24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í D-deild Alþingistíðinda. (2008)

90. mál, landsverslunin

Frsm. meiri hl. (Ólafur Proppé):

1) Mjer þykir vænt um, að hæstv. forseti (M. K.) hefir ákveðið, að ræða skuli báðar till., á þskj. 269 og 270, í einu. Hefði jeg annars farið þess sama á leit.

Eins og till. bera með sjer, gat nefndin ekki orðið á eitt sátt. Vann hún þó óskift að málinu og rannsókn þess, sem aðallega lá í því, að fara gegnum reikninga, skoða ýms plögg, er lutu að versluninni, skuldaliði o. fl.

Framan af leit vel út með, að nefndin yrði öll sammála, en endalokin urðu þó önnur. Orðalag tillagnanna er þó næstum eins. Það, sem milli ber, er aðallega það, að meiri hlutinn notar orðið eingöngu, þar sem minni hlutinn hefir aðallega, er ákveða skal, í hvaða átt landsversluninni skuli beint. En allir eru þó sammála um það, að hún eigi að fara hægt í það að gera ný innkaup á vörum, utan tóbaks og steinolíu.

Það var greinargerðin, sem aðallega skifti flokkum í nefndinni. Skal jeg ekki fara mikið út í hana, því að jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. hafi kynt sjer hana rækilega og borið saman frá báðum hálfum.

Þess ber þó fyrst að geta, að endurskoðun nefndarinnar hefir aðeins verið yfirborðsendurskoðun, og á engan hátt tæmandi, sem naumast var von, þegar þess er gætt, að nefndin gat aðeins varið til þess 3–4 dögum. Ítarleg rannsókn í þessu máli hefði krafist að minsta kosti tveggja manna í 2–3 mánuði.

Hinir skipuðu endurskoðendur reikninganna eru dr. Ólafur Daníelsson og Gísli Ísleifsson skrifstofustjóri. Mun síðasta endurskoðun þeirra hafa farið fram í mars síðasta ár, þar eð annar hefir verið veikur.

Um tildrög landsverslunarinnar er það að segja, að þegar ófriðurinn skall á 1914, átti þingið setu, og var þegar gengið að því að samþykkja lagaheimild handa stjórninni, til þess að vera viðbúinn að afstýra þeim voða, sem búinn var versluninni vegna ófriðarins. Var stjórninni heimilað lán til innkaupa á vörum, svo ekki yrði skortur í landinu. Átti lagaheimild þessi aðeins að gilda til eins árs, og ekki grípa til þessa, nema við þyrfti. Þingið 1915 samþykti og samhljóða lagaheimild fyrir stjórnina. Næsta ár var stjórninni einnig falið að annast innkaup á vörum og veitt ótakmörkuð lánsheimild.

Öll árin, til 1916, var verslunin í höndum stjórnarráðsins, en enginn sjerstakur forstjóri hennar. En frá 1917 er tekið að reka verslunina sem sjerstaka stofnun, og frá áramótum 1918 voru skipaðir þrír forstjórar fyrir landsverslunina, þeir Ágúst Flygenring, kaupmaður í Hafnarfirði, Hallgrímur Kristinsson og Magnús Kristjánsson alþingismaður.

Um þær mundir hafði landsverslunin mestan hluta alls innflutnings til landsins. Var það næstum nauðsynlegt, því að ýms ríki gerðu það beinlínis að skilyrði, að verslunin gengi í gegnum hendur ríkisstjórnarinnar, til þess að tryggja viðskiftin. þriggja manna stjórnin stóð svo til 1920, eða rúmu ári lengur en ófriðurinn.

Frá byrjun stefna þó allar umræður í þá átt, að hjer sje aðeins um bráðabirgðabjargráð að ræða, sem afnema beri þegar að ófriðnum loknum. Nú eru næstum fjögur ár síðan, og landsverslunin bráðum átta ára gömul.

Bráðlega, að loknum ófriðnum, taka líka að heyrast raddir um það, að láta landsverslunina hætta störfum, eins og útflutningsnefndina og eins og aðrar ófriðarráðstafanir voru þá látnar niður falla. Urðu þær raddir æ háværari, eftir því, sem lengra leið.

Á síðasta þingi tók viðskiftanefnd Nd. málið til meðferðar, og komu fram tvær till., frá meiri og minni hluta nefndarinnar. Samþykti þingið þá till., sem getið er um á þskj. 269, í greinargerð meiri hlutans, um að takmarka mjög innflutning á vörum, en beina starfi verslunarinnar meira að því að innheimta skuldir. Markar því þingið í fyrra þá stefnu, að landsverslunin skuli lögð niður. En það er skilningurinn á þessari stefnu, eða öllu heldur till. sjálfri, frá síðasta þingi, sem klofið hefir nefndina nú.

Það er nú á allra vitorði, að síðastliðið ár hefir landsverslunin rekið allmikla innflutningsverslun. Má gera ráð fyrir, að ef hún hefði haldið sig við till. frá því í fyrra, þá mundu ýmsir reikningar líta öðruvísi út.

Vil jeg taka upp, með leyfi hæstv. forseta, nokkur orð fyrverandi atvrh. (P. J.) frá síðasta þingi, er hann talar um landsverslunina:

„ — — Jeg hefi áður lýst yfir því fyrir stjórnarinnar hönd, að hún er ekki hneigð til ríkisverslunar með almennar vörur yfirleitt. Þótt hún flytti frv. á þessu þingi um einkasölu á einstökum vörum, þá var það í sjerstöku augnamiði um hvert þeirra fyrir sig, sem engan verslunarlegan tilgang hafði. Stjórnin getur því ekki fallist á, að landsverslunin, slík sem hún hefir verið, eigi að vera framtíðarfyrirtæki“.

Út af sjálfri till. farast fyrverandi atvrh. (P. J.) þannig orð:

„Þá er till. hv. þm. Ak. (M. K.).

Hún gerir ráð fyrir því, að keypt verði kol, steinolía, salt, sykur og kornvörur. En hjer er aðeins um heimild að ræða, en enga skipun, og getur stjórnin þá farið eftir því, hve þörfin er brýn“.

Það er á þessu sviði, sem meiri hluti nefndarinnar hyggur að landsverslunin hafi farið lengra en góðu hófi gegndi, samkvæmt vilja síðasta þings. Aftur á móti hefir hún ekki lagt eins mikið kapp á að innheimta skuldimar. Munu skuldir landsverslunarinnar vera öllu hærri nú en 1921. Að vísu hefir sumt borgast af gömlum skuldum, en vörur voru ávalt keyptar á vörur ofan, svo að vegna vörubirgða varð að lána á ný. Lítur meiri hluti nefndarinnar svo á, að einnig í þessu hafi verið um of farið á snið við vilja þingsins. Má kenna fráfarandi stjórn um það, að hvað þetta snerti hafi hún ekki haft nægilegt eftirlit með framkvæmdum verslunarinnar. Því í fyrra kom það greinilega fram í umræðum í þinginu, að takmarka bæri mjög innflutning, nema í brýnustu nauðsyn.

Leyfir því meiri hluti nefndarinnar sjer að gera þá fyrirspurn til hinnar fráförnu stjórnar, hverjar sjerstakar ástæður voru fyrir hendi, þá er hin ýmsu vörukaup voru gerð, og hvort kaup þessi í hverju einstöku tilfelli voru gerð að ráðstöfun stjórnarinnar og með hennar vilja og vitund?

Að vísu mun hjer ef til vill ilt um svör, þar sem hjer situr nú aðeins einn maður úr hinni gömlu stjórn, en sjái hann sjer ekki fært að svara þessari spurningu, alt fram að áramótum, getur hann þó eigi skorast undan að svara, hvort ráðstafanir þær, sem gerðar voru eftir áramótin síðustu, og sennilega eftir að hann tók við atvinnumálaráðherraembættinu, hafi verið undir komnar fyrir einhverjar sjerstakar, knýjandi kringumstæður, og hvort þessar ráðstafanir hafa verið gerðar að undirlagi eða í samráði við hæstv. stjórn.

Það er skoðun meiri hluta viðskiftamálanefndar, að á liðnu ári og til þessa tíma hafi aldrei þær kringumstæður verið fyrir hendi, sem rjettlætt gætu þessar ráðstafanir, sem óumflýjanlega hlutu að vera mikil áhætta á þessum verðfallstímum. Þó kannast nefndin við, að nauðsyn muni hafa verið til kolakaupa á öndverðu sumri, vegna kolaverkfallsins mikla á Bretlandi, en tæpast verður landsversluninni þakkað fyrir afskifti hennar af því máli, því að ekki var það landsverslunin, sem bjargaði úr því bráðasta öngþveiti, að togararnir yrðu allir að stöðvast, heldur „prívat“-maður, eða fjelag, sem rjeðst í að kaupa kolafarm frá Ameríku. Á elleftu stundu sendi svo landsverslunin „Borg“ til Belgíu eftir kolafarmi, sem álitinn var nær því ónothæfur og enn er ekki nærri uppseldur.

En vissulega er óhætt að segja, að upphaflegi tilgangur landsverslunarinnar sje nú úr sögunni.

Áður skifti hún mest við sýslu- og bæjarfjelög, en nú eru aðalviðskiftamennirnir ýmsir kaupsýslumenn og kaupfjelög, sem skifta nú við ríkissjóðinn, eingöngu í þeim tilgangi að reka sína eigin atvinnu, og þykir eðlilega gott, að öðru jöfnu, að nota til þess aðstoð ríkisins og lánshjálp, sem þá er ef til vill ekki heldur annarsstaðar að fá.

Þá er það og einnig síst að undra, þótt einstaklingar, sem á það komast, þyki það þægindi og vafalaust sparnaður að geta fengið vörurnar á sama stað með þægilegum skilmálum, meira að segja oft til láns. Slíkt er engum láandi, en hollustan er ekki til frambúðar, eða að minsta kosti geta verið um það skiftar skoðanir.

Það er því engum vafa undirorpið, að verslunin er komin langt frá sínu upprunalega ætlunarverki, og frá því sjónarmiði sjeð mun hún tæpast eiga tilverurjett lengur.

Landsverslun við Pjetur og Pál, kaupmenn og kaupfjelög, álítur meiri hluti nefndarinnar, að megi ekki eiga sjer stað. Fjárhagur ríkisins er ekki svo glæsilegur. Þarf ekki annað en líta til hinna nýafgreiddu fjárlaga fyrir árið 1923, sem bera merki hins ítrasta sparnaðar, og það ekki síður hvað verklegar framkvæmdir snertir, svo sem símalagningar og fleira. Væri fje það, sem bundið er í landsversluninni, óefað betur komið annarsstaðar.

Margar aðrar þjóðir tóku upp líkar ráðstafanir og vjer, er ófriðurinn skall á, en þeim til hróss má segja það, að þær hafa skilið betur en vjer tilgang þeirra, og hafa nú tekið þær af. Svo er bæði um Dani og Norðmenn o. fl. T. d. setti breska þingið nefnd, þegar að ófriðnum loknum, sem rannsaka átti og gera tillögur um, hvort halda skyldi eða sleppa ýmsum slíkum ráðstöfunum, er þeir höfðu sett á stofn, líkt og vjer, t. d. landsverslun og útflutningsnefnd.

Nefndin komst að þessari niðurstöðu, sem jeg nú skal lesa, með leyfi forseta:

„Besta ráðið til þess að koma verslun og framleiðslu á rjettan kjöl eftir ófriðinn liggur í dugnaði og framsýni borgaranna. Það meðal verður aldrei bætt, hvorki með styrk frá ríkissjóði, nje með stjórnareftirliti eða ráðstöfunum. Hin leiðandi stefna í allri verslunarpólitík eftir stríðið verður þess vegna að byggjast á einstaklingnum, á borgaranum, hvort sem hann er neytandi eða framleiðandi, verksmiðjueigandi, kaupmaður, bankamaður, útgerðarmaður, vinnuveitandi eða vinnuþiggjandi.

Það verður að veita hverjum og einum sem best tækifæri til að þroska viljakraft sinn og framkvæmdasemi“.

Þessar till. nefndarinnar gerði svo stjórnin að sínum till., og er langt síðan hún hefir losað sig við allar slíkar ráðstafanir.

Árangurinn er líka kominn í ljós hjá Bretum. Þarf eigi annað en benda á, að bankavextir eru þar nú aðeins 4%. Það er engin skömm fyrir oss að feta í fótspor þeirra, sem komið hafa slíku vandræðamáli í gott horf.

Að öllu þessu athuguðu er það eindregin skoðun meiri hluta nefndarinnar, að landsverslunin sje ónauðsynleg sem bjargráðastofnun, en rekstur hennar á hinn bóginn, að áliti meiri hlutans, kominn inn á ranga braut. Því er það, að till. meiri hlutans er orðuð svo ákveðið, að um ekkert nálarauga geti þar verið að ræða, því að meiri hlutinn vill enga ábyrgð bera á framtíðarrekstri verslunarinnar, ef svo skyldi fara, að till. næði ekki fram að ganga.

Það, sem hjer að framan hefir verið sagt, gildir því nær eingöngu fyrsta lið tillögunnar, á þskj. 269.

Jeg mintist áðan lítillega á annan liðinn, og skal jeg nú fara nokkru nánar út í hann. Skuldirnar hafa farið hækkandi. Það hefði mátt búast við hinu gagnstæða, þegar tekið er tillit til ályktunar síðasta þings. Að minsta kosti hefði mátt gera ráð fyrir, að skuldirnar væru yfirleitt trygðar, eða samningar um þær gerðir, en nefndin hefir ekki orðið þess vör. Það er t. d. áberandi, að skuldaupphæðin við eitt útibúið er um 170 þús. kr., og er það mikið, af ekki stærri verslunarveltu. En það má fara nærri um, hvernig og hvers vegna þessar skuldir eru stofnaðar. Landsverslunin lá með mikið af vörum, þegar verðfall fór að verða að mun, og kaus hún þá heldur að flýta sjer að koma þeim út, þó að hún yrði að lána, heldur en að verða fyrir beinu tapi. En þegar svo er farið að braska með ríkisfje, þá er ekki gott að vita, hvar lendir.

Jeg sje, að hv. minni hluti hefir tekið upp í nál. sitt flokkun skuldanna, sem meiri hlutinn hafði gert við rannsókn málsins. Meiri hlutinn áleit ekki rjett að gefa mönnum undir fótinn með að greiða ekki skuldir sínar, en það er gert með því að lýsa yfir því, að 14 hluti skuldanna teljist tapaður. Menn munu óspart nota sjer þetta og greiða ekki nema 3/4, þó að þeir gætu greitt alt. Þeir sjá enga ástæðu til, að ríkissjóður gefi frekar upp öðrum en sjer. Þetta getur því orðið til stórbaga fyrir verslunina, og vildi meiri hlutinn ekki taka slíkt upp í greinargerð sína. En úr því að farið er að ræða þetta mál opinberlega, get jeg látið það í ljós, að jeg býst við þessum afföllum, ef ekki meira, um það er öll kurl koma til grafar.

Um 3. lið till. sje jeg ekki ástæðu til að fara mörgum orðum. Allir virðast vera sammála um það, að sjálfsagt sje, að verslunin hafi á hendi tóbaksverslunina og hafi hönd í bagga með steinolíuversluninni.

Jeg hirði ekki um að fara hjer mikið út í reikningana. Jeg vildi aðeins athuga ofurlítið efnahagsreikninginn.

Varasjóður er nú í reikningunum talinn 1,908,792 kr., en það mun víst engum dyljast, að hann muni minka stórum áður en lýkur. Þarf þar ekki annað en að benda á skuldirnar, sem ógreiddar verða, og svo á væntanlega rýmingarsölu, þegar verslunin er að hætta. Jeg vil engu spá um það, hve miklu þessi lækkun kann að nema, en sennilega verður sjóðurinn lítið fyrir ofan 500 þús. kr.

Því hefir verið haldið fram, að enginn gæti amast við landsverslun í frjálsri samkepni. En meiri hlutinn hlýtur að spyrja: Hvenær getur ríkisverslun talist í frjálsri samkepni, eða svo, að hún standi jafnt að vígi einstaklingunum? Mjer skilst, að það verði aldrei, og liggja til þess margar orsakir. Jeg vil hjer minnast á þá veigamestu, skattfrelsið. Verslunin greiðir engan eigna- eða tekjuskatt og ekkert aukaútsvar. En ef þær upphæðir, sem í þetta hefðu farið, væru reiknaðar með, þá held jeg, að varasjóðurinn væri farinn að minka. Auk þessa nýtur verslunin ýmsra hlunninda, svo sem ívilnana um yfirfærslu o. fl. Jeg held því, að óvilhallir menn geti tæplega talað um, að landsverslunin sje í frjálsri samkepni. Þessi fríðindi, sem landsverslunin nýtur, verða að leggjast á herðar annara, og þá helst kaupsýslumanna og útgerðarmanna. Og það, sem þeir verða að bera vegna hennar, er ekkert smáræði. Jeg hefi leitað mjer upplýsinga um, hve mikið muni vera lagt á kaupsýslumenn, og hefi jeg komist að þeirri niðurstöðu, að um 10% af verslunarveltu sje lagt á smásala, en um 5–8% á heildsala, eftir því, hvaða vörur þeir selja. Til samanburðar skal jeg geta þess, að Steinolíufjelagið — og því er yfirleitt ekki hossað hátt — hefir nú greitt 117 þús. kr. útsvar, en það svarar um 6 kr. á hverja tunnu. Jeg segi þetta ekki til þess að lofa eða verja þetta fjelag. Jeg nefni það aðeins sem skýrt dæmi til samanburðar, og þó að menn vilji ekki gerast málssvarar fjelagsins, er þetta þó sannleikur, sem ekki er gangandi fram hjá.

En úr því jeg mintist á steinolíufjelagið, þá vil jeg benda á, að einmitt steinolíuverslun landsverslunarinnar hefir mætt misjöfnum dómum og orðið að blaðamáli. Jeg get ekki slept því, að minnast nokkuð frekar á þetta mál.

Út af blaðadeilum þessum barst nefndinni erindi frá Jóni Bergsveinssyni, forseta Fiskifjelagsins, þar sem hann æskir þess, að nefndin taki þetta deilumál til rannsóknar. Erindið var mjög hógværlega og kurteislega orðað, og gat því nefndin ekki gengið fram hjá því. En hún sendi vitanlega forstjóra landsverslunarinnar erindið til umsagnar og upplýsinga. En hvorugt hefir komið enn, og kemur sennilega ekki úr þessu, og er nefndin satt að segja talsvert undrandi yfir því. Um þetta steinolíumál hafa gengið ýmsar sögur, sem bæla þarf niður, ef þær eru ósannar, og skýt jeg því til hæstv. stjórnar, að hún taki málið til athugunar.

Það má ekki skilja þessi orð mín svo, að meiri hlutinn sje að amast við steinolíuverslun ríkisins. Hann telur hana sjálfsagða, eins og sjest á 3. lið, og einmitt þess vegna vill hann, að verslunin hreinsi sig undan ámæli, og gefst henni kostur á því við þessa rannsókn. Eins hefir heyrst, þótt fyrverandi stjórn neitaði, að hún vissi nokkuð um það, að landsverslunin hafi gert samninga við fjelag það, sem hún skiftir nú við, en það heitir „British Petroleum Co.“. Um þetta atriði þyrfti einnig hið sanna að koma í ljós.

Í sambandi við landsverslunina væri ef til vill ástæða til að minnast á útgerð ríkisins. En þetta mál hefir orðið út undan í till., og er því varla leyfilegt að fara út í það hjer. Jeg hefi líka heyrt, að samgöngumálanefnd hafi haft málið til meðferðar og látið í ljós álit sitt á því. Það er vitað, að útgerðin stendur höllum fæti, svo sem eðlilegt er, en samband landsverslunarinnar og útgerðarinnar er dýpra en svo, að hægt sje að kryfja það hjer.

Meiri hlutinn er í fullu samræmi við vilja kjósendanna, og sanna þingmálafundargerðir það. Þingmálafundir eru nær undantekningarlaust á þeirri skoðun, að landsverslun eigi ekki lengur tilverurjett. Aðeins einn fundur, í Stöðvarfirði í Suður-Múlasýslu, er á annari skoðun, en hann lítur á verslunina sem bjargráðaverslun og vill halda henni í því formi, sem hún var í fyrst. Jeg þarf ekki að telja upp þessar þingmálafundargerðir; hv. þm. geta kynt sjer þær, ef þeir vilja. En það er merkilegt tímanna tákn, hve einróma þær eru.

Áður en jeg lýk máli mínu vil jeg minna menn á, að í dag er 24. apríl. í dag eru 68 ár síðan verslunin var gefin frjáls, og sjaldan hefir slíkt heillaspor verið stigið í sögu Íslendinga. Jeg þarf ekki að minna á allar þær góðu og miklu afleiðingar, sem þetta hefir haft í för með sjer. Þær eru svo augljósar. Jeg vil ekki heldur rifja upp sögu einokunarinnar fram að 1854. Hún er of raunaleg til þess, enda hefir hún einnig verið skráð og geymist svo öldum og óbornum. En við munum minnast best 24. apríl í dag með því að leysa verslun landsins úr þeim læðingi, sem hún hefir komist í við styrjöldina, því að þau bönd, sem ef til vill hafa verið til styrktar áður, eru nú orðin fjötur, sem hindrar frjálsa framsókn.

1) Ó. P. hefir ekki farið sjálfur yfir handrit skrifara að þessari ræðu.