21.04.1922
Sameinað þing: 10. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (1995)

52. mál, hin íslenska fálkaorða

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg vil ekki segja, að mjer þyki þetta merkilegt mál. Jeg vil ekki heldur segja, að mjer þyki það með öllu ómerkilegt mál.

Jeg lít á það eins og ýmislegt fleira, sem gerist með þjóð vorri nú, eins og sjúkdómseinkenni, sem ekki ber svo lítið á í þjóðlífinu. Feli Alþingi einhverjum manni starf, sem því ber skylda til að lögum, má hann vera nærri viss um að vera níddur fyrir það í blöðunum. Sje öðrum mönnum sýndur einhver sómi, þá er ráðist á hann, sóma hans, starf og mannorð. Þetta hafa sum blöðin tamið sjer mjög um merka menn undanfarið, og jafnframt notað það til svívirðinga við menn, sem ekki bera ábyrgð þeirra ráðstafana. Sjúkdómurinn er hvimleiður, ekki síst í litlu þjóðfjelagi. Hjer er verið að bera hann inn í þennan sal og farið að taka undir gal blaðanna. Dálitla eftirtekt getur þetta vakið út á við, og ekki verður það til þess að auka virðinguna fyrir þinginu, hvorki hjá erlendum mönnum nje innanlands. Þessi orða er nýstofnuð, með samþykki alls þingsins að heita má. Nú þykir sumum það einna mesta þarfamálið að afnema hana strax aftur. Yfir höfuð eru rassaköstin á þessu þroskalitla þingi mjög íhugunarverð.

Það, sem hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.) sagði um þá menn, er fengið hafa krossa fyr og síðar, tel jeg drengjalega talað. Jeg segi drengjalega, en ekki drengilega. (Gunn. S.: Og öldungurinn!). Nú hvíla margir þeir sæmdarmenn í gröf sinni, sem fengu heiðursmerki, og eru orð tillögumanns (Gunn. S.) ósæmileg um þá mörgu þjóðnýtu menn. — Að menn voru „herraðir“, er alt annars eðlis en orður og því eigi sambærilegt.

Jeg álít þinginu sæmilegast að fella þessa tillögu. Jeg fer lítið út í það, hverja þýðingu það hefir eða kann að hafa fyrir þetta litla ríki að veita orður. En oft er oss sá greiði gerður af erlendum mönnum, að sjálfsagt þykir að sýna þeim þakklætisvott. En þar sem vjer erum hvorki örir nje stórtækir á fje eða gjafir, þá er gott að geta veitt þeim viðurkenningu á þennan hátt.

En þá fer það þó fyrst að verða einkennilegt, ef erlendum mönnum á að veita þessar orður eingöngu. Það er meira en óviðfeldið að veita útlendum mönnum þau heiðursmerki, sem vjer Íslendingar viljum eigi vera þektir fyrir að bera.