21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í D-deild Alþingistíðinda. (1989)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Flm. (Gunnar Sigurðsson):

Það er í sjálfu sjer erfitt að tala í alvarlegum tón um barnagull fullorðinna manna. Mun jeg þó reyna að gera það skamma stund.

Jeg skal þá fyrst stuttlega lýsa því, hvað heimspekilega eða rjettara sagt sálarfræðislega liggur til grundvallar fyrir orðukerfinu.

Meginþátturinn er einhver lægsta hvöt manna, sem sje hjegómagirndin. Það er af sömu hvötum, sem menn sækjast eftir orðum, og villimenn bera hringa í nefinu. Það er af sömu hvötum, sem kínverskar konur gereyðileggja á sjer fæturna með þröngum skóm til þess að ganga betur í augun á karlmönnunum. Það er af sömu hvötum, sem konur í kaupstöðum ganga á svo háum hælum, að heita má, að þær gangi á tánum. Alt er þetta af sömu rót runnið, hjegómagirndinni. Mismunurinn er aðeins stigmunur á menningu. En raunar er munurinn ekki svo mikill. Beri menn t. d. saman mynd af Indíánahöfðingja, sem taldir eru manna glysgjarnastir og hjegómagjarnastir, og mynd af mesta krossbera þessa lands í fullum skrúða, þá verður mismunurinn ekki ýkjamikill.

Enn eru og aðrar tvær vafasamar dygðir, sem konungar og stjórnir hafa einatt kunnað að gera sjer mat úr. Það er barnsleg einfeldni og siðferðislegt þroskaleysi. Það er að sínu leyti eins og þegar barn er gefinn sykurmoli til þess að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, að hengja á menn krossaglingur, annaðhvort til að vera sæmilegir menn í þjóðfjelaginu, eða fyrir að hafa verið það. Það er og einatt hentugt og handhægt vopn í höndum landsstjórna til þess að launa trygga þjónustu og jafnframt að tryggja sjer stuðningsmenn. Ræður að líkum, hvort orðan, þannig notuð, er nákvæmur mælikvarði á manngildi manna. Þessu er vel lýst með vísu Steingríms Thorsteinssonar: „Feigðarkúlan, blint þá bálar stríð, beinist jafnt að hraustum og að rögum. Stjarna og kross í heiðursteikna hríð hittir alveg eftir sömu lögum.“

Næst mun sanni, að slíkt lendi einatt á þýlyndustu og sauðspökustu fylgifiskum, sbr. það, sem eitt íslenskt skáld segir:

„Sælastur ertu, ef sál þín er smá

og sveigjanleg hverjum sem er,

því eftir því, sem hún í vasa fer vel,

þinn vegur hjá stjórninni fer.“

Jeg fyrir mitt leyti tel nú, að það ætti að teljast undir virðingu 20. aldar manna að láta fara með sig eins og börn og láta þurfa að gefa sjer orðu til þess að vera sæmilegir menn.

Þá skal jeg í stuttu máli lýsa sögulegum tildrögum og gangi orðukerfisins. Grundvöllurinn er góður. Kerfið er runnið frá þrengstu kirkjukreddum og munka- og nunnureglum. Enda bera nöfnin þess menjar, svo sem t. d. Guðslambsorðan sænska frá 17. öld. Sú orða er nú lögð niður, og hefði jeg ekki kunnað svo illa við, að nafnið væri tekið upp hjer á landi.

Seinna nota konungar þetta orðuvopn til að halda aðalsmönnunum í skefjum. En þegar aðallinn fer að vaxa konungunum yfir höfuð, fara þeir að nota orðurnar sem meðal til þess að auka álit borgarastjettarinnar.

Skal jeg leyfa mjer að minna í þessu sambandi á Friðrik VI. Danakonung.

Þá ætti okkur Íslendingum ekki að vera sjerstakt áhugamál að halda uppi minningunni um útlenda titla og orður. Það virðist vera verk í óþarfara lagi að reisa þeim íslenskan bautastein, því að svo má kalla, að krossasaga okkar hafi verið einn samanhangandi krossferill fyrir Íslendinga sem þjóð og íslenskt þjóðerni.

Fyrst byrjaði konungsvaldið að herra þá, sem einna rösklegast gengu fram í því að sjúga fje út úr landsmönnum til handa konungsvaldinu. Mætti þar nefna ýmsa ribbalda, svo sem t. d. Björn ríka, sem var mesti misindismaður. Seinna má nefna fjölmörg dæmi þess, að þeir menn, útlendir og innlendir, voru hlutskarpastir á titla og krossa, sem bestir voru liðsmenn konungsvaldsins í því að kúga landsmenn og krefja þá um fje, og fyrstir voru til þess að reisa gapastokkinn, til þess að setja þá í, sem eigi vildu af frjálsum vilja beygja sig undir útlent ok. Ýmsir voru þeir þó af innlendum mönnum, sem tilfinningu höfðu fyrir þessu og væmdi við að þiggja þessar náðargjafir; þá væmdi við kaleiknum, sem danska móðurmundin rjetti að þeim. Síra Bjöm sál. í Laufási kveður meðal annars svo:

Jeg er konungkjörinn,

kross og nafnbót fæ,

í mjer eykst svo mörinn,

að jeg skellihlæ,

hlæ, þótt gráti þjökuð þjóð,

fyrir danska sæmd og seim

sel jeg íslenskt blóð.

Þá vildi jeg minnast nokkrum orðum á sögu fálkaorðunnar á Alþingi. Jeg fullyrði, af umræðum þeim, sem fram fóru um málið á leynifundum, að það var meining flestra þar, að orðan væri aðeins gefin útlendingum. En hvernig hefir framkvæmdin svo orðið? Hún hefir orðið sú, að orðunni hefir verið ausið svo gegndarlaust út, að með sama áframhaldi mundi ekki þurfa marga mannsaldra til þess, að hægra væri að telja þá, sem ekki væru krossaðir, heldur en hina.

Jeg mundi tala nokkuð nánar um orðusetninguna yfir höfuð, reglugerðirnar fyrir henni og allan krossaausturinn, ef jeg hjeldi, að fyrverandi stjórn hefði hjer nokkurn málssvara. Að nafninu til hefir nú nefnd, er fyrverandi stjórn skipaði, vald til þess að strá út krossunum.

Um reglugerðina skal jeg ekki fara mörgum orðum, en á henni er hinn mesti ólánsfrágangur. Orðan veitir hvorki rjettindi nje skyldur, en slíkt á sjer ekki stað um erlendar orður.

Það stendur t. d. í reglugerð Dannebrogsorðunnar, að ekki megi taka menn fasta fyrir glæp, nje veita þeim líkamlega refsingu, er orðan hefir verið veitt, fyr en búið er að taka hana af þeim. Þá hefði og nauðsyn borið til þess að skattleggja orðuna, að minsta kosti sem næmi rentum af þeim nær 20 þúsund krónum, sem búið er að eyða til undirbúnings og tilbúnings orðunnar.

Það væri ekki heldur úr vegi, að hæstv. landsstjórn leiðrjetti einkunnarorð Jóns Sigurðssonar, sem standa á orðunni, en eru ranglega tilfærð, þótt merkilegt sje. Einkunnarorð Jóns Sigurðssonar voru: „eigi víkja“, en ekki: „aldrei að víkja“. Þetta ræður að líkum; forsetinn var vitur maður, en ekki þverhaus. Þeir, sem kynnu að vilja rengja þetta, geta farið upp á safnstofu forsetans hjer í húsinu og sjeð signet hans. Þessi leiðrjetting kemur að vísu því aðeins til greina, að orðan verði ekki feld með öllu, sem vonandi verður reyndar.

Því hefir verið slegið fram, að orðan væri konunglegt „prærogativ“ eða forrjettindi. En það þarf enginn að efast um, að konungur geri annað eða hafi gert annað í þessum efnum en það, sem stjórnin leggur til.

Menn hafa haldið því fram, að þetta orðuprjál væri spor fyrir okkur í sjálfstæðisáttina. Það er nú síður en svo. Jeg tel þvert á móti, að það sje hinn mesti barnaskapur og „humbug“, að smáþjóð eins og við flói öll út í krossahjegóma. Enda er nú svo komið, að allar frjálslyndar þjóðir eru að losa sig sem mest við slíkt tildur. Í Bandaríkjunum t. d. eru orður og titlar ekki til. Franska uppreisnin lagði grundvöllinn að því að fella niður stjettamismun og prjál, og síðan hefir þokað áfram í þessa átt. Ef till. mín, á móti von minni, verður ekki samþykt, þá vil jeg að minsta kosti reyna, með því að bera hana fram, að draga úr því, að orðan verði veitt eins gegndarlaust eftirleiðis. Jeg hefi í sjálfu sjer ekkert á móti því, að lengd sjeu eyrun á útlendingum þeim, sem gaman hafa af slíku glingri, með því að veita þeim orðuna. En mjer er sárara um eyru Íslendinga; þau vil jeg helst ekki lengja til muna. Sjerstaklega er mjer sárt um þingmenn þá, sem það ólán hefir hent að verða krossberar. Af því að mjer er vel við þá, þá kysi jeg heldur, að þeir skiluðu þessu rusli aftur, eða að minsta kosti bæru það ekki.

Um till. hv. þm. Borgf. (P. O.) skal jeg geta þess, að jeg er henni fullkomlega samþykkur, og mun jeg greiða henni atkv. mitt. Jeg var búinn að skrifa slíka till. sem aðaltillögu, en ætlaði að bera fram mína till. til vara, en jeg þóttist vita, að tillaga um að afnema orðuna ætti örðugra uppdráttar og mundi spilla fyrir hinni, og því hætti jeg við að bera hana fram.

Jeg sje ekkert á móti því að afnema orðuna alveg; jeg hefi altaf verið á móti stofnun hennar. Þeir, sem endilega þurfa að hafa eitthvert tildurform, gætu fundið upp á einhverju öðru formi; t. d. mætti gera bændur að konunglegum hirðbændum, skipstjóra að konunglegum hirðskipstjórum, en ráðlegast held jeg væri að sleppa öllu þesskonar tildri; það er á móti þjóðerni og innræti okkar Íslendinga.