10.04.1922
Efri deild: 41. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 339 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

1. mál, fjárlög 1923

Atvinnumálaráðherra (Kl. J.):

Jeg get líka verið stuttorður. Jeg er alveg sammála nefndinni um það, að bifreiðaskattur á að falla niður. Þessi skattur er svo sjerstaks eðlis, að hann á ekki heima í fjárlögum, því það er vegamálastjóri, sem á að ákveða, hvernig honum verður varið, með samþykki stjórnarinnar.

Næsti liður, sem mig snertir. er brtt. við 13. gr. B. II. 6. Nefndin leggur til, að styrkur til Flóabrautarinnar sje látinn falla niður. Það er rjett, að Árnessýsla er orðin allskuldug og hefir ekki getað greitt sinn hluta af akbrautartillaginu, en samt verð jeg að telja það mjög athugavert að láta styrkinn falla niður með öllu. Fjvn. Nd. hefir lagt til, að veittar væru 10000 kr. til aðgerðar og endurbyggingar á brautinni gegn því, að sýslan leggi fram þriðjung kostnaðar. Þetta sýnist nú í fljótu bragði vera hættulaust. Þó jeg geti ekki haft á móti rökum nefndarinnar, þá er vegurinn svo fjölfarinn, að það liggur við, að það sje óforsvaranlegt að fresta aðgerð á honum í ár. Árnessýsla er varla í raun og veru svo illa stæð, að hún geti ekki lagt fram einn þriðja af þeirri upphæð, sem hjer er farið fram á. Sýslan var áður talin ein af ríkustu sýslum landsins, og væri ilt til þess að vita, ef fjárhag hennar væri svo komið, að hún yrði að hafna veitingu þessari sökum þess, að hún gæti ekki greitt hið uppsetta tillag. Væri svo komið, að sýslan gæti með engu móti staðið í skilum, þá gæti það auðvitað ekki komið til neinna mála að veita henni fje eða uppgjöf á lánum. Það væri ranglæti gagnvart öðrum sýslum, sem líka hafa akbrautir.

Þá vil jeg lítillega minnast á C-lið 13. greinar. Hvað viðvíkur upphæðinni, sem veitast á til mótorbátsferða til Grímseyjar, þá álít jeg að slíkt hefði eigi þurft að taka fram sjerstaklega; jeg mundi óhikað hafa þorað og talið mjer skylt að greiða til þessara ferða eftir þessum lið, þó að Grímsey sje utar fjörðum og flóum.

Svo er annað atriði, sem jeg vil minnast á. Jeg vildi vita álit háttv. deildar um það, hvort ekki mundi rjett að selja skipið Borg. Það hefir komið til tals milli okkar Nielsens framkvæmdarstjóra, og er hann því meðmæltur. Skipið borgaði sig allvel í fyrstu og hefir ekkert á því tapast, en það hefir enga fasta áætlun og verður ekki álitið nauðsynlegt. Álitlegt boð hefir komið í það frá dönsku firma, og þótt það sje langt fyrir neðan það verð, sem Borg er skráð fyrir, þá má vel við það una. Jeg veit að þetta mál kom til tals í sjútvn. og samgmn., og vil beina því til fjvn. að taka það til athugunar og koma með það við 3. umr. Landsstjórninni veitir ekki af því, að hafa eitthvað handbært í útlendri mynt, þegar hún á að fara að greiða vexti og afborganir af erlendum lánum í næstkomandi júlímánuði.

Þá skal jeg taka það fram, að jeg er samþykkur brtt. háttv. nefndar við 13. gr. fjárlaganna E. II., um 300 kr. persónulegan styrk til vitavarðarins við Gróttuvitann.

Hann hefir verið vitavörður í 25 ár og er orðinn aldraður maður. Hann er ennfremur fatlaður, einfættur, og á því bágt með að stunda nokkra aðra atvinnu. Getur hann ef til vill róið eitthvað til fiskjar, en þó mun það ekki vera meira en til þess að afla heimilinu matarfanga. Maður þessi sneri sjer til mín nokkru eftir að jeg var orðinn ráðherra, og vísaði jeg honum þá til þingsins. Jeg vil því leyfa mjer að þakka nefndinni fyrir það, að hafa komið fram með þessa till., og vona jeg, að háttv. deild samþykki hana.

Þá vildi jeg leyfa mjer að fara nokkrum orðum um brtt. háttv. nefndar við 14. gr. B. VIII. 1. c. Sje jeg að till. nefndarinnar muni vera settar til að samræma liðina við tilsvarandi liði í öðrum skólum. Þetta er rjett að því er snertir 2. og 4. lið. Álít jeg að skólanum beri þar eigi meira fje en Hvanneyrarskóla eða Eiðaskóla. En um 3. lið er öðru máli að gegna. Eins og mönnum er kunnugt, liggja Hólar langt uppi í landi og er því mjög örðugt þar um alla aðdrætti. Er mjer sjerstaklega kunnugt um, hversu kostnaðarsamt þetta er, frá þeirri tíð er jeg var landritari. En alt öðru máli er að gegna um Hvanneyri, því þar er miklu hægra um alla aðdrætti.

Skólastjórinn á Hólum hefir með rökum sýnt fram á allan flutningskostnað, og verð jeg því hiklaust að álíta, að 3. liður sje þar alt of lágur í samanburði við hina skólana. Þó má vera, að tilsvarandi liður við Eiðaskóla sje fulllágur.