21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (1991)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Forsætisráðherra (S. E.):

Jeg skal ekki vera langorður eða fara að ræða, hvaða þýðingu orður hafa yfirleitt. Heldur vildi jeg aðeins leiða athygli hins háa Alþingis að því, að orða þessi var stofnuð 3. júlí 1921, í tilefni af komu hans hátignar konungsins. Og eins og tekið hefir verið fram, var samþykt fyrst á einkafundi í sameinuðu þingi 1919 að stofna hana, og mig minnir ekki betur en það væri gert með allmiklum meiri hluta. Mjer finst það því líta illa út að fara að afnema orðuna nú, af sama þinginu, sem stofnaði hana. Jeg sje ekki annað en það bendi á of mikinn hringlandahátt, og sje jafnframt taktleysi gagnvart þeim útlendu mönnum, sem þegar hafa fengið hana. En hins vegar er ekki nema sjálfsagt að gera ekki of mikið að því að veita orðuna, en eins og kunnugt er, hefir sjerstök nefnd tillögurjett í þessu máli.

Eins og jeg tók fram áðan, þá er hjer óneitanlega um taktspursmál að ræða.