengur. Líka má athuga það, að meðferðin á þessum aumingjum verður oft ómannúðleg, því að fólk vill ekki taka þá, hvað sem í boði er, og verða þeir því að hrekjast úr einum stað í annan, og meðferðin á þeim verður því oft mjög misjöfn. Nefndin leggur því mikla áherslu á, að þetta verði lagað sem fyrst. Hún lítur svo á, að það hafi þegar dregist altof lengi að ráða bót á þessu. Árið 1919 voru samþykt lög um húsabyggingar ríkisins, og viðbótarbyggingin á Kleppi var talin þar með. Var stjórninni heimilað að taka lán til þeirra húsagerða, sem taldar eru upp í þeim lögum, ef fje væri ekki fyrir hendi. Af þeim byggingum er mjer eigi kunnugt um, að hafi verið bygðar nema skólahúsið á Hvanneyri og eitthvað lítilsháttar á Eiðum.

Jeg vil því fyrir nefndarinnar hönd skora á stjórnina að láta eigi dragast lengur að hrinda þessu máli í framkvæmd, helst þannig, að byrjað verði á byggingunni þegar á þessu ári, og ef fje væri eigi fyrir hendi, þá með lántöku.

Þá er 6. brtt. nefndarinnar á þskj. 207, við 12. gr. 13. f. Þar er lagt til, að styrkur til Önnu Breiðfjörð falli niður. Er það eigi gert af því, að nefndin telji að of mikið sje til af hjúkrunarkonum hjer. Síður en svo, heldur fyrir þá sök, að það dylst engum, að lítill árangur hefir orðið af því fje, sem varið hefir verið til þessa undanfarið. Allmargar hjúkrunarkonur hafa fengið utanfararstyrk að undanförnu en færri skilað sjer heim aftur; margar hafa gifst erlendis og sest þar að, og yfir höfuð orðið ýms vanhöld á þeim.

Þá er 7. brtt. nefndarinnar, um að fella niður 10000 kr. til Flóabrautarinnar. Áður hefir verið veitt fje til þessarar brautar, gegn framlagi úr sýslusjóði Árnessýslu. Sýslan hefir nú að undanförnu ekki getað lagt fram sinn hluta og orðið að fá hann að láni úr ríkissjóði og skuldar nú ríkissjóði 35000 kr., og sjer nefndin ekki ástæðu til að ausa í hana fje, sem ekkert útlit er fyrir, að hún geti greitt í nánustu framtíð. Nefndin leggur því á móti því, að fje verði veitt til hennar.

Þá er brtt. við 13. gr. E. II. Nefndin fer fram á, að laun vitavarðarins í Gróttu verði hækkuð og þar af sjeu 300 krónur sem persónuleg launauppbót til hins núverandi vitavarðar við Gróttuvitann, sem er aldraður, heilsulítill og fatlaður og hefir gegnt þessu starfi samfleytt í 25 ár. Sýnist því ekki nema sanngjarnt, að hann fái þessa litlu launauppbót.

Þá er brtt. við 14. gr. B. I. a. Nefndin leggur það til, að styrkurinn til kennarans í sögu og málfræði íslenskrar tungu sje tekinn upp. Þó að þessi styrkur væri feldur í Nd., þá lítur nefndin svo á, að slíkt sje óviðeigandi og kenslan megi alls ekki falla niður. Það á ekki eingöngu að vera hlutverk háskólans að framleiða embættismenn, svo sem presta, lækna og sýslumenn, heldur á það að vera aðalhlutverk hans að framleiða vísindamenn, og ætti engri deild hans að vera það hægara en einmitt norrænudeildinni. Hún ætti að hafa best tök á því að skara fram úr og vekja eftirtekt á okkur erlendis. Sem stendur eru hjer tveir erlendir stúdentar, sem stunda norrænunám, og er von á fleirum. Við verðum þess vegna að leggja alla þá rækt, sem okkur er unt, við þessa háskóladeild. Þetta er aðalatriðið. En sú hlið málsins, sem að manninum snýr, er vel þess verð, að hún sje athuguð. Það getur engum dulist, að það er ilt og óviðeigandi að hrinda honum fyrirvaralaust úr embætti. Hann afsalaði sjer öðrum störfum, þegar hann tók þessu embætti, aðeins vegna þess, að hann kaus frekar að helga því krafta sína og hafa það sem æfistarf. Á þinginu 1919 mæltu báðar fjárveitinganefndir með því, að þetta starf væri gert að föstu embætti, og í samræmi við það bar stjórnin fram á síðasta þingi frv. um það, að gera þetta starf að föstu embætti, og þó að það næði ekki fram að ganga, þá sýnir það þó, að þingið hefir álitið starfið nauðsynlegt.

Þá er brtt. við 14. gr. B. VIII, sem aðeins er leiðrjetting: í stað „III–VI“ í aths. komi III–VII. Vjelstjóraskólinn hafði fallið undan skólagjaldi, en til þess hafði ekki verið ætlast.

Þá er brtt. við 14. gr. B. VIII. 1. c, sem er breyting á fje til Hólaskóla. Nefndin vill gera samræmi á veitingum til þess skóla og Hvanneyrarskólans, og hefir því lagt til, að fyrir „600“ í 2. lið komi 500, en það er veiting til áhaldakaupa við kensluna. Eðlilegast að gjaldið sje það sama í þessum efnum til Hólaskóla, Hvanneyrarskóla og Eiðaskóla. Sömuleiðis leggur nefndin til, að í stað 4000 kr. í 3. lið komi 3500 kr., sem er til eldiviðar og ljósa, og í stað 3000 kr. í 4. lið vill nefndin að komi 2500. Með þessum breytingum kemst meira samræmi á milli skólanna.

Þá er brtt. við 14. gr. B. XII. 1. Nefndin vill hækka styrkinn til kvennaskólans um 2000 kr. Það er langstærsti skóli landsins í þessum efnum og hefir marga nemendur. Allir eru sammála um það, að kenslan sje mjög góð, og það leynir sjer ekki, að skólinn fer mjög vel með það fje, sem honum er veitt úr ríkissjóði; Akureyrarskóli eyðir t. d. helmingi meira fje. Við viljum að þessi hækkun til skólans sje miðuð við nemendafjölda, og er það heldur hvatning til að færa út kvíarnar. Ennfremur vildi nefndin færa til styrk til Blönduósskólans, svo að hlutfallið yrði líkara kvennaskólans í Reykjavík, og færðum við því 600 kr. frá a-lið og niður í b-lið.

Þá er brtt. við 14. gr. B. XIV. 2. Nefndin leggur það til, að styrkurinn til Flensborgarskólans sje lækkaður um 1000 kr., eða í stað 15000 komi 14000 kr. Nefndin ætlast til, að þeirri lækkun nái skólinn með skólagjaldi, og telur ekki ósanngjarnt að slíkt gjald verði tekið þar af innanbæjarnemendum, í samræmi við það, sem gert er við marga aðra skóla, er njóta styrks úr ríkissjóði.

Við höfum komið með nýjan lið við 14. gr. B. XVII, og er það 1000 króna utanfararstyrkur til forstöðukonu daufdumbraskólans, til þess að kynna sjer nýjar kensluaðferðir, sem aðallega eru fólgnar í að kenna börnunum að tala. Nefndinni þykir sjálfsagt, að þessi styrkur sje veittur, til þess að þessi olnbogabörn þjóðfjelagsins, sem hjer eiga hlut að máli, fari ekki á mis við þá kenslu, sem hægt er að veita þeim.

Þá er brtt. við 14. gr. B. XIX, sem er ekki önnur en sú, að nefndin vill að í stað fyrirsagnarinnar á liðnum, sem er „sundkensla“. komi: sundkensla og leikfimi.

Þá eru ekki fleiri brtt. við þennan kafla, sem jeg þykist þurfa að skýra frá fyr en háttv. þdm. hafa komið með sínar athugasemdir.