05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (1971)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Jakob Möller:

Það var víst jeg, sem viðhafði þau ummæli á síðasta þingi, sem hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) mintist á, að það væri athugavert, hvort ekki væri hjer hneykslismál á ferðinni. Mjer var málið ekki sjerlega kunnugt þá, en eftir því, sem jeg hefi kynst því betur, hefi jeg einmitt hallast að þeirri skoðun, að þetta væri hneykslismál. Jeg hefi síðan kynt mjer skjöl og ýms málsatriði, sem lúta að þessu máli, og virðist mjer ýmislegt í þeim benda ótvírætt í þessa átt. Því er nú haldið fram, að vottorð það, sem landssímastjóri gaf Petersen, hafi verið vísvitandi rangt, og færir hann það jafnvel sem vörn í málinu, að hann hafi gefið rangt vottorð. Það tel jeg þegar fullkomið hneykslisatriði, ef svo háttstandandi þjónustumaður hins opinbera gefur slík vottorð.

Hv. samþm. minn (J. Þ.) vill nú verja þetta með góðsemi landssímastjórans, en þetta er engin vörn, því að hafi hann gefið vottorðið af góðsemi, er hann alt of góðsamur.

En það er fleira, sem fram hefir komið í málsskjölunum og utan við þau, sem gefur ástæðu til athugunar. Því hefir t. d. verið haldið fram, að Petersen hafi fallið í ónáð yfirboðara síns, meðal annars af því, að hann vildi ekki gefa einstökum manni einhverjar upplýsingar, en þær upplýsingar verið þannig vaxnar, að þær mátti ekki gefa; þessu hefir ekki verið mótmælt. Þegar nú hjer er annars vegar um að ræða landssímastjóra og aðra háttstandandi menn, tel jeg ekki ástæðulaust að ætla, að hjer sje um hneykslismál að ræða, ef manninum hefir verið bolað frá stöðu sinni af því, að hann taldi sig ekki mega gera það, sem honum þó m. a. hefir verið gefið að sök, að hann hafi látið ógert.

Hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) vitnaði í orð mín um þetta mál á Alþingi í fyrra. Jeg man nú ekki svo gerla, hvað jeg sagði þá, en geri ráð fyrir, að hv. þm. (M. G.) hafi farið rjett með. En jeg minnist þess, að þessi hv. þm. (M. G.) greiddi atkvæði móti því að greiða Petersen skaðabætur í fyrra, en taldi þó rjett að rannsaka málið. Hvort fyrverandi stjórn hafi rannsakað málið til hlítar, skal jeg ekkert segja um, en jeg heyri nú, að hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) segir, að Petersen muni hafa verið beittur „nokkurri hörku“.

Út af því, sem hæstv. atvrh. (Kl. J.) sagði, fyrir hönd landssímastjóra, þarf jeg ekki margt að segja, því að hv. frsm. (M. P.) hefir áður tekið það til athugunar. Kynlegt þykir mjer það þó, að því skuli nú vera haldið fram af hálfu landssímastjóra, að Petersen hafi sagt af sjer af fúsum vilja, vegna þess, að hann hafi ekki treyst sjer til að stjórna loftskeytastöð. Þetta er alveg nýtt. Það hefir ekki komið fyr fram í málinu. Aftur hefir hinu verið haldið fram, að landssímastjóri hefði viljað losna við þennan mann, af því að hann, landssímastjóri, treysti honum ekki til þess að stjórna loftskeytastöð. Það sagði fyrverandi atvrh. (P. J.) hjer í deildinni í fyrra. Petersen sagði að vísu upp, en ekki fyr en eftir ítrekaðar tilraunir landssímastjóra að fá hann til þess, og full loforð um ríflegar skaðabætur.

Nú segir landssímastjóri, í öðru lagi þó, að Petersen hafi sagt upp af því, að honum hafi þótt launin of lág, í von um að geta fengið betri stöðu sem stöðvarstjóri í Danmörku, en heldur þó fram að laun hans hafi verið sæmileg. Þetta kemur í raun og veru málinu afarlítið við. Petersen gat sagt upp, ef hann vildi, en það er auðsjeð á málsskjölunum, að hann vildi ekki sleppa stöðinni, þó að honum þættu launin lág, því að hann gerði sjer vonir um, eða taldi víst, að þau mundu hækka. Og hvað skeður? Undir eins og Petersen hefir látið af stöðunni, eru launin margfölduð. Nú segir landssímastjóri, að þau hafi verið sæmileg meðan Petersen hafði stöðuna, en hvað urðu þau þá eftir að hann ljet af henni?

Það, sem hv. samþm. minn (J. Þ.) sagði um íhaldssemi landssímastjóra, rekur sig hjer ónotalega á, því að það virðist óneitanlega svo, að hann hafi slept íhaldsseminni, þegar hann margfaldar launin eftir að Petersen ljet af stöðunni.

Þá sagði hæstv. atvrh. (Kl. J.), að auk þess, sem laun Petersens hefðu verið sæmileg, hefði húsið verið keypt af honum að lokum fyrir 65,000 kr. Hvað er verið að gefa í skyn með þessu? Er það það, að húsið hafi verið keypt ósæmilega dýrt, til þess að bæta upp stöðumissinn? Jeg held nú, að Petersen hafi átt kost á að selja öðrum húsið ekki minna verði. En ef það hefir þó verið tilætlunin að bæta honum upp stöðumissinn á þann hátt, þá var það ekki rjett, og kemur þá íhaldssemi landssímastjóra líka enn fram í dálítið óþægilegu ljósi.

Þá sagði hæstv. atvrh. (Kl. J.) loks, að Petersen hefði átt að skjóta máli sínu til dómstólanna, en ekki til þings og stjórnar. Nú er málið þannig vaxið, að maðurinn getur ekki gert það að dómstólamáli; hann sagði upp stöðunni; var að vísu narraður til þess, en þannig, að hann á varla lagalega kröfu til skaðabóta. Myndi hann því varla vinna málssókn á hendur landssímastjóra. Skal jeg þar um vitna í ræðu hv. 1. þm. Skagf. (M. G.). Hann sagði, að þó að hann teldi Petersen geta gert rjettlætis- eða sanngirniskröfu til bóta, mundi hann þó ekki vinna málið fyrir dómstólunum. Þess vegna kalla jeg, að þetta sje að vísa mönnum á gaddinn, þegar þeir eru narraðir úr stöðu sinni, en mál þeirra flækt svo, að þau geta ekki unnist fyrir dómstólunum.

Vegna þessa, sem nú er talið, tel jeg fylstu ástæðu til, að stjórnin rannsaki þetta mál ítarlega, því að þrátt fyrir ummæli hv. 1. þm. Skagf. (M. G.) leyfi jeg mjer að efast um, að fyrverandi stjórn hafi rannsakað það sem skyldi.

Hv. samþm. minn (J. Þ.) stóð upp og vitnaði með landssímastjóra um, að Petersen hefði aldrei verið fær um að stjórna; fórust honum svo orð, að maðurinn væri „óvenjulega óstarfhæfur“. Sem sönnun þess sagði hann, að þessi maður hefði unnið hjá bæjarstjórninni í hálft annað ár að lóðamælingum. Mjer þykir nú að vísu þessi tími nokkuð langur, ef maðurinn hefir verið óvenjulega óstarfhæfur. En þetta er ekkert aðalatriði, því að hv. samþm. minn (J. Þ.) getur ekki borið um starfshæfileika þessa manns við aðra vinnu en lóðamælingar, en nú vill svo vel til, að Petersen hefir unnið að opinberu starfi um skeið undir umsjá manns, sem er „óvenjulega starfhæfur“. Þessi maður er Einar Arnórsson prófessor. Hann gefur Petersen þann vitnisburð, að hann sje dugnaðarmaður og ágætur skrifstofumaður. Það sjest því á þessu, að þó að Petersen kunni að vera „óvenjulega óstarfhæfur“ við lóðamælingar, er ekki svo um öll störf. Þetta er hv. samþm. mínum (J. Þ.) óhætt að skrifa hjá sjer, því að jeg talaði rjett áðan við prófessor Einar Arnórsson, og tjáði hann mjer þá það, sem jeg hefi nú sagt. Af þessu hlýt jeg að álykta það, að það sje fjarri, að það hafi verið sannað, að Petersen hafi ekki verið fær um að gegna stöðu sinni, og eftir vottorði landssímastjóra og ýmsum öðrum skjölum málsins virðist það sannara, að hann hafi gegnt starfi sínu vel. Jeg trúi því ekki, að landssímastjóri hafi gefið algerlega rangt vottorð vísvitandi. Hitt er annað mál, að hann kýs heldur að játa, að hann hafi gefið rangt vottorð, en hitt, að hann hafi misbeitt valdi sínu sem yfirboðari við Petersen. En einmitt þetta ætti frekar öðru að ýta undir, að ítarleg rannsókn færi fram í málinu.

Þá hefi jeg víst ekki fleira, sem jeg vildi taka fram. Jeg er þakklátur hv. fjárveitinganefnd fyrir það, hvernig hún bregst við þessu máli, og jeg vona, að það verði eindreginn vilji hv. deildar, að gengið verði úr skugga um það, að þessum starfsmanni ríkisins hafi ekki verið sýnd rangsleitni af yfirboðurum sínum, og ef hið gagnstæða sannaðist, að hann fengi þá fullar bætur fyrir.

Því hefir verið haldið fram, að Petersen hafi nú fengið allmiklar bætur, þar sem honum voru greiddar í fyrra 5000 kr. skaðabætur, en þess má þó geta, að hann sagði lausri stöðunni eftir því loforði, að hann fengi 10,000 kr. skaðabætur, og var það í raun og veru samningur, þótt hann væri ekki skriflegur.

En hann hefir ekki fengið nema helming af því, sem honum var heitið, og jeg get ekki betur sjeð en að Petersen hafi siðferðislega kröfu á hendur ríkinu um hinn helminginn.

Það er upplýst í máli þessu, að sá ráðherrann, sem um það fjallaði, hafði lýst yfir því við Petersen, að hann færi algerlega eftir tillögum landssímastjóra í launamálum símans, en landssímastjóri hafði gefið Petersen fyrirheit um 10 þús. kr. skaðabætur. Því er það undarlegt, að hann skyldi ekki þegar útborga upphæðina, því nærri má geta, að skaðabæturnar hafa verið á rökum bygðar, úr því landssímastjóri sjálfur ákveður upphæðina.

En annars er það í raun og veru vel farið, að málið hefir ekki verið útkljáð enn á þann hátt, því að það er full þörf og nauðsyn á að rannsaka til hlítar, hvers vegna Petersen hefir verið sagt upp stöðunni. Og tækifærið er gott, þar sem ný stjórn er sest að völdum, sem vænta má að líti á þetta mál hlutdrægnislaust.