24.04.1922
Sameinað þing: 12. fundur, 34. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (2009)

90. mál, landsverslunin

Frsm. minni hl. (Sigurjón Friðjónsson):

Þó að till. á þskj. 269 og 270 sjeu nokkuð líkar að orðalagi, stefna þær þó mjög sín í hverja átt; fyrri till. að því að hætta þegar öllum innkaupum til landsverslunarinnar, sem bjargráða- og samkepnisverslunar, en hin síðari að halda henni áfram fyrst um sinn um óákveðinn tíma, í líku horfi og verið hefir, og þó með áherslu og áminningu um innheimtu á skuldum verslunarinnar. Meiri hl. grundvallar sína till. aðallega á röksemdafærslu um það, að versluninni fylgi ábyrgð og áhætta fyrir ríkissjóð. En vjer minni hl. menn álítum, að reynslan sýni, að sú ábyrgð og áhætta sje ekki mikil fram yfir það, sem brýn nauðsyn stöku sinnum heimtar, eins og t. d. hefir komið fyrir í kolaversluninni.

Meiri hlutinn sýnir nú allan rekstur verslunarinnar í sínu ljósi, eins og eðlilegt er. Hann leggur áherslu á það, að ef verslunin hefði ekki orðið fyrir sjerstöku happi á síðastliðnu ári, gróða á peningagengi, hefði orðið hjá henni rekstrartap. Hann tekur fram, að því er virðist í átöluskyni, að rekstrarkostnaður hafi vaxið á árinu, miðað við viðskiftaveltu. Hann undirstrikar það, að skuldir verslunarinnar hafi fremur vaxið en minkað á árinu, þrátt fyrir aðvörun síðasta þings, og gerir sem minst úr því, í líku skyni, að því er virðist, að viðskiftaveltan hafi minkað á árinu, og hendir um leið hnútu að fyrverandi stjórn um vanrækslu á eftirliti með versluninni. Úr öllu þessu gerir svo meiri hlutinn áhættugrýlu, sem í mínum augum að minsta kosti er ekki annað en þokumynd. Það má vel segja, að rekstrartap hefði orðið á versluninni, ef gengishagnaður hennar hefði ekki verið annars vegar. En hitt má líka segja, og að mínu áliti með meira rjetti, að ef verslunin hefði ekki orðið að greiða á árinu verðfall á vörum frá fyrra ári, verðfall, sem stafaði af alveg sjerstökum ástæðum, kolaverkfalli í Englandi o. fl., hefði hún grætt yfir hálfa miljón króna, eða rjettara sagt um 600 þús. kr., og það er ekki svo lítill skildingur.

Það er rjett, að rekstrarkostnaður hefir vaxið á árinu hlutfallslega við viðskiftaveltu. En þetta er bein og eðlileg afleiðing af fyrirskipun síðasta þings, um að færa verslunina saman, og viðleitni forstjórans að hlýða þeirri fyrirskipun, og situr því ekki vel á nefndinni eða þinginu að finna að því. Og um hnútuna til fráfarandi stjórnar, um eftirlitsleysi með versluninni í þessu sambandi, vil jeg segja það, að mjer finst hún koma úr hörðustu átt, þar sem um suma meiri hluta menn er að ræða. Mjer er nú enn þá svo meinlaust við gömlu stjórnina, að jeg finn enga löngun hjá mjer til að kasta að henni hnútum að ástæðulausu.

Það er að vísu rjett, að skuldir verslunarinnar hafa lítið minkað á árinu, en er það nú í rauninni hægt, eða var að búast við því, í svona erfiðu verslunarári, þar sem um bjargráða- eða hjálparverslun er að ræða? Og skuldirnar, sem meiri hlutinn virðist vilja gera svo mikið úr, eru þær nú í rauninni miklar, saman borið við skuldavafstrið í landinu yfirleitt? Mjer sýnist það ekki vera, og mjer sýnist einkum, að þær skuldir, sem hætta er á að tapist, sjeu tiltölulega alveg furðulitlar. Flokkun skuldanna á þskj. 270 er aðallega gerð af meiri hluta mönnum í nefndinni, andstæðingum verslunarinnar, og ætti það að vera trygging fyrir því að töpuðu skuldirnar sjeu ekki of lágt metnar. Og þó eru þessar áætluðu, töpuðu skuldir, sem jeg held að sjeu of hátt áætlaðar, ekki nema um 3/4% af viðskiftaveltu verslunarinnar frá því í maí 1917, og er þó eitthvað af skuldunum eldra.

Jeg vil því fyrir mitt leyti ekki gera mikið úr áhættugrýlunni, en hitt er annað mál, hvort nauðsynlegt sje að halda versluninni áfram fyrir það. Um þá hlið á málinu treysti jeg mjer enn þá ver að dæma. Jeg hygg nú samt reyndar, að mótspyrnan gegn landsversluninni sje aðallega og því sem nær eingöngu frá kaupmannastjettinni og af því sprottin, að hún sje talin þar slæmur keppinautur. En þetta tek jeg mjer ekki sjerlega nærri, því að mjer finst kaupmannastjettin, satt að segja, óþarflega fingralöng. Samt sem áður er það skoðun mín, að landsverslunin eigi ekki að starfa sem samkepnisverslun til lengdar. Jeg get ekki annað sjeð en að samkepni sje nauðsynleg í viðskiftalífinu, og á þeim grundvelli rjettmætast, að samkeppendur standi jafnt að vígi. Og því verður ekki neitað, að landsverslunin stendur að sumu leyti betur að vígi en samkeppendur hennar.

Að jeg þá tel rjett að halda henni enn áfram fyrst um sinn, er af þessum ástæðum:

1. Að jeg hygg, að innheimta skuldanna verði á þann hátt haganlegri og ódýrari.

2. Að mjer sýnist enn þörf fyrir hana, og byggi það einkum á því, hve margir leita athvarfs hjá henni.

3. Að mjer sýnist hún blátt áfram gróðafyrirtæki fyrir landið, og komin langt á leið með að afla sjer rekstrarfjár handa nýbyrjaðri og tilvonandi einkasöluverslun, sem jeg álít að vel megi vera einn þátttakandinn í hinni almennu verslunarsamkepni, að minsta kosti um stundar sakir.

Á eitt aðalatriði þessa máls hefi jeg enn ekki minst, og það er fje það, sem verslunin bindur fyrir ríkissjóði og nú er um 2 milj. kr. Þessi skuld fer stöðugt minkandi, og mun nú um þetta leyti enn vera, eða verða, minkuð töluvert. Má vænta þess, að ef árferði fer batnandi, eins og nú horfir, og verslunin innheimtir skuldir sínar, eins og til er ætlast, að hún skili ríkissjóði lánsfje hans fljótlega, svo að ekki verði á hana talið að því leyti til lengdar, heldur hafi hún þá þvert á móti aflað þess fjár, sem ríkissjóður annars hefði þurft að leggja fram handa hinni nýbyrjuðu einkasöluverslun.