21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (1992)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Magnús Guðmundsson:

Fáein orð út af því, sem sagt hefir verið í garð fyrv. stjórnar.

Hinum almennu hugleiðingum hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) tel jeg óþarft að svara. Hann ætlaði að fara að hnýta eitthvað í fyrverandi stjórn, en brölti strax til baka, er hann fann sig kominn á hálan ís.

Jeg vil þá fyrst benda á, að orða þessi var stofnuð eftir ákvörðun þingsins sjálfs, í tilefni af komu konungs í fyrra. Og nefnd var skipuð, sömuleiðis eftir ákvörðun þingsins, til þess að stjórna öllum málefnum orðunnar, og var þetta beinlínis gert til þess að girða fyrir, að nokkur stjórn gæti misbrúkað hana. Þessa hefði hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) átt að geta, ef hann hefði viljað skýra alveg rjett frá, því að af þessu leiðir, að ef orðan hefir verið misbrúkuð, hlýtur það að lenda á orðunefndinni, en getur ekki lent á fyrverandi stjórn, sem engan rjett hafði til að „krossfesta“ neinn, ekki einu sinni tillögurjett um innlenda menn. Höggið lenti því í alveg rangan stað, ef hann hefir ætlað það fyrverandi forsætisráðherra (J. M.).

Þá talaði hv. þm. (Gunn. S.) um, að orða þessi hefði í upphafi aðeins verið ætluð útlendingum. En þetta er ekki rjett. Og jeg var einmitt á fundinum, sem fyrst var rætt um hana, og man jeg ekki betur en tekið væri fram, að ef útlendingum væri aðeins ætluð hún, myndi þeim finnast hún lítils virði. Því ef hún væri ekki ætluð innlendum mönnum líka, væri sama og segja við útlendingana: Þetta getið þið haft, en við viljum ekki sjá það.

Að stjórnin hafi krossað sína vildarmenn, getur ekki verið um að tala. Hafi þeir því fengið of marga krossa, hlýtur það að vera sök nefndarinnar.

Einnig talaði hv. þm. (Gunn. S.) um, að þetta væri „húmbúgs“-nefnd. Því geta nefndarmennirnir svarað sjálfir, ef þeim líst, þar sem 3 af þeim eiga sæti hjer á Alþingi.

Þá talaði hv. þm. Borgf. (P. O.) um það, að undirtektirnar undir stofnun þessarar orðu hefðu verið daufar á þinginu 1919. En það geta ekki talist daufar undirtektir, þegar aðeins tveir eru á móti af öllu þinginu, og var þá skýrt tekið fram, hvernig fyrirkomulag orðunnar var hugsað. Einnig var þá tekið fram, að skipuð yrði sjerstök orðunefnd. Þess vegna er það rangt hjá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) að kenna fyrverandi stjórn um, að hún hefði skipað nefndina, þegar gengið var út frá því í byrjun, og stjórnin tók það sem gefinn hlut.

Það, sem hv. þm. Borgf. (P. O.) var að tala um, að fyrverandi stjórn hefði brotið sína eigin reglugerð, með því að flytja inn glysvöru, tek jeg fremur sem spaug en alvöru. En jeg vil benda hv. þm. (P. O.) á, að undanþága frá þeirri reglugerð var heimiluð.

Ef hv. þm. vilja draga úr veitingu krossanna og þykir of mikið verið hafa veitt af þeim, þá ber að beinast að nefndinni, sem samkvæmt reglugerðinni veitir þessar orður, en ekki að stjórninni. Þessi orðunefnd var sett á stofn samkvæmt vilja þingsins 1919, er áleit þá aðferð við veitingu orðunnar hagkvæmari og koma í veg fyrir, að stjórnin notaði hana til að afla sjer fylgismanna.

Hafi nefndin farið illa að ráði sínu, þá má geta þess, að nú er laust sæti í nefndinni, og mætti þá setja mann í hana, sem treysta mætti til að vera ekki of ör á að veita orðuna. T. d. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Annars má benda á, að þetta er ekki eina „húmbúgið“, sem á sjer stað, en jeg fer ekki frekar út í það að sinni.(Gunn. S.: Best að koma með það strax). Nei, jeg mun ráða, hvað jeg segi hjer og hve nær, og tel rjettast af hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) að láta sig það ekki skifta.