05.04.1922
Neðri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (1976)

74. mál, rannsókn á skaðabótamáli A. L. Petersens

Bjarni Jónsson:

Jeg hefði setið hjá í máli þessu, ef hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefði ekki snúið sjer svo hvatvíslega að fjárveitinganefnd fyrir þau ummæli hennar, að það orð megi ekki fara af Alþingi, að það sjái gegnum fingur við þá, sem misbeita vildu valdi sínu gagnvart undirmönnum sínum. Hefir nefndin með orðum þessum engan úrskurð kveðið upp um mál þetta, enda var það ekki ætlun hennar, heldur að vísa málinu til stjórnarinnar til rannsóknar, en hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir tekið að sjer að verja annan málsaðilja, en áfella hinn, og hefir komið með ýmsar óþarfar árásir í garð hans.

Það er rangt hjá þessum sama þm. (J. Þ.), að maður þessi sje „óvenjulega óstarfhæfur“. Jeg hefi mikil kynni haft af þessum manni, kent honum íslensku skömmu eftir að hann kom hingað, kynst honum síðan og haft fregnir af honum frá öðrum mönnum. Hefir maður þessi yfirleitt rækt störf sín vel, eins og ummæli prófessors Einars Arnórssonar líka sýna, sem hægt er að fá skjalleg.

Um lóðamælingarnar get jeg ekki sagt. En rjett er, að hv. þm. (J. Þ.) eigi við Petersen um þær, þar sem hann fær berið hönd fyrir höfuð sjer, en ráðist ekki á hann hjer á Alþingi, þar sem hann á engan kost varnar. En eftir öðrum ummælum þessa þm. (J. Þ.) er rjett að efast um sannindi þeirra.

Jeg ætla mjer ekki að ráðast á landssímastjóra nje kveða neitt á um, hvor rjettara hefir, en vil aðeins láta rannsaka, hvort óánægja landssímastjórans með mann þennan hefir við rök að styðjast.

Hitt veit jeg, að ummæli þessa sama þm. (J. Þ.) um það, að landssímastjóri hafi gefið rangt vottorð, eru röng. Maður í hans stöðu, sem hefir jafnlengi veitt símanum forstöðu, getur ekki gefið annað en rjett vottorð; hann segir ekki annað en það, sem hann vill og getur staðið við, og hættir ekki á það, að leggja virðingu sína að veði undir dóm erlendra manna.

Þessi sami hv. þm. (J. Þ.) talaði um, að það væri hættulegt, að undirmennirnir væru að vefengja hæfileika landssímastjóra, en það vill nú svo til, að Vestmannaeyingar hafa sjálfir gert það. Allir símanotendur þar hafa krafist, að maðurinn fengi þennan starfa aftur. Hlýtur sú krafa að byggjast á því, að afgreiðsla símans hafi verið í góðu lagi, því að engu skiftir símanotendur skrifstofureksturinn. Sýnist ekki vera gengið á hlut landssímastjóra, þó að nefndin leggi til, að rannsókn fari fram og hver sje látinn njóta síns rjettar. Hefði það ekki einu sinni verið neitt ósanngjarnt, þó að stjórnin hefði skipað hlutaðeigandi embættismanni að höfða mál og hreinsa sig af þessum ákærum. Hefir sá siður tíðkast bæði hjer og erlendis. Má og vera, að rannsóknin hafi það í för með sjer. En það er sjálfsagt, að stjórnin athugi alla málavöxtu nákvæmlega, svo að það sanna megi koma í ljós.

Um húsakaupin er það að segja, að Petersen hefir þar í engu verið ívilnað, því að honum bauðst hærra kaupverð, en hann kaus heldur að ganga að tilboði ríkissjóðs sökum þess, að skuldunauturinn var tryggari. Mun sönnu nær, að Petersen hafi ívilnað landssjóði, því að áhöld öll fylgdu með, og mundi landinu hafa orðið dýrara að kaupa annað hús.

Það sjest því á öllu, að ræða hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) hefir verið alllituð. Eingöngu vörn fyrir annan aðilja, en af hendi fjárveitinganefndar var hvorki sókn nje vörn, heldur það eitt, að stjórnin rannsakaði málið.