05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (1974)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Jón Þorláksson:

Það gladdi mig að heyra, að hv. frsm. (M. P.) sagði, að ekkert í greinargerð till. eða framsöguræðu sinni hefði átt að skiljast á þá leið, að gefið væri í skyn, að landssímastjórinn hefði misbeitt valdi sínu gagnvart þessum undirmanni sínum, er hjer á hlut að máli.

Jeg tek þessa skýringu gilda, enda þótt mjer virtist, að framsagan væri lituð, og tilvitnanir í blaðagreinar og fleira gæfi ástæðu til að halda, að annað lægi á bak við. En þar sem hv. frsm. (M. P.) hefir neitað þessu, þá tek jeg það trúanlegt og fjölyrði ekki frekar um það atriðið.

Viðvíkjandi húsakaupunum ætti þó að megi benda á, að landssíminn þurfti hússins við, en Petersen var með húsakaupunum gert auðveldara fyrir að flytja í burtu, til að leita sjer atvinnu annarsstaðar. Þar á staðnum var ekki um neitt starf að ræða, svo mjer finst, að bæði geti verið um greiða að ræða gagnvart Petersen í þessu sambandi og fullnægingu á þörfum landssímans.

Þá er það vottorðið, sem komið hefir af stað allri þessari herferð. Eins og jeg hefi þegar bent á, þá gaf landssímastjórinn þetta vottorð með það fyrir augum, að Petersen fengi litla símastöð í Danmörku til að stjórna. Landssímastjórinn er svo kunnugur allri starfrækslu þar syðra, að hann telur engan vafa á því, að Petersen gæti komið þar að fullum notum; munurinn er svo mikill á starfinu hjer og þar. Í Danmörku er stöðvarstjórum við smástöðvar látin svo mikil aðstoð í tje, að starf stöðvarstjórans verður aðallega bókhaldið. Og vottorðið var gefið einungis til notkunar við umsókn um slíka stöðu í Danmörku, og landssímastjórinn taldi sig geta forsvarað það gagnvart því veitingarvaldi, er þar á hlut að máli.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði, að Petersen hefði verið narraður til þess að segja upp stöðunni, en hinu hafði jeg haldið fram, að hann hefði orðið að segja af sjer fyr en síðar, vegna þess, er á milli þeirra hafði farið, hans og húsbóndans.

Jeg hefi hjer fyrir framan mig nokkur „prívat“-brjef frá landssímastjóranum, sem Petersen lætur fylgja sem einskonar gögn í máli þessu, og með leyfi hæstv. forseta ætla jeg að lesa upp nokkrar glefsur, máli mínu til stuðnings.

5. maí 1915 skrifar landssímastjórinn: „Jeg vil strax tilkynna yður, að jeg álít yður ekki hæfan til þeirrar stöðu, sem þjer hafið haft í þjónustu landssímans“.

Og seinna í sama brjefi er einskonar skýring á þeim orðum: „Og þar sem þjer getið ekki álitist hæfur í stöðuna, á jeg við, að þar um ráði miklu, að þjer voruð of gamall þegar þjer tókuð við starfinu“. Og byggir það á því, að reynslan sýni, að menn, sem komnir eru um þrítugt, geti aldrei orðið jafnsnjallir afgreiðslumenn á ritsíma eins og þeir, sem venjast strax við það frá æsku.

18. maí 1916 skrifar landssímastjórinn enn, og er þá tilefnið aðallega umkvartanir stöðvarstjórans hjer í Reykjavík út af afgreiðslu Petersens á skeyti frá Vestmannaeyjum og hingað, sem lengi var á leiðinni: „Jeg er honum (þ. e. stöðvarstjóranum) sammála í því, að skriftin og tími sá, sem fer í að senda skeytið, sje með öllu ófært, og það má ekki halda þannig áfram“, og hann undirstrikar það. En endir þessa brjefs hljóðar svo: „Ástandið er sem stendur svo slæmt, að ef það ekki breytist til batnaðar, mun jeg neyðast til að gera alvarlegar ráðstafanir til að bæta úr því á einhvern hátt“.

1918 er enn þá brjef, sem hnígur í sömu átt, umkvartanir yfir afgreiðslunni, en þá koma málsbætur frá stöðvarstjóranum, og þær eru teknar til greina, hvað þann dag snertir, sem kært er yfir. En sem sagt, þessi brjef og skjölin yfir höfuð bera það með sjer, að landssímastjóri hefir lengi talið manninn óhæfan til stöðvarstjórastöðunnar.

Með þessu, sem jeg hefi nú sagt, þykist jeg hafa sýnt, hvers vegna Petersen gat ekki vænst að verða loftskeytastöðvarstjóri, og að hann mátti vita, að að því ræki fyr eða síðar, að hann yrði leystur frá starfinu.

Hv. samþm. minn (Jak. M.) sagði, að jeg hefði kallað Petersen óvenjulega óstarfhæfan, en hann slepti botninum á setningunni. Jeg sagði, að Petersen væri óvenjulega óstarfhæfur af manni, sem hefði þó jafngóða greind til að bera. Og þetta álit bygði jeg á eigin reynslu. Mjer er kunnugt, hvernig honum gengur að vinna verk upp á eigin spýtur, svo sem lóðarmælingar hjer í bæ, sem hann kunni þó vel til. Hitt var mjer alls ekki kunnugt um, hvort hann væri góður skrifstofumaður, en jeg efast ekki heldur um, að svo sje, úr því að vottorð er fyrir hendi um það, enda kemur það óbeinlínis fram í vottorði landssímastjórans, eins og jeg benti á áðan. En jeg átti eingöngu við það starf, sem hann átti að vera fær um að vinna.

Hvað þessa neitun um upplýsingar snertir, þá verð jeg að álíta það eins og hvern annan hugarburð, á meðan ekki eru færð rök fyrir því. (Jak. M.: Er þm. (J. Þ.) svo nákunnugur þessu máli?). Nei, jeg er því ekki kunnugur, eins og gefur að skilja. (Jak. M.: Þá getur hann heldur ekkert um það sagt). En jeg get ekki tekið alt gott og gilt, sem kastað er fram í þessu máli, jafnvel þótt á Alþingi sje.

Jeg held því fram, eins og áður, að rjetta leiðin sje að vísa þessu máli til stjórnarinnar. Með því er ekki útilokað, að það geti komið til þingsins aftur. Það er ekki rjett, að Petersen hafi snúið sjer til stjórnarinnar að þessu sinni. Nú eru ný gögn komin fram í málinu, og þau eiga að sjálfsögðu að ganga sömu leið og aðalmálið, sem sje í gegnum hendur landsstjórnarinnar. Þó er mjer þetta ekkert kappsmál, eftir að hv. frsm. (M. P.) lýsir yfir því, að engar aðdróttanir felist í greinargerðinni eða framsöguræðunni í garð landssímastjórans.